131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:35]

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér koma fjáraukalög fyrir árið 2004 til lokaafgreiðslu. Meginhluti þess sem verið er að greiða atkvæði um í fjáraukalagafrumvarpinu er búið að afgreiða. Framkvæmdarvaldið hefur þegar tekið ákvarðanir um flesta þætti þess sem verið er að greiða atkvæði um og þess vegna er nánast formsatriði af hálfu þingsins að staðfesta það sem þegar er orðið.

Engu að síður er ástæða til þess að fagna ákveðnum breytingum sem gerðar eru þó löngu hafi verið ljóst að bæta þyrfti úr, en það er sérstaklega aukið fjármagn til framhaldsskólanna. Reyndar var ljóst við fjárlagaafgreiðslu fyrir ári að framhaldsskólarnir voru settir í mikinn fjárhagsvanda eins og raun varð á sl. sumar þegar þeir gátu ekki tekið inn nemendur vegna fjárvöntunar. Úr nokkru hefur hér verið bætt. Engu að síður fara framhaldsskólarnir inn í næsta ár með nokkur hundruð millj. kr. halla sem er algerlega óverjandi aðgerð og á svig við lög að stofnanir fari með halla með þeim hætti milli ára.

Ég vil einnig víkja að öðrum þætti sem mér finnst að þingið hefði átt að taka á af meiri myndarskap, en það er aukið framlag til sveitarfélaganna, en fjárhagur margra sveitarfélaga er afar slæmur eins og komið hefur rækilega fram í umræðum á þingi. Ríkinu ber skylda til þess að sjá til þess að fjármagn til almennra velferðarmála, hvort sem er á vegum ríkis eða sveitarfélaga, sé nægilegt svo hægt sé að standa undir lögboðinni þjónustu eins og ráð er fyrir gert. Mörg sveitarfélög sárvantar fjármagn til þess að standa undir þeirri þjónustu og hefði þurft að leggja fram aukið fé til þeirra mála.

Ég legg fram tillögu til lokaafgreiðslu fjáraukalaga um að veitt verði aukið framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga upp á 250 millj. kr. til þess að styrkja frekar og að nokkru þau sveitarfélög sem verst eru stödd.

Virðulegi forseti. Frumvarpið er algjörlega unnið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og af meiri hluta hennar. Eins og ég hef áður rakið munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sitja hjá við heildarafgreiðslu frumvarpsins.