131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:25]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var ánægjulegt að hlýða á ræðu þessa hv. þingmanns sem talaði hér áðan. Ég verð að segja að þeir sem hafa viljað stuðla að félagslegri uppbyggingu húsnæðis í landinu hljóta að hafa fagnað þessum nýja liðsmanni. Það er ekki langt síðan það var eitt af helstu baráttumálum Heimdallar og ýmissa samtaka sem hv. þingmaður hefur stutt í gegnum árin að leggja niður Íbúðalánasjóð. Hér kemur hv. þingmaður og, ja, ég segi nú ekki að hann sé að vinna til frelsisverðlauna Heimdallar með þessu en hann leggur hér fram tillögur sem styrkja undirstöður Íbúðalánasjóðs. Það er undrunarefni en ánægjuefni fyrir marga, og auðvitað er það gott þegar þingmenn sjá að sér.

Það sem mér þótti þó merkilegast við ræðu hv. þingmanns var sá stríði varúðartónn sem var í orðum hans gagnvart stöðunni í samfélaginu. Hv. þingmaður talaði hér langt mál og snjallt um þróun fasteignaverðs og í framhaldi af því sagði hann að það væri skylda okkar þingmanna allra að gera allt sem við gætum til að draga úr þenslunni í samfélaginu. Í framhaldi af því rifjaði hv. þingmaður upp að tekið hefði verið saman að í 29 tilvikum þar sem hefði verið niðursveifla á fasteignaverði hefði sú sveifla að meðaltali numið 15–20%. Klárlega var hv. þingmaður að reisa flagg varúðar gagnvart þeirri þróun sem er á Íslandi.

Ég verð hins vegar að segja að ég er ekki eins svartsýnn og hv. þingmaður varðandi stöðuna í samfélaginu. Hv. þingmaður talar með mjög neikvæðum hætti um hugsanlegar afleiðingar af þróuninni á íslenskum fasteignamarkaði og er augljóslega að lýsa því yfir að það gæti orðið bankakreppa. Eða lendum við ekki í bankakreppu, herra forseti, ef þessi niðursveifla á fasteignaverði sem hv. þm. var að lýsa í öðrum löndum verður líka hér?