131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[15:01]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er trú mín að með þeim aðgerðum sem ég hef boðað í dag verði Íbúðalánasjóði kleift að standa þannig að málum að hann verði virkur á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu eins og á landsbyggðinni en virkni hans á þessum markaði hefur vissulega dregist saman á undanförnum vikum.

Ég lýsti því yfir, hæstv. forseti, þegar ég mælti fyrir þessu máli fyrir nokkrum vikum að eitt það mikilvægasta sem sneri að þessu máli væri að hámarkslán Íbúðalánasjóðs þróaðist með þeim hætti að honum væri þetta kleift. Öðruvísi gæti hann ekki staðið undir þeim markmiðum sem sett eru með lögum um sjóðinn. Hækkun hámarkslánsins sem og með rýmkun í reglugerðarheimild hvað varðar veðrými fyrir framan lán Íbúðalánasjóðs tel ég, hv. þingmaður, að muni tryggja sjóðnum þá stöðu sem honum er nauðsynleg til að standa undir þeim kröfum sem til hans eru gerðar samkvæmt lögum.