131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:14]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Umræðan er alltaf að verða furðulegri og furðulegri. Í fyrsta lagi er dálítið erfitt að eiga skoðanaskipti við mann sem hlustar ekki á það sem maður segir. Í öðru lagi er ansi hart þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson kemur upp í andsvar vegna þeirra orða sem ég hef látið falla og beinir öllum spjótum sínum að öðrum hv. þm., Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem hefur enga möguleika á að bera hönd fyrir höfuð sér. Ég veit ekki til þess að ég sé í þeirri stöðu að leggja honum orð í munn frekar en hann mér. Umræðan er öll komin í tómt rugl af hálfu 1. þm. Reykv. n.

Ef hv. þingmaður hefði hlustað á mig, þá sagði ég mjög skilmerkilega í ræðu minni að ég hefði samúð með þeim sjónarmiðum að Íbúðalánasjóður hefði hugsanlega einhverju hlutverki að gegna gagnvart hinum dreifðu byggðum þar sem enginn virkur markaður væri í gangi með fasteignir annars vegar og hins vegar gagnvart efnalitlu fólki sem ætti ekki aðgang að lánsfé hjá einkaaðila. Þetta er afskaplega lítill hluti af lántakendum á íslenskum fasteignamarkaði. Ég nefndi þessa tvo hópa. Hv. þingmaður segir að ég hafi ekki skýrt út afstöðu mína til málsins en hún er alveg kristalskýr.

Ég segi það, bara til þess að friða hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að auðvitað hefur það ekkert breyst að úrvalsstaðan væri sú að ríkið stæði ekki í lánastarfsemi eða væri þátttakandi á fjármálamarkaði. Ég hef áður sagt það og þau samtök sem ég hef verið í forsvari fyrir. (Forseti hringir.) Það hefur ekkert breyst og mun ekkert breytast, en spurningin er hvort aðstæður til þess muni skapast og það er ég ekki viss um.