131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:57]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni. Hv. þingmaður hefur lýst því yfir að hún vilji auka samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs til þess að hann lifi af. Nú er það þannig að þegar t.d. Íbúðalánasjóður lækkaði vexti nýverið eltu allir bankarnir þá lækkun og urðu að gera það, annars misstu þeir viðskiptamenn sína. Þannig er samkeppnin einu sinni. Þessar minni lánastofnanir sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni að gætu lent í vandræðum verða líka að elta samkeppnina, ella missa þær viðskiptamenn sína.

Ég spyr hv. þingmann: Vill hún auka samkeppnishæfni Íbúðalánasjóðs enn frekar vitandi það að markaðurinn verður að bregðast við og gera þessum minni lánastofnunum svo erfitt fyrir að þær geti jafnvel ekki starfað? Hvað segja landsbyggðarþingmenn í flokki hv. þingmanns við þessari stefnu hennar að gera Íbúðalánasjóð eins samkeppnishæfan og hv. þingmaður leggur til, hækka hámarkið o.s.frv.?