131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:53]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gat þess í ræðu sinni sem var mjög yfirgripsmikil og ágæt að minni lánastofnanir þyldu ekki þá samkeppni sem væri á lánamarkaðnum og jafnvel gæti farið illa fyrir sumum þeirra. Hún á þá væntanlega við sparisjóði, sérstaklega úti á landi, hina minni sparisjóði.

Sparisjóðirnir eiga marga vini á þingi. Það kom fram í vetur. Sérstaklega eru landsbyggðarþingmenn vinir þeirra. Þingmaðurinn vill auka samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs enn frekar með því að hækka hámarkið og gera hann á allan máta eins samkeppnishæfan og hægt er. Þar með eykur hann samkeppni á þessum lánamarkaði, harkan vex og það kemur væntanlega þessum litlu lánastofnunum enn verr. Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Er það það sem hv. þingmaður vill?