131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[16:10]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum. Eins og hæstv. ráðherra sagði í inngangsræðu sinni er verið að breyta lögum sem hingað til hafa gilt í landinu og fjölluðu um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Umtalsverðasta breytingin er sú að vatnsföllin og vatnsorkan er tekin inn undir þetta mál. Þar verður stór hluti af fókusnum að vera í umfjöllun um málið. Ég vil af því tilefni byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra hreinlega um yfirskriftina á frumvarpinu: Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum. Hvernig getur hæstv. ráðherra heimfært vatn og vatnsorkuna upp á jarðrænar auðlindir þegar við vitum öll hver hringrás vatnsins er? Það kemur jú upphaflega úr himninum, rignir þaðan yfir okkur og gufar svo upp. Mér finnst þetta alveg ótrúlega villandi nafn á frumvarpi. Þetta er ekki hártogun og ég ætlast til þess að ég fái málefnalegt svar. Hvers vegna er frumvarpið þá ekki bara látið heita: Rannsóknir og nýting á ólífrænum auðlindum jarðar, eða eitthvað slíkt? Mér finnst alveg fáránlegt að kalla vatnsorkuna okkar og vatnsföllin okkar jarðrænar auðlindir. Þetta vildi ég segja í tilefni af fyrirsögninni á þingskjali 459.

Því næst vil ég koma að því sem mér finnst vera meginatriði málsins. Mér finnst vægast sagt með ólíkindum hversu sterkur sá vinkill er í málinu, eins og hæstv. ráðherra flytur það, sem heimfæra má undir framkvæmdaraðilana og framkvæmdina sjálfa á rannsóknunum og nýtingunni og hvernig hún í frumvarpinu, greinargerðinni og inngangsræðu sinni kemst algerlega hjá því að líta svo á að hér geti verið um umhverfismál að ræða. Í ræðu sinni bendir hún eingöngu á önnur lög sem gildi í landinu þar sem umhverfissjónarmiða sé gætt.

Ég mótmæli þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra og mótmæli fókusnum í frumvarpinu, hversu halt það er undir sjónarmið hagsmunaaðila á borð við framkvæmdaraðilana í þessu tilfelli og segja fullum fetum að málið sé ekki síður umhverfismál en nýtingarmál. Hæstv. ráðherra á auðvitað ekki að koma á óvart að þingmenn í þessum sal og stór hluti þjóðarinnar geri við það athugasemdir þegar framkvæmdarvinkill iðnaðarráðuneytisins er gagnrýndur á þeim nótum sem fram kom í andsvari hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, gagnrýndur vegna þess að umhverfisþátturinn sé skilinn undan framkvæmdarþættinum. Það er ekki hægt að fjalla um þessa hluti með því að aðskilja þá svo gjörsamlega sem hæstv. ráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, virðist óska sér. Það ætti henni að vera fullkunnugt, sérstaklega í ljósi þess að hún hefur umsjón með rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu jarðvarma og vatnsfalla. Þar er verndarþátturinn tekinn inn í sem einn af veigamestu þáttunum, svo hæstv. ráðherra á auðvitað ekki að koma þetta á óvart.

Ég tók eftir því í máli hæstv. ráðherra, að hún segir að málið hafi verið unnið í góðri sátt og samvinnu við umhverfisráðuneytið. Ég krefst þess að hæstv. ráðherra geri nánari grein fyrir aðkomu umhverfisráðuneytisins á vinnslustigi málsins.

Það er algerlega nauðsynlegt áður en málið fer til nefndar að það sé algjörlega uppi á borðinu og skýrt og kvitt og klárt hver aðkoma umhverfisráðuneytisins að þessu máli hefur verið. Það verður að vera þingmönnum á Alþingi Íslendinga ljóst hvort umhverfisráðuneytið er endanlega orðin skúffa í iðnaðarráðuneytinu eða hvort það hefur sjálfstæðan vilja sem það hefur getað látið koma fram í vinnslu þessa máls. Ef það er vilji umhverfisráðuneytisins að mál með þessum hætti fari svona í gegnum þingið þá verður það líka að liggja ljóst fyrir við 1. umr. því það segir þá meira en mörg orð um umhverfisráðuneytið og hvernig því er fyrirkomið í Stjórnarráðinu hjá Halldóri Ásgrímssyni.

Ég vísa á bug hinum ómálefnalega málflutningi hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur sem kom fram í andsvörum áðan þar sem hún enn eina ferðina lýsti því yfir að afstaða hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sé kunn, hún sé sú að vera á móti allri nýtingu. Þetta er ómálefnalegur málflutningur hæstv. ráðherra og henni ekki sæmandi. Enn eina ferðina neyðist ég því að gera alvarlega athugasemd við málflutning af þessu tagi og bið hæstv. ráðherra í þessari umræðu að halda sig við það sem hér er til umræðu.

Ég fæ ekki betur séð við lestur þessa frumvarps en að iðnaðarráðuneytið sé að sölsa undir sig málefni umhverfisins og þykir mér því vera staðfest sú tilfinning sem ég hef haft og hef oft lýst í þessum sal að iðnaðarráðuneytið fari offari innan ríkisstjórnarinnar og nái til sín málum sem eðli máls samkvæmt ættu ekki síður að heyra undir umhverfisráðuneytið.

Ég skal alls ekki draga úr nauðsyn þess að efla rannsóknir á möguleikum okkar til orkunýtingar. Ef hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir kynnir sér þingsályktunartillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um sjálfbæra orkustefnu þá finnur hún út að Vinstri hreyfingin – grænt framboð talar fyrir nýtingu á afar varfærnum nótum. Við viljum efla rannsóknir og að þær fari fram með þeim hætti að sem yfirgripsmest þekking náist án þess að rannsóknirnar sjálfar skaði lífríkið og auðlindirnar, náttúruna. Við höfum talað fyrir nýtingu þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi en ekki jarðvöðulsháttur og böðulgangur sem manni finnst oft einkenna vilja þeirra sem vilja komast í auðlindirnar.

Nú hafa framkvæmdaraðilar verið frekir til fjörsins upp á síðkastið, sérstaklega eftir að ný raforkulög litu dagsins ljós, raforkulög sem hæstv. iðnaðarráðherra mælti hér fyrir og sem hafa verið gagnrýnd af hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs m.a., ekki síst fyrir það að með þeim sé gefið út nánast veiðileyfi á allar orkuauðlindir landsins. Það er auðvitað sú staðreynd sem er fólgin í raforkulögunum sem kallar á það frumvarp sem hér er til umfjöllunar, bráðabirgðafrumvarp til þess að búa til einhvers konar regluverk utan um framkvæmdaraðilana sem eru frekir til fjörsins og vilja nú ólmir fara upp um fjöll og firnindi, búa til rannsóknarverkefni í tengslum við ýmist jarðhita eða vatnsorku, hver um annan þveran, jafnvel tveir eða þrír á sömu svæðunum. Allt saman er þetta komið til vegna ákvæða sem finna má í raforkulögunum og gera ráð fyrir þessari samkeppni á orkumarkaði, samkeppni sem ég hef alltaf haldið fram að eigi ekki við íslenskar aðstæður.

Ég hef ævinlega talað fyrir því að það sé farið með gát og það hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gert. Við töldum frá því fyrsta að tilskipun Evrópusambandsins varðandi raforkulögin hefði verið þess eðlis að við hefðum átt að geta fengið undanþágu frá henni. Við mæltum fyrir því að — þó Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi raunar ekki verið komin til þegar tilskipunin leit upphaflega dagsins ljós þá talaði hv. fyrrverandi þingmaður Hjörleifur Guttormsson um það hér. Ég man eftir að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um það líka að raforkutilskipunin væri þess eðlis að það ætti að vera hægt að sækja um undanþágur frá henni. Það var ekki gert. Það var pólitísk ákvörðun að slíkt yrði ekki gert. Þess vegna erum við í því umhverfi sem hér um ræðir, umhverfi sem útheimtir það að hér séu settar einhverjar bráðabirgðareglur um rannsóknir og nýtingu á meðan einhver nefnd eða starfshópar hæstv. ráðherra starfa til þess að reyna að klóra sig út úr því að finna eitthvert kerfi sem gæti nýst okkur eða komið að gagni í þessum efnum til framtíðar.

Þó ég dragi ekki úr nauðsyn þess að rannsóknir á möguleikum okkar til orkunýtingar séu efldar þá vil ég jafnframt gera mjög mikið úr því að þær rannsóknir verða að fara fram á einhverjum sanngjörnum nótum. Það er ekki hægt að hleypa rannsóknaraðilum á t.d. viðkvæm jarðhitasvæði sem eru náttúrugersemar í sjálfu sér. Framkvæmdaraðilar þurfa að leggja vegi að framkvæmdasvæðum sínum eða rannsóknarsvæðum. Á jarðhitasvæðunum þarf að bora holur og í djúpborununum sem nú er verið að reyna að fara út í þarf gífurleg mannvirki nánast, liggur mér við að segja, bora sem þurfa borplan sem þarf að vera slétt. Þegar menn ryðjast inn á þessi viðkvæmu svæði með rannsóknarborholum eða einhverjum rannsóknarleyfum þá fara þeir því í raun í eiginlegar framkvæmdir því ekki verður aftur snúið eftir að borplönin eru búin til.

Ætla menn í alvöru með þessum lögum að senda tvo, þrjá, fjóra rannsóknaraðila inn á viðkvæm jarðhitasvæði sem eru náttúrugersemar sem allt eins gætu ósortin átt heima á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna? Er það það sem menn ætla sér? Svo virðist vera samkvæmt þessu frumvarpi. Vegna þess hvernig andinn eða tónninn í því er þá er full ástæða til að blása í alla varúðarlúðra og hringja öllum varúðarbjöllum sem mögulegt er því það er ekki hægt að sjónarmið þeirra sem vilja virkja orkuna ein séu látin ráða.

Vera kann að við spillum svo náttúrugersemum okkar að það verði ekki aftur snúið. Nú þegar er búið að spilla svo miklu af þessum svæðum og af þeim náttúrugersemum sem við höfum yfir að ráða, fórna þeim á altari stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, að mál er að linni. Það er mál að menn fari með meiri varfærni að hlutunum.

Hvers vegna í ósköpunum er t.d. ekki minnst á vatnalögin hér? Ég sé það ekki af lestri þessa frumvarps að hér sé nokkur virðing borin fyrir vatnalögunum okkar. Þau eru komin til ára sinna. Ef ég man rétt þá eru þau frá 1928. Ég segi fullum fetum: Auðvitað er kominn tími til þess að endurskoða þau. En þá vil ég líka að það sé gert á sömu nótum og Norðmenn endurskoðuðu vatnalöggjöf sína. Þeir bjuggu fyrir örfáum árum, ég held tveimur árum síðan, út nýja vatnslöggjöf og hún er vatnsverndarlöggjöf. Nákvæmlega á sama hátt og þegar Norðmenn settu sér rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þá settu þeir sér jafnframt verndaráætlun. Þeir stoppuðu framkvæmdaraðilana af sem eru svo frekir til fjörsins eins og ég hef áður sagt. Ef við værum nú að tala um löggjöf af því tagi, eins og vatnsverndarlöggjöf Norðmanna sem er til fyrirmyndar, stór og mikil löggjöf sem tekur á því hvernig hægt sé að fara að þessum málum án þess að bera fyrir borð sjónarmið náttúruverndar þá segi ég: Við eigum í þessu máli að fara að dæmi Norðmanna, hafa verndarsjónarmiðin í fyrirrúmi en ekki að fara með þessu offorsi, nýtingarofforsi upp um fjöll og firnindi og hætta að eyðileggja náttúrugersemar sem við fáum aldrei til baka ef fram heldur sem horfir. Vatnsverndarlög Norðmanna ætti auðvitað að hafa til hliðsjónar þegar þetta frumvarp verður skoðað í nefndum.

Það er algjört skilyrði að þetta mál fari í umhverfisnefnd Alþingis til skoðunar. Það er ekki af því ég vantreysti iðnaðarnefnd þingsins til þess að fjalla um rannsóknir eða nýtingu vatnsafls eða jarðvarma. Það er eingöngu vegna þess að ég lít svo á að hér sé um órjúfanlega þætti að ræða. Nýtingarsjónarmiðin heyra undir iðnaðarnefnd en verndarsjónarmiðin heyra undir umhverfisnefnd. Það er sjálfsagt mál að báðar þessir nefndir fái málið til umfjöllunar og það er til vansa fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að hún skyldi ekki hafa séð það sjálf áður en frumvarpið var lagt hér fram að þetta mál væri þannig vaxið að það yrði að fara í báðar þessar nefndir. (Iðnrh.: Mál fara aldrei nema í eina nefnd.)

„Mál fara aldrei í nema eina nefnd“, segir hæstv. ráðherra en veit að að sjálfsögðu fullvel hver framgangsmátinn hefur verið á Alþingi Íslendinga þegar þingmönnum hefur þótt ástæða til að setja málin inn í tvær nefndir. Þá vísar önnur nefndin málinu til umfjöllunar í hinni. Það er hægur vandi og það veit hæstv. ráðherra vel að hefur viðgengist hér. Það hefði verið sjálfsagt mál að hún hefði getið þess í inngangsræðu sinni með þessu máli.

Hæstv. forseti. Ég hef í máli mínu komið inn á rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Ég vil í því sambandi ítreka að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt fram þingsályktunartillögu í þinginu og talað fyrir henni þar sem þess er óskað að forræði rammaáætlunarinnar verði tekið úr höndum iðnaðarráðherra og fært undir hæstv. umhverfisráðherra. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta. Sjónarmið okkar í þessum málum eru nákvæmlega þessi: Við teljum að rammaáætlunin heyri undir þetta mál, tengist því órjúfanlegum böndum á sama hátt og við teljum að hér sé um umhverfismál að ræða, náttúruverndarmál sem eigi eðli máls samkvæmt að koma til umfjöllunar í umhverfisráðuneyti og umhverfisnefnd.

Hæstv. ráðherra segir í ræðu sinni að til þess að orkurannsóknir stöðvist ekki meðan verið er að vinna þetta mál í starfshópi og nefnd sem hún hyggst skipa samkvæmt frumvarpi þessu þá verði að setja upp svona löggjöf sem beri að líta á sem einhvers konar bráðabirgðaástand. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessu líka. Ég tel enga þörf á því að setja upp vona bráðabirgðalöggjöf. Ég tel að við höfum allan þann tíma sem við þurfum til þess að fara rækilega ofan í saumana á þessu máli, vinna það vandlega með öllum þeim sem að því mundu vilja koma því þetta er svo gífurlega umfangsmikið mál að það er nauðsynlegt að hér sé vandað til verka og stigið varlega til jarðar.

Í orkustefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem byggir á hugmyndum sjálfbærrar þróunar þá gerðum við okkur grein fyrir því að það þyrfti á einhverjum punkti að stoppa til þess að við gætum mótað okkur stefnu. Mér finnst sjálfsagt að við hægjum nú á. Setjum bara í handbremsuna og segjum: Við förum ekki lengra í orkunýtingarmálum á næstu tveimur, þremur, fjórum eða fimm árum eða hvað það er sem við teljum okkur þurfa, vegna þess að við viljum gæta hér jafnræðis í sjónarmiðum. Við viljum sjá til þess að umhverfisvernd sé hér höfð að leiðarljósi og að varúðarreglan sé hér við lýði og að farið sé að þeim ákvæðum í Ríó-samningnum sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Það erum við ekki að gera með því óðagoti og bráðræði sem þetta frumvarp lýsir.

Hæstv. forseti. Í greinargerð með þessu frumvarpi — hv. þm. Mörður Árnason gat um í það andsvari áðan við hæstv. ráðherra — er sagt í 1. tölulið III. kafla greinargerðarinnar að markmiðsákvæðið í frumvarpinu sem fólgið er í 1. gr. sé til að tryggja að stjórn náttúruauðlinda sé hagkvæm frá samfélagslegu sjónarmiði og að við nýtingu þeirra sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða og réttmætra hagsmuna fasteignareiganda

Ég tel hæstv. ráðherra hafa reynt að koma sér hjá því í andsvari sínu að svara réttmætri athugasemd hv. þingmanns. Það verður að koma hér fram hjá hæstv. ráðherra svo hægt sé að vitna til þess í umfjöllun nefnda um málið hvernig hún álítur að taka beri tillit til umhverfissjónarmiða í þessum efnum og hvort hún telji í alvöru að umhverfissjónarmiðanna sé gætt í orðalagi 1. gr. eða hvort þarna sé um einhvern lapsus að ræða, hvort það vanti umhverfissjónarmiðin, það orð, í 1. gr. Þessi athugasemd er fullkomlega réttmæt og spurningin eðlileg og rétt er að ítreka að ekki er hægt að ljúka 1. umr. um málið án þess að hæstv. ráðherra gefi okkur svar. Hvaða sjónarmið á Orkustofnun að hafa að leiðarljósi við auðlindastjórnina? Á hún að hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi eða ekki? Þetta er klár spurning sem nauðsynlegt er að fá svar við.

Ég sé að ræðutími minn er nokkurn veginn úti og vil ég í lok máls míns bara segja að það hvernig hæstv. iðnaðarráðherra hefur fókuserað þetta mál í kringum þá sem vilja framkvæma á hálendinu, sem vilja nýta orkuna, tel ég til mesta vansa og málinu ekki til framdráttar. Af því að ég heyrði gagnrýni úti í sal frá hv. þm. Birki Jónssyni þegar ég talaði um framkvæmdaraðilana þá ætla ég bara að minna á það hér að það eru nú einu sinni framkvæmdaraðilar, þ.e. Landsvirkjun sem hefur t.d. ráðið hvað mestu um hvernig vegir hafa verið lagðir um hálendi Íslands vegna þess að virkjunarhagsmunirnir hafa ráðið því. Þetta er eitt dæmi sem ber að hafa í huga við umfjöllun þessa máls.