131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[15:26]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum sem er 374. mál þingsins. Í dag eru í gildi lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þó að þau lög séu einungis rúmlega sex ára gömul hefur um nokkurt skeið verið talið nauðsynlegt að endurskoða þau. Við setningu þeirra laga var fyrst og fremst höfð í huga nauðsyn þess að skera ótvírætt úr um það með lögum hvernig háttað væri eignarhaldi á auðlindum í jörðu auk þess sem þar var komið á nýskipan í auðlindastýringu. Í núgildandi lögum hefur þótt skorta lagafyrirmæli um stjórnun auðlinda landsins. Þá taka lögin ekki til allra jarðefnaauðlinda og sem dæmi ná þau ekki til orkunýtingar vatnsfalla. Því var á árinu 2002 skipaður sérstakur starfshópur til að endurskoða gildandi lög á þessu sviði og skilaði hann drögum að frumvarpi í árslok sama ár. Með hliðsjón af samþykkt nýrra raforkulaga á árinu 2003 og breytingum á öðrum lögum á orkusviði var talið eðlilegt að taka frumvarpsdrögin til endurskoðunar á þessu ári.

Meðan unnið hefur verið að gerð þessa frumvarps hafa einnig vaknað mikilvægar spurningar varðandi auðlindanýtingu, forgang að orkuauðlindinni og hvernig leysa skuli úr álitaefnum sem vakna þegar fleiri en einn aðili sækja um leyfi til rannsóknar, nýtingar og/eða virkjunar sömu auðlindar. Við þessu álitaefni er brugðist með tvennum hætti í frumvarpinu. Annars vegar er komið á nauðsynlegri tengingu nýtingarleyfis auðlindar samkvæmt þessu frumvarpi og virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum. Er það gert með þeim hætti að nýtingarleyfi verði lögbundin forsenda þess að viðkomandi aðila verði veitt virkjunarleyfi samkvæmt raforkulögum. Hins vegar er í bráðabirgðaákvæði gert ráð fyrir stofnun sérstakrar nefndar með fulltrúum allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila sem á næstu tveimur árum á að móta lagaákvæði sem taka á framangreindum grundvallarspurningum. Ákvæði frumvarps þessa er því að hluta til og eðli máls samkvæmt til bráðabirgða og skal þar sérstaklega nefna ýmsa tímafresti er tengjast rannsóknar- og nýtingarleyfum.

Framangreind nefnd fær það hlutverk að móta tillögur í formi lagafrumvarps um það hvernig velja eigi á milli aðila er sækja um rannsóknarleyfi og nýtingarleyfi. Lagt er til að nefndin ljúki störfum og skili niðurstöðu sinni í formi lagafrumvarps eigi síðar en 15. september 2006. Frumvarp þetta gerir því ráð fyrir nokkurs konar bráðabirgðaástandi varðandi rannsóknir á nýtingarleyfi þar til niðurstöður nefndarinnar liggja fyrir. Lagt er til að heimila útgáfu rannsóknar- og nýtingarleyfa en binda gildi þeirra því skilyrði að nýting sé hafin innan tiltölulega skamms tíma. Með þessu er komið í veg fyrir að umsækjandi geti helgað sér staði til nýtingar orkulinda langt fram í tímann en um leið komið til móts við óskir orkufyrirtækjanna um rannsóknir til skamms tíma. Kemur þetta fyrirkomulag þannig í veg fyrir að allar orkurannsóknir stöðvist vegna réttaróvissu næstu 2–3 árin.

Herra forseti. Ég mun nú greina efnislega frá helstu breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir miðað við núverandi löggjöf.

Í markmiðsákvæði frumvarpsins kemur fram að markmið laganna sé að tryggja að stjórnun náttúruauðlinda sé hagkvæm frá samfélagslegu sjónarmiði og að við nýtingu þeirra sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða og réttmætra hagsmuna fasteignareiganda. Í núgildandi lögum er ekki að finna sérstakt markmiðsákvæði. Rétt þykir hins vegar að slíkt ákvæði sé fyrir hendi enda gefur það vísbendingu um hver sé tilgangurinn með lögunum og hvaða sjónarmið Orkustofnun ber að hafa að leiðarljósi við auðlindastjórnun.

Í 3. gr. frumvarpsins er kynnt nýtt hugtak, jarðrænar auðlindir, sem er skilgreint sem hvers konar frumefni, lífræn og ólífræn efnasambönd og orkulindir sem vinna má á landi og úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þær kunna að finnast við.

Frumvarp þetta tekur til allra jarðrænna auðlinda, grunnvatns og yfirborðsvatns, þar á meðal auðlinda í vatnsföllum og stöðuvötnum, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlaga. Þau taka hins vegar ekki til gróðurs og lífvera, annarra en hveraörvera. Af þessu leiðir að hagnýting vatnsorku fellur undir frumvarpið, en núgildandi lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu gilda ekki um vatnsorku, hvorki um rannsóknir né nýtingu hennar.

Í frumvarpinu er það nýmæli að rannsóknum á jarðrænum auðlindum er skipt upp í tvo hluta, annars vegar leit að auðlindinni og hins vegar rannsóknir.

Leit að jarðrænum auðlindum felur í sér forathugun og yfirlitskönnun á mjög stóru landsvæði sem leiðir í ljós umfang og magn viðkomandi auðlindar og getur tekið áratugi. Að aflokinni leit eru hins vegar gerðar rannsóknir á viðkomandi auðlind, gerðar ítarlegri mælingar og rannsóknir til að meta afköst og hagkvæmni á vinnslu auðlindarinnar.

Rannsókn samkvæmt frumvarpi þessu felur í sér mat á stærð og legu auðlindar og sannprófun hennar. Rannsókn getur verið margfalt dýrari en leit. Eigandi auðlindar þarf ekki leyfi Orkustofnunar til rannsóknar hvort sem hann rannsakar auðlindina sjálfur eða aðrir á hans vegum en vilji hann njóta forgangsréttar til nýtingar verður að afla sér rannsóknarleyfis. Hann á forgangsrétt að rannsóknarleyfi á auðlind sinni en óski hann ekki eftir að nýta þennan forgangsrétt getur Orkustofnun átt frumkvæði að rannsókn á auðlindinni eða auglýst eftir umsóknum um rannsóknarleyfi á auðlindinni. Í frumvarpinu er miðað við að tímalengd rannsóknarleyfa verði allt að fimm ár og skal í því efni miða við eðli og umfang rannsóknaráætlunar umsækjanda.

Vegna mikils kostnaðar við rannsóknir á jarðrænum auðlindum er í flestum tilvikum nauðsynlegt að sá sem hana kostar njóti fyrirheits um forgangsrétt til nýtingar að rannsókn lokinni. Rannsóknarleyfi veitir leyfishafa forgangsrétt til nýtingarleyfis í allt að tvö ár að loknum gildistíma þess og tryggir að öðrum aðila verði ekki veitt rannsóknarleyfi á sama svæði á gildistíma þess. Sams konar ákvæði er fyrir hendi í núgildandi lögum.

Þá er í frumvarpinu fjallað nokkuð um tímalengd nýtingarleyfa. Þar er lagt til að leyfi geti verið til 60 ára fyrir vatnsorku og til 30 ára fyrir jarðhita og aðrar auðlindir. Heimilt er að framlengja leyfi til allt að 30 ára hafi forsendur leyfisveitingar ekki breyst. Hér er ekki verið að leggja til að auðlindanýting verði takmörkuð við þennan tíma heldur það að viðkomandi leyfi gildi ekki lengur. Séu eðlilegar forsendur fyrir hendi væri ekkert því til fyrirstöðu að leyfishafi legði fram nýja umsókn um nýtingarleyfi að framlengingartímanum liðnum og yrði þá nýtt leyfi gefið út á grundvelli fenginnar reynslu af nýtingu auðlindarinnar.

Herra forseti. Í frumvarpinu er byggt á þeirri meginreglu að auglýsa skuli eftir umsækjendum áður en leyfi er veitt til rannsókna og nýtingar á jarðrænum auðlindum í eignarlöndum ríkisins og í þjóðlendum. Þá er heimildarákvæði þess efnis að auglýsa megi eftir umsækjendum áður en leyfi er veitt til rannsókna og nýtingar á auðlindum á landi og í jörðu í eignarlöndum annarra en ríkisins óski eigendur ekki eftir að nýta sér forgangsrétt sinn til rannsóknarleyfis.

Í frumvarpinu er að finna reglur um málsmeðferð við veitingu rannsóknar- og nýtingarleyfa og er meginreglan sú að veita skuli rannsóknar- eða nýtingarleyfi á grundvelli umsóknar sem metin skal á hlutlægan og gagnsæjan hátt. Þar eru og rakin þau sjónarmið sem líta verður til við veitingu nýtingarleyfis.

Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar er í bráðabirgðaákvæði II gert ráð fyrir því að iðnaðarráðherra skipi nefnd til að gera tillögur um með hvaða hætti verði valið á milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi samkvæmt lagafrumvarpi þessu og mörkuð framtíðarstefna um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin munu ná til. Er að því stefnt að tillögum nefndarinnar verði skilað til iðnaðarráðherra í formi lagafrumvarps haustið 2006.

Þá er í frumvarpinu nýr kafli um stjórnsýslu. Þar segir að Orkustofnun hafi eftirlit með framkvæmd laganna. Iðnaðarráðherra gegnir veigamiklu stjórnsýsluhlutverki í núgildandi lögum sem réttara þykir að Orkustofnun hafi á hendi. Frumvarpið miðar að því að Orkustofnun fái skilgreint hlutverk við stjórnun auðlinda landsins. Í þessu skyni er lagt til að lögfestar verði reglur um málsmeðferð við veitingu rannsóknar- og nýtingarleyfa og eftirlit og úrræði Orkustofnunar við framkvæmd laganna.

Orkustofnun gegnir mikilvægu hlutverki sem fagstofnun á sviði auðlinda- og orkumála, leyfisveitinga- og eftirlitshlutverki. Heimildir og úrræði Orkustofnunar verða aukin mjög frá núgildandi lögum. Reynslan hefur sýnt að núgildandi lög veita Orkustofnun ekki nægilega möguleika á að sinna eftirliti sínu með viðunandi hætti.

Það nýmæli er í frumvarpinu að gert er ráð fyrir sérstökum gagnagrunni um auðlindir, þar sem varðveitt verða gögn sem Orkustofnun hefur aflað eða látið afla með leit, rannsóknum og eftirliti, auk þeirra gagna sem henni berast frá öðrum sem vinna að leit, rannsókn eða nýtingu auðlinda. Gert er ráð fyrir að gögn í þessum grunni verði gerð öllum opin og aðgengileg, en sum gögn geta þó verið bundin trúnaði um takmarkaðan tíma. Þetta ákvæði er afar mikilvægt í ljósi þeirra vísindalegu rannsókna sem unnar eru hér á landi á eðli og eiginleikum jarðhitans.

Frú forseti. Ég minntist á að samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í frumvarpinu ætti iðnaðarráðherra að skipa nefnd allra þingflokka auk annarra til að gera tillögur um með hvaða hætti verði valið á milli umsókna, um rannsóknir og nýtingarleyfi og að tillögu nefndarinnar verði skilað til iðnaðarráðherra í formi lagafrumvarps haustið 2006. Meginhlutverk lagafrumvarps þessa er því að skapa eðlilegt umhverfi rannsókna og nýtingar á jarðrænum auðlindum þar til tillögur nefndarinnar liggja fyrir. Frumvarpið byggist að mestu á núgildandi lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu með hliðsjón af nýjum lögum á sviði orkumála sem tekið hafa gildi á síðustu árum.

Ég mælist til þess, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.