131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[13:59]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og glögga ræðu um þær breytingar sem eru hér til umræðu á Íbúðalánasjóði. Hann kom að kjarna málsins í ræðu sinni eins og þess hv. þingmanns er von og vísa. Það varðar framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs eftir þessar miklu og róttæku breytingar á lánamarkaði og hann spyr hæstv. félagsmálaráðherra hvernig hann sjái sjóðnum best fyrir komið. Þetta er stórpólitísk spurning.

Því vildi ég spyrja hv. þingmann sömu eða svipaðrar spurningar: Hvernig sér hann aðkomu ríkisins að íbúðalánamarkaðnum eftir þær breytingar sem nú eiga sér stað? Að margra mati blasir við að Íbúðalánasjóður hökti nú haltur á eftir hinum í kjölfar þess sem er að gerast á lánamarkaði og haldi ekki í við breytingar sem þar eru að verða. Þá kemur upp sú spurning hvort ríkið eigi almennt að keppa við einkafyrirtæki á þessum markaði. En stærsta spurningin er að sjálfsögðu þessi: Hvernig tryggjum við öllum landsmönnum öruggt aðgengi að íbúðalánum, burt séð frá búsetu? Allir vita að íbúðalán bankanna miðast fyrst og fremst við suðvesturhornið og nágrannabyggðir, en alls ekki við landsbyggðina og hvað þá þar sem hvað mest sverfur að. Því vildi ég spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann þessum hlutum háttað í framtíðinni? Á ríkið að láta af almennri samkeppni á þessum markaði en einbeita sér að því að halda úti einhvers konar félagslegum jöfnunarsjóði sem lánar þá til þeirra svæða sem bankarnir og aðrar lánastofnanir lána ekki til? Á það að vera hlutverk ríkisins? Á það að standa undir slíkri starfsemi eða verður þar látið skeika að sköpuðu? Ég vildi fá viðhorf hans til þessara mála.