131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[15:39]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hún sé eitthvað á misskilningi byggð hjá hv. þingmanni, sú harða afstaða sem hér kom fram í upphafi umræðunnar um þetta mál. Það vill svo til að þetta er frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Sá málaflokkur heyrir undir iðnaðarráðherra samkvæmt stjórnsýslu Íslands.

Varðandi það sem hv. þingmaður talar um í tengslum við umhverfisráðuneytið þá er þetta mál unnið með umhverfisráðuneytinu, í nánu samstarfi við það. Það hefur ekki gert athugasemdir við framlagningu þess enda er það að sjálfsögðu lagt fram með samþykki beggja stjórnarflokka.

Umhverfisráðuneytið kemur til með að eiga fulltrúa í nefndinni sem skipuð verður til að móta framtíðarstefnu um þetta mikilvæga málefni. Ég held að hv. þingmaður hljóti að hafa tekið eftir því.

Það sem er mikilvægt, og á það vil ég leggja áherslu, er að við teljum þetta eitt af stóru málunum sem við fjöllum um á Alþingi og þess vegna er ástæða til að allir þingflokkar eigi aðild að þeirri nefnd sem fer í vinnuna, sem verður til framtíðar. Að hluta til er um að ræða bráðabirgðaástand sem yrði komið á með samþykki þessa frumvarps en stóra málið er vinnan framundan og þar þurfa allir þingflokkar að eiga aðild.