131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:10]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var eitthvert furðulegasta andsvar sem ég hef á ævinni orðið vitni að, ekki bara hin ímynduðu frammíköll og truflun sem hv. 1. þm. Reykv. n. gerði hér að umfjöllunarefni heldur líka sú túlkun sem frá honum kom varðandi fyrri ræður sem hafa verið haldnar hér í dag og sömuleiðis sjónarmið manna gagnvart Íbúðalánasjóði.

Ég gat ekki heyrt hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson lýsa því yfir í ræðu sinni fyrr í umræðunni að það væri hætta á einhverri stórkostlegri bankakreppu. Þar fyrir utan kannast ég ekki við það að ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson séum sérstaklega ósammála hvað varðar þátttöku ríkisins á fjármálamarkaði, hvort sem sá markaður höndlar með húsnæðislán eða stendur í annars konar lánaviðskiptum. Það er einhver hundalógík sem býr að baki þessum málflutningi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar.

Svo fjallaði hann um fjandskap við Íbúðalánasjóð af hálfu samtaka sem ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson höfum verið í forsvari fyrir. Þau samtök hafa engan fjandskap sýnt í garð sjóðsins. Það er fyrst og fremst velmegun fólksins í landinu sem hefur búið að baki þeim málflutningi sem við höfum staðið fyrir og hann er nákvæmlega sá sem ég hélt fram í fyrra andsvari mínu. Ríkið á ekki að taka þátt á (Forseti hringir.) fjármálamarkaði umfram það sem nauðsynlegt er. (Forseti hringir.) Ég held að ég hafi skýrt það nákvæmlega út áðan, í fyrra andsvari mínu.