131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:07]

Frsm. félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Þetta mál er að ég tel nokkuð þekkt og meginefni frumvarpsins er að veita leyfi til að hækka lán Íbúðalánasjóðs í allt að 90% af matsverði eigna. Félagsmálaráðherra verður áfram heimilt að ákveða hámarkslán með reglugerð en slíka heimild hefur hann haft frá setningu laga nr. 44/1998.

Nefndin gerir tillögur um ákveðnar breytingar á frumvarpinu sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

1. Lagt er til að við bætist ný grein sem verði 4. gr. en þar segir að íbúðabréf skuli gefin út sem framseljanleg rafrænt eignaskráð verðbréf. Hér er aðeins um tæknilegt atriði að ræða sem þó skiptir máli til að eyða hugsanlegri óvissu við framkvæmd útboða íbúðabréfa. Þörf er á þessari breytingu til að taka skýrt fram að markmið ákvæðisins er að tryggja að íbúðabréf séu rafbréf, óháð því hvort þau eru skráð í Verðbréfaskráningu Íslands eða hjá öðrum verðbréfaskráningum, svo sem hjá Euroclear, eins og nú er.

2. Lagt er til að við bætist ný grein sem verði 5. gr. Samkvæmt henni getur ráðherra heimilað Íbúðalánasjóði með reglugerð að bjóða skuldurum ÍLS-veðbréfa að afsala sér rétti til að greiða upp lán eða greiða aukaafborganir gegn því að greiða lægri vexti.

Með þessari breytingu getur félagsmálaráðherra heimilað Íbúðalánasjóði sama svigrúm við lánveitingar og aðrar fjármálastofnanir njóta samkvæmt almennum lögum á hverjum tíma, nú lög um neytendalán, nr. 121/1994, með síðari breytingum. Nokkur óvissa ríkir um heimildir fjármálastofnana í þessum efnum og hefur Samkeppnisstofnun málið til skoðunar. Þar til niðurstaða í því máli liggur fyrir telur nefndin rétt að beðið verði með setningu reglugerðar á grundvelli þessa ákvæðis. Jafnframt vill nefndin taka fram að augljóst er að efni slíkrar reglugerðar hlýtur að taka mið af niðurstöðu Samkeppnisstofnunar í málinu.

3. Lögð er til breyting á 5. gr., sem verður 7. gr., þess efnis að vextir af lánum til leiguíbúða geti verið fastir eða breytilegir. Fastir vextir munu ákveðast á sama hátt og vextir ÍLS-veðbréfa en Íbúðalánasjóður skal ákveða breytilega vexti við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert. Breyting þessi er til samræmis við nýja 5. gr. frumvarpsins. Lán til leiguíbúða eru ekki háð ákvæðum laga um neytendalán, nr. 121/1994, en rétt þykir að ákvörðun um þóknun fyrir uppgreiðslu láns verði bundin í reglugerð á sama hátt og mælt er fyrir um í 5. gr.

4. Lögð er til breyting á 1. mgr. 9. gr. og er þar lagt til að lögin öðlist þegar gildi.

Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Jóhanna Sigurðardóttir, Gunnar Örlygsson og Katrín Júlíusdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara um einstaka þætti málsins, t.d. uppgreiðsluálag, og leggja einnig megináherslu á hækkun hámarkslánsfjárhæðar. Áskilur minni hlutinn sér rétt í því sambandi til að styðja og flytja breytingartillögur.

Álfheiður Ingadóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu en tekur undir sjónarmið minni hlutans.

Eins og áður sagði er meginefni frumvarpsins að hækka lán Íbúðalánasjóðs í 90% af matsverði eignar af hóflegu íbúðarhúsnæði og er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í því máli. Frá því hins vegar að þessi fyrirætlun var kynnt hefur orðið afskaplega mikil breyting á íslenskum íbúðalánamarkaði eins og menn þekkja og stærsta breytingin er auðvitað sú að nú hafa bankarnir loksins tekið virkan þátt á þessum markaði og lána núna til íbúðakaupa. Sá sem hér stendur segir loksins því að þetta er eitthvað sem ég hefði viljað sjá gerast fyrr. Þetta er auðvitað fyrst og fremst afleiðing af stærð og styrk þessara fjármálastofnana því sem betur fer, og það er ánægjulegt ekki bara út frá þessari forsendu heldur mjög mörgum öðrum, eigum við stórar og öflugar fjármálastofnanir sem hafa styrkst á undanförnum árum og geta boðið viðskiptavinum sínum núna íbúðalán á mun hagstæðari kjörum en sést hafa áður og á sama hátt ýta þau undir útrás íslenskra fyrirtækja til annarra landa eins og oftsinnis hefur verið nefnt.

Hins vegar ber að hafa í huga eins og þingheimur sem og þjóðin þekkir að fasteignaverð hefur hækkað mjög á undanförnum missirum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu en það er hins vegar ekki alfarið bundið við þetta svæði. Þar hefur margt komið til. Menn þekkja umræðuna um lóðaskort í stærsta sveitarfélagi landsins sem hefur verið ein stærsta ástæðan fyrir því að fasteignaverð hefur hækkað en nú hefur svo sannarlega líka komið til hækkun vegna þess að menn hafa aukið fjármagn á hagstæðari kjörum á þessum markaði en áður hefur verið.

Ég vil nota þetta tækifæri til að segja, og ég vona að þeir þingmenn sem taka þátt í þessari umræðu taki undir, að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að fasteignaverð hækki endalaust. Það skiptir máli að það komi frá okkur sem og öðrum þeim aðilum sem um þetta fjalla. Ef eitthvað er alveg öruggt er það það að fasteignaverð mun ekki hækka með sama hraða og það hefur gert á undanförnum mánuðum og missirum. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er einfaldlega sú að ef menn gera ráð fyrir því, hvort sem það eru einstaklingar sem taka lánin eða þeir aðilar sem halda utan um hagstjórnina eða koma að öðrum ákvörðunum, taka þeir ekki ákvarðanir á réttum forsendum og einhvern tíma verður skellur. Við þekkjum dæmi um lækkun fasteignaverðs í þeim löndum sem við berum okkur saman við og eru í nefndarálitinu nokkur dæmin tekin en sú upptalning er síður en svo endanleg eða fullnægjandi. Með leyfi forseta vil ég þó vitna í nokkur dæmi.

Á árunum 1986–1993 lækkaði fasteignaverð í Noregi um 48%. Á árunum 1989–1993 lækkaði fasteignaverð í Finnlandi um 50% og á árunum 1989–1993 lækkaði fasteignaverð í Bretlandi um 30%. Ef menn skoða þetta út frá þeim forsendum sem eru gefnar upp hjá OECD er meðatal af niðursveiflu fasteignaverðs í 29 tilfellum í ríkjum OECD 15–17% samkvæmt niðurstöðum eða þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá Seðlabankanum. Menn þurfa að hafa í huga, hvort sem um er að ræða 90% lán, ég tala nú ekki um 100% lán, að eðli málsins samkvæmt er engin eignamyndun eða mjög lítil, sérstaklega fyrstu árin. Eignamyndun á fasteignamarkaði hjá almenningi hefur fyrst og fremst legið í því — af því að skuldsetning hefur verið mikil, það er ekki nýtt — að fasteignaverð hefur hækkað. Ef þessar hækkanir stöðvast hins vegar, ég tala ekki um ef það snýst við og fasteignaverð lækkar, þýðir það að hér verður um að ræða neikvæða eignamyndun.

Nú hafa viðbótarlán verið til staðar, 90% viðbótarlán, og þess eru dæmi — menn þekkja það sem að þeim málum koma — að einstaka aðilar hafi farið flatt á þeim. Ef þeir hefðu þurft að selja íbúðina sína tiltölulega skömmu eftir kaup hefðu þeir hreint og klárt verið í mínus.

Þess vegna skiptir máli að allir þeir aðilar, hvort sem það eru þeir sem taka lánin, þeir sem veita þau eða þeir sem ræða þau, séu meðvitaðir um þetta. Það eru auðvitað misjafnar aðstæður hjá hverjum og einum, og auðvitað er íslenskri þjóð og því fólki sem kaupir sér húsnæði hér á landi treystandi til þess að taka ákvörðun út frá eigin forsendum. Hins vegar er mikilvægt að öllu sé haldið til haga og ég tel mjög mikilvægt að þingmenn geri það einnig.

Það kom fram í umræðum áðan um skuldir heimilanna hjá einum hv. þingmanni Framsóknarflokksins að viðkomandi þingmaður fagnaði varnaðarorðum bankastjóra Landsbankans, Sigurjóns Árnasonar, þegar hann tilkynnti að bankinn færi út í 100% lán. Þá fór hann akkúrat yfir það að það skipti máli fyrir einstaklinga og fjölskyldur að vera meðvituð um þessar staðreyndir og fara vel yfir stöðu sína áður en farið er út í kaup með slíkri lánsfjármögnun. Og ég fagna því þegar forsvarsmenn fjármálastofnana tala þannig. Ég er þess sannfærður að þeir aðilar sem að þessum málum starfa hjá þeim stofnunum, og þá er ég að tala um fjármálastofnanir almennt, hvort sem það er hjá Íbúðalánasjóði eða bönkum, upplýsi viðskiptavini sína um þær hættur sem eru til staðar.

Menn hafa mikið rætt, og hér var áðan utandagskrárumræða sem var í sjálfu sér mjög gott að fá, um skuldir heimilanna. Ég fagna slíkri umræðu og vil nota tækifærið, virðulegi forseti, í þessu sambandi og vekja athygli á þeirri skýrslu sem var gerð fyrir BSRB um skuldir íslenska þjóðarbúsins. Hún er greinargóð og tekur vel á þessu máli og ég hvet bæði þingmenn og aðra til að kynna sér hana. Hún er á heimasíðu BSRB. Þar er enn og aftur staðfest sem menn þekkja, að ríkissjóður hefur verið í fararbroddi við það að lækka skuldir og er auðvitað mjög ánægjulegt að sjá samanburð skulda íslenska ríkisins við þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Allir þingmenn hljóta að fagna þeim árangri sem náðst hefur og að sjá að þar er Ísland með þeim allra bestu.

Hins vegar hafa aukist skuldir hjá heimilunum og skýrsluhöfundar fara vel yfir það hverjar þær helstu ástæður eru að þeirra mati. Þar er t.d. nefndur ungur aldur þjóðarinnar og vitnað í það, svo að ég lesi nú beint úr úrdrætti skýrslunnar, með leyfi forseta, að í „skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá árinu 2003 kemur meðal annars fram að sjóðurinn telji að um 60% af erlendum skuldum landsins megi rekja til ungs aldurs þjóðarinnar“. Munurinn á íslenskri þjóð og þeim þjóðum sem við berum okkur saman við, sérstaklega Evrópuþjóðum og þá kannski þeim sem kenndar hafa verið við gömlu Evrópu eða Vestur-Evrópu, er hvað íslensk þjóð er mun yngri en þessar þjóðir.

Þá er einnig farið í það að lífeyriskerfið, okkar góða lífeyriskerfi, ýti undir skuldasöfnun. Það er með sjóðasöfnun sem hefur líka þá sérstöðu í samanburði við löndin sem ég nefndi áðan — er þess vegna staða okkar mun betri og er það mikið samkeppnisforskot — að þar telja skýrsluhöfundar þessa vörn, eignarréttindi sem felast í þessari sjóðasöfnun, mjög gott mál. Stærstan hluta skulda heimila má hins vegar rekja til fjárfestingar í íbúðarhúsnæði samkvæmt skýrsluhöfundum, hvort sem litið er til Íslands eða annarra ríkja. Um 80% landsmanna búa í eigin húsnæði og það er eitt hæsta, ef ekki hæsta, hlutfall sjálfseignarhúsnæðis sem þekkist. Það er auðvitað mjög ánægjulegt. Í skýrslunni er rakið að íslenska skattkerfið hafi í rauninni hvetjandi áhrif á lántökur til húsnæðiskaupa og er þá verið að vísa í vaxtabótakerfið sem ég hef nú lýst yfir áður að við þyrftum að skoða gaumgæfilega, m.a. út frá þeim forsendum.

Aðalatriðið í þessu finnst mér þó vera að um þetta frumvarp er eftir því sem ég best veit ágætissátt í þinginu. Ég held að allir fagni þeirri breyttu stöðu sem er komin á húsnæðislánamarkaði. Það er ánægjulegt að sjá fleiri aðila en áður bjóða þjónustu hvað íbúðalán varðar og vonandi munum við sjá þessa stöðu verða hér til langs tíma. Ég efast svo sem ekkert um það, ég er þess sannfærður að bankarnir eru komnir til að vera.

Það sem snýr að okkur er hins vegar það lagaumhverfi sem Íbúðalánasjóður býr við. Eins og ég segi held ég að menn hafi farið ágætlega yfir það í nefndinni og það er ágætissátt um það, bæði meðal meiri og minni hluta. Ég vil hins vegar nota tækifærið hér og segja að við eigum, hvort sem það snýr að þessari lagasetningu eða í umræðum almennt, ekki að gera neitt, þingmenn, sem skapar þær aðstæður að ýta undir þenslu í samfélaginu. Það borgar sig frekar að stíga varlega til jarðar en fara af stað með miklu offorsi því að það er mikið í húfi. Ég vonast til þess og er þess sannfærður að hin mikla verðhækkunarbylgja sem hefur verið á fasteignum sé að ná hámarki og við náum fljótlega jafnvægi hvað það varðar. Við eigum ekki að fara út í neitt, löggjafinn frekar en aðrir aðilar, sem ýtir undir aðra þætti, þvert á móti ættum við að reyna að gera hvað við getum til að minnka þá þenslu sem hefur verið á markaðnum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Eins og ég sagði er ágætissátt um þetta í félagsmálanefndinni og ég tel að við höfum farið vel yfir þetta þrátt fyrir að nefndin hafi tekið sér tiltölulega skamman tíma í þetta verkefni. Það var sátt um það í nefndinni að reyna að hraða þessu sem mest mátti vera. Án nokkurs vafa styrkir frumvarpið starfsemi Íbúðalánasjóð á þessum markaði og erum við á undanförnum mánuðum búin að gera ýmislegt til að styrkja sjóðinn til þess að hann geti náð fram þeim markmiðum sínum að veita íbúðakaupendum eins hagstæð lán og kostur er. Af þessu tilefni vísa ég í þá lagasetningu sem við fórum í á vormánuðum sem hefur án nokkurs vafa ýtt undir það að Íbúðalánasjóður hefur getað boðið viðskiptavinum sínum sem hagstæðust kjör. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að sjá til þess að íbúðakaupendum á Íslandi gefist kostur á að fá eins hagstæða fyrirgreiðslu við íbúðakaup og búa við eins góð skilyrði og mögulegt er hvað það varðar. Það liggur alveg fyrir að það umhverfi hefur breyst á undanförnum mánuðum mjög til hins betra og vonandi heldur sú þróun áfram.