131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[15:19]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er oft þannig að veruleikinn yfirtekur drauma mannsins og á síðasta vori var Framsóknarflokkurinn með ansi glæsilegar tillögur um breytingar á húsnæðislánum. Síðan hefur það gerst að veruleikinn hefur farið fram úr þeim og í dag veita bankarnir 100% lán þannig að 90% lána Framsóknar er ekki lengur þörf. Hins vegar þarf að samþykkja sérstök lög vegna þróunar á markaði til að skjóta styrkari stoðum undir Íbúðalánasjóð. Við í Samfylkingunni teljum að hann hafi, a.m.k. enn um sinn, nokkuð mikilvægu hlutverki að gegna. Við teljum nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður haldi bönkunum við efnið þannig að þeir bjóði áfram þessi ríflegri kjör en Íbúðalánasjóður gerir. Þess vegna samþykkjum við þetta frumvarp og tökum sérstaklega undir með yfirlýsingu hæstv. félagsmálaráðherra um hækkun á hámarksláni. Sú lagabreyting sem hér er verið að gera skýtur stoðum undir Íbúðalánasjóð og sér til þess að hann getur starfað enn um sinn.

Um leið og ég lýsi stuðningi við þetta vil ég lýsa því yfir að ég tel ástæðu til að óska Sjálfstæðisflokknum alveg sérstaklega til hamingju. Hann hefur með því að samþykkja þetta í reynd verið að auka ríkisumsvif. Hann hefur skipt um skoðun í þessu máli og er nú að skjóta stoðum undir Íbúðalánasjóðinn sem er algjörlega í andstöðu við það sem hann hefur áður sagt og gert. Ég segi auðvitað eins og jafnan þegar menn sjá ljósið: Guð láti gott á vita í þessum efnum.