131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:59]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fagna þeirri yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra félagsmála að til standi að hækka þakið sem hér um ræðir með það að markmiði að sjóðurinn keppi áfram af fullum krafti við bankana og lífeyrissjóðina um lán til fasteignakaupa. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að sjóðurinn starfi áfram af fullum krafti sérstaklega á meðan þróunin er að ganga yfir og við erum að átta okkur á til hvers hún muni leiða og því sé mikilvægt að styrkja sjóðinn og gera hann samkeppnishæfan við bankana og lífeyrissjóðina um fasteignalán til íbúðakaupa. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt og væri mikið glapræði ef fótunum væri kippt undan Íbúðalánasjóði eins og staðan er núna og mundi hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir marga og sérstaklega landsbyggðina og þá sem verr eru settir, enda hefur það komið í ljós við umræðuna í dag að það er ákaflega erfitt að skilgreina þá sem ættu að hafa aðgang að einhvers konar félagslegum sjóði til fasteignakaupa og við hvað ætti að tengja. Það er ákaflega erfitt.

En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um leið og ég tek undir það markmið með honum að við eigum að renna stoðum undir framhaldslíf Íbúðalánasjóðs og tryggja að hann geti starfað áfram: Óttast hann ekki að sú þróun sem er í gangi núna marki endalok sjóðsins sem slíks jafnvel á næstu mánuðum? Hver eru viðbrögð hans við því og telur hann að grípa þurfi á einhvern hátt til sértækra aðgerða til að tryggja að sjóðurinn starfi áfram annarra en þeirra að hækka þak á lánum sjóðsins til fasteignakaupa?