131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[15:17]

Hjálmar Árnason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Síðasta vor var lögum um húsbréfaviðskipti breytt með þeim hætti að upp voru tekin íbúðabréf Íbúðalánasjóðs. Í umræðum í hv. félagsmálanefnd og eins á þessum vettvangi var því spáð að sú breyting mundi leiða almennt til lækkandi vaxta á íslenskum fjármálamarkaði. Sú hefur orðið raunin.

Það frumvarp sem hér er til umræðu og atkvæðagreiðslu er rökrétt framhald af þeim gjörningi. Hér er með öðrum orðum verið að innleiða svokölluð 90% lán. Þau eru að verða að veruleika.

Þá er rétt, herra forseti, að minna á það að fyrir aðeins örfáum mánuðum var hámarkslán hjá Íbúðalánasjóði 8 millj. kr. en með yfirlýsingu hæstv. félagsmálaráðherra fara þau upp í 14,9 millj. kr. sem er sannarlega stórt stökk. Það má því segja að bæði þessi mál, breytingin frá því í vor og sú breyting sem hér er til atkvæðagreiðslu, séu líklega ein áhrifaríkasta stjórnvaldsaðgerð fyrir heimilin í landinu sem um getur og fyrir efnahagslífið í heild sinni. Hún mun auka ráðstöfunartekjur heimilanna um tugi og í mörgum tilvikum hundruð þúsunda króna.

Í annan stað hefur hún leitt til harðari samkeppni á fjármálamarkaði en verið hefur um langa hríð og vextir eru þeir lægstu sem sést hafa hér í áratugi. Það er til hagsbóta fyrir heimilin, fyrir atvinnulífið og efnahagslífið í heild sinni. Það er því sannarlega ástæða til að gleðjast og segja að þetta sé ein áhrifaríkasta stjórnvaldsaðgerð sem gripið hefur verið til.