131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:03]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að heyra þau viðhorf sem fram komu í máli hv. þingmanns um að hann hafi samúð með þeim sjónarmiðum að tryggja þurfi landsbyggðinni og efnaminna fólki aðgengi að íbúðalánum á sömu kjörum eða alls ekki lakari en gerist og gengur nú á hinum frjálsa markaði. Ég get einnig tekið undir að auðvitað er það eftirsóknarverð staða að ríkið sé í sem allra minnstum mæli þátttakandi á frjálsum lánamarkaði. Það er að sjálfsögðu eftirsóknarverð staða.

En hlutverk okkar er að tryggja það að þessar breytingar, þessi öra og hraða þróun — sem er held ég örari og hraðari en við flest sáum fyrir eða gátum ímyndað okkur — leiði ekki til þess að landsbyggðin og íbúðaeigendur eða væntanlegir kaupendur þar og seljendur lendi í vanda með að fjármagna kaup og sölu á fasteignum sínum. Því tel ég það standa upp á stjórnvöld að koma fram með hugmyndir um hvernig eigi að bregðast við þessu sjái menn fram á það að endalok Íbúðalánasjóðs blasi við, sjái menn fram á að það sé staðan að Íbúðalánasjóður sem slíkur sé að syngja sitt síðasta. Fram kom í máli forstjóra sjóðsins fyrir nokkrum dögum, Guðmundar Bjarnasonar, að hann teldi, að mér skildist, að svo gæti orðið ef þessi þróun héldi áfram.

Það verður þá að liggja skýrt fyrir, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, að ríkið eigi að draga sig út úr samkeppni, þ.e. lánum á þeim svæðum þar sem bankarnir eru og vilja lána. Það er miklu róttækara og annað viðhorf en fram kemur í því þingmáli sem hér er til umræðu. Mér fannst það vera innstæðan og kjarninn í máli hv. þingmanns og viðbrögð ríkisins við því væru að stofna einhvers konar félagslegan jöfnunarsjóð sem tryggði íbúðaeigendum, bæði þeim efnaminni og þeim úti á landi, aðgengi að þessum lánum. (Forseti hringir.) Ef þettta er þróunin tek ég undir að ríkisvaldið verður að gera það.