131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[15:51]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt, hér er á ferðinni stórt mál og kannski er það heldur snemma á ferðinni miðað við undirbúning þess og að sumu leyti ber málið það með sér að menn hafa ekki komist til botns með alla hluti sem hefðu þurft að liggja fyrir.

Ég vil í upphafi nefna að umhverfisþáttur málsins verður kannski ræddur meira síðar í umræðunni, af öðrum en mér, en við fyrsta lestur þá finnst mér margt í frumvarpinu hljóma eðlilega. Ég vil samt gera tvo afar mikilvæga fyrirvara um grundvallaratriði.

Í fyrsta lagi finnst mér ástæða til að staldra við 1. gr. frumvarpsins. Þar er sagt að markmið laga þessara sé skynsamleg stjórn og hagkvæm nýting náttúruauðlinda frá samfélagslegu sjónarmiði að teknu tilliti til eignarréttar fasteignareigenda. Það er síðari hlutinn sem ég staldra við, vegna þess að hvorki í frumvarpinu né annars staðar í skýringum með því er skilgreining á hvað þetta þýðir í raun, þ.e. að teknu tilliti til eignarréttar fasteignareiganda. Eignarréttur fasteignareiganda á orku eða auðlindum er að mínu viti ekki skilgreindur og ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra hvað menn styðjist við í frumvarpinu hvað varðar nýtingarrétt á auðlindum.

Hér er t.d. gert ráð fyrir því að vatn í jörðu heyri sem auðlind undir þann fasteignareiganda ef hann er til staðar annar en ríkið. Hvernig á þá að fara með vatnskerfi sem eru undir þeim löndum? Þau liggja auðvitað saman við vatnskerfi annarra. Hvernig ætla menn að hafa meðferðina á því og væri ekki ástæða til að slíkt væri skilgreint svo menn vissu að hverju þeir gengju? Til dæmis ef menn eiga veiðirétt í landi þá ber þeim skylda til að stofna félag, vegna þess að auðvitað liggja vötnin saman og það er ekki hægt að nýta hluta þeirra vatna öðruvísi en það hafi áhrif á önnur. Þetta á auðvitað einnig við um vatn í jörðu.

Þetta á líka við um jarðhita. Það er ekki sama hvorum megin við landamerkin er borað. Það hefur áhrif á nýtingu hinum megin við landamærin ef einn borar öðrum megin og hefur nýtingu. Það þyrfti alla vega að liggja fyrir hvað menn telji að liggi til grundvallar og mér finnst vanta töluvert upp á að það sé gert þarna, það er ekki einu sinn gerð tilraun til þess.

Hitt atriðið sem ég vil gera sérstakan fyrirvara um í upphafi, er við 11. gr. frumvarpsins. Þar er fjallað um málsmeðferð við úthlutun rannsóknarleyfa. Þar sýnist mér vera uppi hugmyndir um mjög umdeilanlegt fyrirkomulag og ég veit að gert er ráð fyrir þessu fyrirkomulagi til bráðabirgða, a.m.k. er gert ráð fyrir að sett verði nefnd í að fara yfir þessa hluti síðar. Samt held ég að gera megi ráð fyrir að í þessu fyrirkomulagi sé með einhverjum hætti verið að vísa veginn.

Ég fæ tækifæri til að fjalla um þetta mál í iðnaðarnefndinni og ætla því ekki að fara yfir nema nokkur þeirra atriða sem mér finnast mikilvæg við þessa umræðu. Þetta er mikið mál og verður tímafrekt að fara yfir það allt í nefndinni. Mér finnst skynsamlegt að þrískipta leyfaferlinu eins og gert er ráð fyrir. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að leita að auðlindum. Í öðru lagi til þess að rannsaka auðlindirnar. Í þriðja lagi til að nýta þær.

Það verður að skoða allt ferlið sem heild með það í huga að réttur til að nýta auðlind verði ekki til með óeðlilegum hætti. Þarna verða auðvitað jafnræðissjónarmið að vera í fyrirrúmi. Um það vantar skýr fyrirmæli í lagatextann.

Þegar kemur að þriðja stiginu, þ.e. rannsóknarleyfinu skv. 7. gr., þá fylgir því forgangsréttur til nýtingarleyfis. Mér sýnist sá forgangsréttur vera nánast trygging viðkomandi fyrir því að geta nýtt auðlindina til framtíðar, því eins og hæstv. ráðherra sagði, þá eru rannsóknir á auðlindum af þessu tagi dýrar og ef rannsóknarleyfinu fylgir leyfi til nýtingar í tvö ár, þá hafa menn ekki einungis lokið rannsóknunum, heldur líka lokið virkjun til þess að geta nýtt leyfin. Þá þarf mikið að ganga á til að hægt sé að taka auðlindina af viðkomandi aðila.

Þess vegna er nauðsynlegt þegar ákveðið er hver fær að nýta auðlind, sem að mínu viti er þá sá sem fær rannsóknarleyfið, það nánast liggur í hlutarins eðli, að gengið verði frá því þannig að jafnræðis sé gætt.

Hæstv. ráðherra lýsti því að ef til stæði að leita að auðlind þá ætti að auglýsa það. Ég geri ekki lítið úr því. Hins vegar sýnist mér að í fyrirmælunum í lagatextanum sé gert ráð fyrir að þeir sem eru valdir séu ekki endilega valdir út frá jafnræðissjónarmiðum, heldur sé gert ráð fyrir því, t.d. á einum stað, að gilda skuli reglan „fyrstur kemur fyrstur fær“, ef jafngildir aðilar hafa sóst eftir rannsóknarleyfi. Síðan er talað um einhvers konar gagnsæi í ákvarðanatökunni. Ég geri ekki lítið úr því að það eigi að vera, en ég efa mjög að þetta dugi til.

Ég tel því mjög nauðsynlegt að í þessu ferli felist möguleiki, og ekki bara möguleiki heldur skylda þeirra sem með það fara, að bjóða út auðlindir ef margir sækjast eftir nýtingunni. Þó svo hér sé verið að tala um bráðabirgðafyrirkomulag þangað til nefnd skili af sér, þá tek ég mark á því sem hér er lagt til.

Ég held að full ástæða sé til þess að láta sér detta það í hug að einhverjir muni sækjast eftir auðlindum á tímabilinu til að tryggja sér möguleikana á því að fá þær í hendur. Við gætum alveg séð fram á að aðilar reyndu að tryggja sér auðlindir til þess að nýta í framtíðinni. Þó gert sé ráð fyrir því að menn fái rannsóknarleyfi til tiltekinna ára er ekki hægt að líta fram hjá því að aðilar geta auðvitað stjórnað hraða rannsóknanna með það fyrir augum að viðhalda möguleika sínum til þess að fá nýtingarréttinn í framtíðinni.

Ég tala ekki út frá engu í þessu. Ég tel nefnilega að þau stjórnvöld sem nú ráða ríkjum á Íslandi hafi sýnt það skýrt í verki á undanförnum árum að þau vilja ekki nýta möguleika af því tagi sem ég er að tala um, þ.e. jafnræði fengið með þeim hætti að öllum standi til boða að nýta auðlindirnar. Þau hafa fram að þessu haft reglur í lögum sem gera ráð fyrir því að aðilar séu valdir undir handarjaðri ríkisvaldsins. Undir handarjaðri ráðuneytisins. Við getum t.d. rifjað upp hvernig fjarskiptalögin eru og sú fegurðarsamkeppni sem hæstv. ráðherra hefur með höndum þegar velja á einhvern sem á að fá fjarskiptaleyfi, leyfi til að reka þriðju kynslóð farsíma. Það er gert með fegurðarsamkeppni. Þær reglur sem hér er gert ráð fyrir að nýta eru mjög skyldar slíku fyrirkomulagi.

Ég vara við þessu og tel fulla ástæðu til þess að muna eftir tillögum auðlindanefndar hvað varðar auðlindir í landinu. Við erum líka að tala um auðlindir í einkaeigu. Gert er ráð fyrir því að aðilar séu valdir með fegurðarsamkeppni til að nýta auðlindir sem eru í eigu okkar sameiginlega með „fyrstur kemur fyrstur fær“-aðferðinni. Í fyrstu greininni er líka rætt um auðlindir í eigu einkaaðila. Eiga einkaaðilar að selja aðganginn að auðlindum sínum á fullu verði eða því verði sem verður á markaðnum og ríkið svo að velja aðilana út frá einhverjum allt öðrum sjónarmiðum og menn fái að nýta þær auðlindir fyrir ekki neitt?

Hvar eru hagsmunir einkaaðilanna ef um er að ræða sambærilegar auðlindir? Eiga þeir bara að bíða eftir því að ríkisauðlindirnar séu uppurnar vegna þess að þær eru allar frítt? Ætlar ríkið að standa í því að halda niðri verði á nýtingu auðlindanna með því að hafa þær alltaf frítt á markaðnum? Mér finnst að menn verði að horfast í augu við það að auðlindir eru mikils virði og að láta verði aðila á markaðnum meta hvers virði þær eru.

Úr því að menn ætla að gefa einkaaðilum rétt til þess að nýta auðlindir sínar, sem ég tel fulla ástæðu til að gera, en tel þó að skilgreina þurfi betur en gert hefur verið fram að þessu, mega menn ekki gefa með annarri hendinni og taka með hinni. Koma í veg fyrir að einkaaðilarnir fái eðlilegt endurgjald fyrir þær auðlindir sem búið er að ákveða í sölum Alþingis að skuli vera þeirra eign, en koma svo hinum megin að þeim og gefa auðlindir ríkisins í kapp við þá. Það er engin skynsemi í slíku fyrirkomulagi.

Við höfum séð framkvæmdina hvað varðar auðlindina í hafinu og hægt að líkja þessu nákvæmlega við það. Þar er einkaaðilum úthlutaður rétturinn til þess að nýta auðlindina. Þegar þeir eru búnir að fá þann rétt í hendur, hvað gera þeir þá? Þeir selja aðganginn að auðlindinni á hæsta verði sem hægt er að fá á markaðnum, eðlilega. Það er ekki við þá að sakast. Það er hér í sölum Alþingis sem fyrirkomulagið var fundið upp. En ég hélt að menn hefðu tekið mark á niðurstöðum auðlindanefndar. Þær eru alveg skýrar, að sameiginlegar auðlindir landsmanna á að láta frá sér á eðlilegu verði. Og eðlilegt verð er það sem markaðurinn vill borga.

Þess vegna er alveg furðulegt að menn skuli fá hér inn frumvarp eftir frumvarp, því þetta er ekki það fyrsta. Menn geta skoðað fjarskiptalögin, eins og ég nefndi áðan, og hvernig farið var með þriðju kynslóð farsíma hvernig menn vilja úthluta þeim réttindum. Menn geta skoðað hvernig eigi að úthluta rétti til þess að nýta auðlindir á hafsbotni. Allt á þetta að gerast fríhendis með einhverjum aðferðum sem ekki taka mið af því hvers virði auðlindirnar eru heldur eiga að gilda einhvers konar „fyrstur kemur fyrstur fær“ aðferðir við þetta allt saman.

Þetta vil ég gera að aðalathugasemdum mínum við það sem hér liggur fyrir. Í fljótu bragði finnst mér að öðru leyti frumvarpið vera ágætlega unnið, en stór grundvallaratriði, eins og þau sem ég hef rætt um, eru ekki í lagi og mér dugar ekki fyrirvarinn um að setja eigi á nefnd til þess að fara yfir þessi mál. Mér finnst leiðarmerkin vera of augljós í frumvarpinu um það hvert menn ætli með þetta.

Stjórnmálaflokkarnir hafa flestir a.m.k. lýst því yfir að þeir telji að setja eigi ákvæði í stjórnarskrána um sameiginlegar auðlindir okkar. Því finnst mér að þeir ættu að velta því dálítið fyrir sér þegar verið er að setja lög um nýtingu auðlindanna að það geti farið saman við að gera auðlindirnar að stjórnarskrárbundnu ákvæði. Mér finnst það skipta mestu máli þar. Ég get auðvitað skrifað upp á ýmislegt í frumvarpinu og sé ekki að kastað hafi verið til höndunum, en mér finnst að komið hafi verið of snemma með málið til þings. Hin pólitíska niðurstaða um þau grundvallaratriði sem ég hef rætt um liggur ekki fyrir.

Ég er á þeirri skoðun að í frumvarpinu sé fyrirkvíðanleg vísbending um hvert menn ætla. Ég tel mikið vandræðamál að setja lög á Alþingi sem eiga að gilda í tvö ár með leiðsögn af þessu tagi um hvernig fara eigi með nýtingarréttinn, vegna þess að stjórnvöld í landinu hafa sýnt á spilin sín áður. Ég vil hafa það lokaorð mín núna.

Ég mun setjast yfir málið með öðrum mönnum í iðnaðarnefndinni og vil ræða það þar auðvitað. Mér finnst að skoða þurfi mjög vandlega hvort skynsamlegt sé að setja af stað ferli hvað varðar úthlutanir á leyfum eins og hér er gert ráð fyrir, ef menn meina eitthvað með því að ætla að reyna að finna þverpólitíska lausn á málinu. Sú lausn hlýtur að verða að byggjast á svipuðum sjónarmiðum og fram komu í niðurstöðu auðlindanefndar og hafa komið fram hjá flestum stjórnmálaflokkum í landinu um að þeir vilji varðveita sameiginlegar auðlindir okkar og að ákvæði um þær verði sett í stjórnarskrána.