131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:28]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér málefni Íbúðalánasjóðs að mestu leyti vegna þeirrar ánægjulegu þróunar sem orðið hefur á fjármagnsmarkaði síðustu fjóra, fimm mánuðina með stórkostlegri lækkun vaxta og samkeppni á útlánum til einstaklinga sem hefur verið óþekkt hér á landi í marga áratugi. Þróunin er að sjálfsögðu mjög ánægjuleg því hún veldur því að útgjöld heimilanna til íbúðakaupa og lánveitinga lækkar yfirleitt. Sennilega hafa heimilin ekki fengið meiri kjarabót í annan tíma.

Lækkun t.d. vaxta úr 5,1% í 4,15% eins og algengt er hjá almenningi þýðir 14% lækkun á ársgreiðslu af 40 ára láni og 10% lækkun á ársgreiðslu af 25 ára láni. Það munar um minna því þetta eru oft stærstu útgjöld heimilanna.

Það sem er líka ánægjulegt við þetta er að ríkisábyrgðin flyst frá Íbúðalánasjóði yfir til bankanna sem eru ekki með ríkisábyrgð. Það er líka mjög ánægjuleg þróun. Það eykur líka ábyrgð þeirra sem lána hátt hlutfall af verði íbúðar vegna þess að þeir sem bera áyrgð á bönkunum gagnvart hluthöfum sínum verða náttúrlega að vera miklu meira vakandi fyrir áhættu sem þeir taka sjálfir en einhverjir opinberir aðilar sem njóta ríkisábyrgðar.

Þessi þróun kemur ekki á óvart. Þannig hefur KB-banki vaxið mjög umtalsvert síðustu árin. Hann hefur reyndar vaxið alla tíð frá stofnun hans. Hann hefur farið í útrás og keypt upp banka víða um heim, aðallega á Norðurlöndum. Umsvifin hafa vaxið mikið og styrkur hans vaxið sömuleiðis. Þetta hefur að sjálfsögðu þýtt aukna skuldsetningu fyrirtækisins en á móti koma gífurlegar eignir, eins og nefnt var í umræðunni í morgun. Það sem er meira um vert er að lánshæfi bankans hefur batnað svo mjög að það er farið að verða svipað lánshæfismati íslenskra ríkisins. Þar af leiðandi getur þessi banki boðið lán sem eru sambærileg lánum Íbúðalánasjóðs þótt sá sjóður njóti ríkisábyrgðar.

Herra forseti. Vegna umræðunnar sem fram fór áðan, um fylgispekt við Íbúðalánasjóð og hvort menn vildu hafa hann eða ekki, þá vil ég taka skýrt fram að ég hef alltaf verið á móti Íbúðalánasjóði og Húsnæðisstofnun þar áður. Ég er á móti því að ríkið standi í lánveitingum þegar við höfum lánakerfi, lífeyrissjóði og banka, sem geta fullt eins staðið undir þeirri þörf. Það er mín stefna og margir innan Sjálfstæðisflokksins eru sömu skoðunar, kannski ekki allir.

Hafa verður í huga að við erum í samstarfi í ríkisstjórn og í því samstarfi er m.a. kveðið á um að Íbúðalánasjóður eigi að lifa. Menn verða að átta sig á því að stefna ríkisstjórnar getur aldrei orðið stefna annars hvors flokksins. Menn þurfa að átta sig á því. Því ætti Samfylkingin að átta sig manna best á því að hún hefur oft þurft að vera í ríkisstjórnarsamstarfi áður, sem Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag, og náði ekki öllu sínu fram. Þetta eiga menn að skilja og þess vegna kemur ekki til umræðu að afnema Íbúðalánasjóð. Þess vegna stend ég að því nefndaráliti sem hér um ræðir sem nefndarmaður í félagsmálanefnd. Mín einlæga skoðun er sú að Íbúðalánasjóður hafi ekkert að gera á markaði, að hann trufli markaðinn frekar en hitt og alveg sérstaklega núna.

Menn hafa rætt nokkuð um uppgreiðsluálag. Það eru uppi deilur um það að uppgreiðsluálag sé ólöglegt á markaðnum. En það er svo merkilegt, herra forseti, að Íbúðalánasjóður er með uppgreiðsluákvæði. Hann tekur 0,25% álag á vexti fyrir það að fólk má greiða upp. Ef maður reiknar þetta yfir í ársgreiðsluna þá er þetta á 25 ára láni 2,7% hærri ársgreiðsla. Ef slíkt álag væri ekki þá gæti fólkið fengið 2,7% hærra lán án þess að ársgreiðslan breyttist. Það segir mér að menn verða að borga 2,7% af láninu fyrir að fá að greiða upp sem segir mér jafnframt að það er uppgreiðsluálag hjá Íbúðalánasjóði. Svo einfalt er það. Þetta álag er reyndar 3,8% í 40 ára láni. Þannig er við lýði uppgreiðsluálag og ég skil ekki í mönnum að fara í eitthvert dómsmál til og segja að það sé bannað að leggja á slíkt álag þegar Íbúðalánasjóður leggur það á sjálfur.

Herra forseti. Hér hefur mikið verið rætt um hækkun á fasteignamarkaði. Það er hárrétt. Það er mikill órói og mikil hækkun á fasteignamarkaði sem minnir á vissan hátt á gullgrafarastemmningu. En það er ekkert einsdæmi. Þetta var verra, herra forseti, um áramótin 1999 og 2000. Ég er búinn að teikna það upp, bæði mánaðarlegar hækkanir yfir allt tímabilið, þriggja mánaða hækkanir og hálfs árs hækkanir, og óróinn eða hækkanirnar voru meiri og öfgafyllri um áramótin 1999 og 2000 en núna. Hið merkilega er að ef maður skoðar þetta hafa hækkanirnar ekkert aukist eftir að lán bankanna komu fram. Hækkanir á verði íbúða hafa ekki aukist. Þær voru meiri í febrúar, mars og apríl á þessu ári en nú með haustinu. Ég skil því ekki hvað menn eru að tala um þegar þeir segja að hin nýju lán bankanna hafi valdið hækkunum á íbúðaverði. Þar er nákvæmlega sama hækkun og ella hefði verið.

Hins vegar er sá munur á stöðunni núna og um áramótin 1999/2000 að þá var íbúðaverð að skríða upp fyrir byggingarkostnað en nú er það komið langt upp fyrir þann kostnað. Það er ákveðin hætta því að nú er verið að framleiða íbúðir um allt af því að það er ódýrara að byggja hús en að kaupa þau. Það er mikill hagnaður fólginn í því að byggja íbúðir og selja þær. Þess vegna verða til nýjar íbúðir út um allt og því ætti fólk að vera sérstaklega vakandi yfir. Þegar margar nýjar íbúðir koma á markaðinn er verðið dæmt til að lækka. Þetta verður fólk að hafa í huga. Spurningin er hvenær það gerist, hvenær það byrjar að gerast.

Þá geta menn lent í því, eins og margoft hefur verið bent á, að 90% lánin hjá Íbúðalánasjóði, svo maður tali ekki um 100% lánin hjá bönkunum, fari upp fyrir verð á eigninni ef það lækkar. Þá eru menn komnir með neikvæða eiginfjárstöðu. Það er ekki skemmtilegt því að þá geta menn ekki selt. Það er því mikilvægt að fólk hugi nákvæmlega að sínum málum og verði varkárt.

Nokkuð hefur verið rætt um skýrslu BSRB. Það er afskaplega góð skýrsla. Hún er virkilega góð. Hún er alls ekki svo neikvæð. Ég skil ekki af hverju menn lesa svo margt neikvætt úr skýrslunni. Hún fjallar um miklar eignir þjóðarinnar í menntun, sem endurspeglast í skuldum við LÍN, í íbúðarhúsnæði, sem endurspeglast í skuldum við Íbúðalánasjóð, í hlutabréfum, sem yfirleitt eru bara hrein eign, og í lífeyrissjóðunum, sem er hrein eign. Hver einasti Íslendingur á um þrjár milljónir rúmar í lífeyrissjóði. Þrjár milljónir, litlu börnin líka. Fjögurra manna fjölskylda á 12 milljónir í lífeyrissjóði að meðaltali. Ég skil því ekki að menn ætli að búa til úr því eitthvert dómadags vandræðamál hérna. Hins vegar getur vel verið að margur Íslendingurinn sé í vandræðum með lausafjárstöðuna. Það er athugunarefni út af fyrir sig. Fólk ætti virkilega að huga að því að lenda ekki í vandræðum með lausaféð. Menn geta átt eignir út um allt, fasteignir o.s.frv., eign í lífeyrissjóði en lent í miklum vandræðum ef þeir eiga ekki fyrir daglegum útgjöldum. Það er allt annar handleggur.

Ég má til með að endurtaka varnaðarorð mín frá því áðan, að fólk þarf að átta sig á því að lántaka er ekki annað en ráðstöfun á framtíðartekjum. Framtíðartekjurnar eru nokkurn veginn afmarkaðar á hvern einstakling. Það er á ábyrgð einstaklingsins hvað hann ráðstafar miklu af framtíðartekjum sínum. Menn þurfa að vera mjög varkárir í því hvað þeir ráðstafa miklu, átta sig á því að lán er ráðstöfun á framtíðartekjum. Það er gott ef lánið er tekið til þess að kaupa eignir sem eru varanlegar, fasteignir, hlutabréf eða eitthvað slíkt. En það er slæmt ef það er notað til neyslu, bílakaupa, sem eru yfirleitt mjög slæm fjárfesting, utanlandsferða eða eitthvers af því tagi. Þá er lántakan mjög slæm og hættuleg. Fólk þarf náttúrlega að bera ábyrgð á því sjálft. Ég treysti fólki til að sjá um fjármál sín og þarf ekki að hafa vit fyrir því.