131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:32]

Frsm. félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég taki aftur fögnuð minn yfir því að fyrrum ritstjóri Þjóðviljans hafi eitthvað skipt um skoðun. Allir sem hlustuðu á niðurlag ræðu hans heyrðu að komin voru gömul og góð leiðaraskrif úr Þjóðviljanum sáluga þar sem allt var að fara fjandans til (Gripið fram í.) ef frelsinu væri veittur forgangur. (ÖS: Ég var einmitt að segja …) Allt væri að fara fjandans til og þess vegna þyrftu menn að hafa opinberar stofnanir, virðulegur forseti, til þess að bjarga.

Ég hef ekkert skipt um skoðun í húsnæðismálum. Ég tel að við getum alveg náð þeim markmiðum sem við náum fram með Íbúðalánasjóði með öðrum hætti. Það hefur ekkert breyst hvað það varðar. Það vita allir, og veit allur þingheimur. Ég er hins vegar hér sem varaformaður félagsmálanefndar að koma í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar sem er auðvitað málamiðlun á milli aðila, bæði innan flokka og milli flokka. Það er ekkert leyndarmál. (Gripið fram í.)

Hins vegar annaðhvort skilur hv. þm. Össur Skarphéðinsson ekki þá hluti sem ég var að fara hér yfir eða hann hefur ekki hlustað. Ég hélt því ekki fram úr þessum stól að það sem ég var að fara yfir hér mundi ýta undir lækkun um 15–17%, það var ekki það sem ég sagði. Ef hv. þingmaður hefði hlustað ætti honum að vera það algjörlega ljóst. Það sem ég hins vegar vara við, svo að það sé alveg kristaltært, er að menn tali með þeim hætti sem þeir hafa gert. Menn eiga ekki að gera það. Þegar stjórnarandstaðan kemur hér upp og hvetur til þess að íbúðalán fari í 20–25 millj. er hún að ýta undir verðhækkanir á þessum markaði. Það er algjörlega kristaltært og öllum ljóst.

Sú gamla tugga, nútímaútfærsla vinstri mannsins sem berst gegn skattalækkun fyrir venjulegt fólk, að þær ýti undir þenslu stenst enga skoðun. Ef stjórnarandstaðan vill í alvöru styrkja fjölskyldurnar í landinu lækkum við að sjálfsögðu skatta á þeim.