131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[15:03]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Guð láti gott á vita. Ég vona að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að það sem hér er gert sé nægjanlegt til að sjóðurinn megi starfa áfram og geti starfað áfram af fullum krafti án þess að hann skakklappist með einhverjum hætti haltur á eftir þeirri þróun sem á sér stað á markaðnum eins og margir óttast. Það viðhorf hefur komið nokkuð sterkt fram hjá ýmsum talsmönnum og félagsmönnum í Sjálfstæðisflokknum að sjóðurinn ætti ekki að keppa á frjálsum markaði við banka og lífeyrissjóði um lán til fasteignakaupa heldur ætti hann einfaldlega að líða undir lok og bankar og aðrar lánastofnanir að taka við þessu hlutverki. Ég fagna því að hæstv. ráðherra er á allt annarri skoðun og tek undir þau sjónarmið sem hann hefur haldið fram að við eigum að tryggja líf sjóðsins og við eigum að halda sjóðnum úti áfram allra hluta vegna, ekki síst til að tryggja að þeir efnaminni og þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins eigi fullan og algeran aðgang að íbúðalánum svo og til að vera það virka og öfluga aðhald á bankana og lánastofnanir sem ég tel að sé nauðsynlegt. Það er engin ástæða til að ætla annað ef sjóðurinn hyrfi nú af markaði löngu áður en þróunin er gengin yfir, núna meðan þróunin er rétt að hefjast og kannski að ganga hvað hraðast yfir, en að í kjölfarið mundu vextirnir hækka aftur. Ég held að vera Íbúðalánasjóðs á þessum markaði geri það að verkum að bankarnir lækki vextina og sjóðurinn fylgir að sjálfsögðu á eftir í þá áttina. Ef svo væri ekki sæjum við vextina hækka aftur. Sjóðurinn gegnir því áfram margþættu og mikilvægu hlutverki og við honum á að mínu mati ekki að hagga heldur treysta stoðir hans þannig að hann geti starfað áfram.