131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[15:45]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er stórt og mikið mál eins og fram kom í fyrri andsvörum og í byrjun langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að hin svokallaða markmiðsgrein, 1. gr. frumvarpsins, þýði nákvæmlega það sama og sagt er í greinargerðinni í athugasemdum III, en 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skynsamleg stjórn og hagkvæm nýting náttúruauðlinda frá samfélagslegu sjónarmiði, að teknu tilliti til eignarréttar fasteignareigenda.“

Í greinargerð í athugasemdum III, 1 segir, með leyfi forseta:

„Nýtt markmiðsákvæði er í frumvarpinu þar sem fram kemur að markmið laganna sé að tryggja að stjórnun náttúruauðlinda sé hagkvæm frá samfélagslegu sjónarmiði og að við nýtingu þeirra sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða og réttmætra hagsmuna fasteignareiganda.“

Í markmiðsgreininni sjálfri er talað um skynsamlega stjórn og hagkvæma nýtingu frá samfélagslegu sjónarmiði, en í greinargerðinni er það lagt þannig út að stjórnun náttúruauðlinda sé hagkvæm frá samfélagslegu sjónarmiði og að við nýtingu sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða.

Mig langar að vita hvort það er skilningur ráðherrans að þetta sé alveg eins og þá hvers vegna má ekki taka orðalagið sem í greinargerðinni stendur og hafa það í markmiðunum, því mér þykir það miklu skýrara. Mér er ekki ljóst að þetta þýði það sama.