131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[15:38]

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir gríðarlega umfangsmikið mál sem tekur til nær alls þess sem er ofan jarðar og neðan, svo framarlega sem það er ekki gróður eða dýr.

Mér finnst nauðsynlegt að það komi strax fram við þessa umræðu hvert hlutverk umhverfisráðuneytinu er ætlað í þessum lögum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær var umhverfisráðuneytið lagt niður? Í frumvarpinu er ekki minnst á það nema í einu orði, þ.e. þegar fjallað er um fyrirhugað skipulag varðandi hveraörverur.

Hér er heldur ekki minnst á sjálfbæra þróun eða sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Það er ekki minnst á umhverfismat. Það er ekki minnst á náttúruvernd, virðingu fyrir umhverfinu og gæðum náttúrunnar einu orði. Það er ekki einu sinni minnst á rammaáætlunina, sem þó heyrir undir ráðherrann.

Mér finnst að hér seilist hæstv. ráðherra og ráðuneytið sem slíkt býsna langt og spyr mig: Hvar eru skilin á milli verksviða í Stjórnarráði Íslands þegar svo er komið?

Ég ítreka spurningu mína: Hvert á hlutverk umhverfisráðuneytisins að vera í þessum ósköpum?