131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:57]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skildi síðustu orð hæstv. ráðherra á þann veg að í framtíðinni mundi hámarksfjárhæðin fylgja því að lántakendur hjá Íbúðalánasjóði gætu keypt sér íbúð miðað við 110–130 fermetra sem er svona fjögurra herbergja íbúð og fengið 90% af þeirri fjárhæð. Ég sé að hæstv. ráðherra kinkar kolli þannig að það verður þá reglulega að breyta þessu miðað við það hvernig fasteignaverð þróast. Er það mjög ánægjulegt að ráðherrann skuli nú við 2. umr. hafa komið með þessa yfirlýsingu.

Varðandi leiguíbúðirnar þá finnst mér, virðulegi forseti, mjög slæmt að lægst launaða fólkið þurfi enn að bíða og ekkert sé gert fyrir þessa hópa. Þetta eru um 2.000 manns og neyðarástand ríkir víða hjá þessu fólki. Ég nefni t.d. að sennilega bíða 300–400 manns hjá Öryrkjabandalaginu eftir að geta fengið leiguíbúðir hjá þeim. Þar af eru 77 geðfatlaðir. Nokkur hundruð námsmenn bíða eftir að fá leiguíbúðir. Við tókum þessa umræðu í fyrra hvort ekki væri nú nauðsynlegt að stíga einhver skref til þess að bæta leigumarkaðinn hjá þessu fólki og að þau fengju hagstæðari lán og þyrftu ekki að bíða svona lengi eftir því að fá fyrirgreiðslu. Það hefur raunverulega ekkert gerst nema það að fyrir liggur álit nefndar hæstv. ráðherra þar sem nefndin leggur til að farið verði m.a. út í að veita stofnstyrki til byggingar leiguíbúða fyrir sérstaka hópa, aldraðra, öryrkja og námsmenn, sem búa við erfiðar aðstæður og eru með tekjur og eignir innan tiltekinna marka. Ráðherrann útilokar að vísu ekki neitt, að skoðaðar verði leiðir til þess að grynnka á þessum biðlistum og koma með leiguíbúðir á hagstæðari kjörum en nú bjóðast lágtekjufólki. En ég hvet ráðherra til þess að gera þetta fyrr en seinna, svo lengi hafa þessir hópar beðið eftir úrlausn sinna mála.