131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[16:52]

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði í andsvari mínu við ræðu ráðherra fyrr í dag er hér um gríðarlega umfangsmikið mál að ræða. Svo virðist sem iðnaðarráðuneytið stefni að því að sölsa undir sig allt sem er að finna á og í landi svo framarlega sem það ekki er fjölfrumulífvera, planta eða dýr, og að með úthlutun leyfa til leitar og rannsókna á slíkum auðlindum skuli einungis fara samkvæmt þrengstu kröfum nýtingaraðilanna. Það er ekkert undanskilið hér, það er sama hvort um er að ræða gjallnámur, rauðamöl, jarðvarma eða vatnsfall. Frumvarpið nær svo ótrúlega langt að ég held að það hafi nánast ekkert verið undanskilið þegar það var sett saman.

Ég ætla bara til upprifjunar að renna yfir það, með leyfi hæstv. forseta, til hvaða auðlinda frumvarpið tekur. Það er í fyrsta lagi það sem bent hefur verið á hér og gagnrýnt, þ.e. grunnvatnið. Það er sem sagt nytjavatnið okkar, grunnvatnið sem vatnsspegillinn byggir á, „vatn í samfelldu og viðvarandi vatnslagi í vatnsmettuðum jarðlögum“. Það fellur hér undir.

Ég hafði áður nefnt hveraörveruna. Það er eina lifandi eindin sem er í frumvarpinu og hefur hingað til ekki heyrt undir iðnaðarráðuneytið.

Undir lögin falla „öll gosefni og önnur steinefni, málmar, málmblendingar og málmsteindir, kol, jarðolía, jarðgas og önnur nýtanleg efni sem finnast kunna á landi og í jörðu“.

Síðan er auðvitað allur jarðhitinn. Hvað skyldi það nú vera? Það er „jarðvarmaforði í jarðlögum, varmastraumur úr iðrum jarðar og heitt grunnvatn, sem flytur jarðvarmaorku“. Allt þetta eru jarðrænar auðlindir samkvæmt frumvarpinu og á því kemur sérstök skilgreining, með leyfi forseta:

„Hvers konar jarðefni, frumefni, lífræn og ólífræn efnasambönd,“ — þarna er olían komin ef hún skyldi finnast — „vatn og orkulindir sem vinna má á landi og úr jörðu, hvort heldur er í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þær kunna að finnast við.“

Ég segi enn og aftur, hæstv. forseti, að hér hefur ekkert gleymst, því að á næstu síðu er að finna nytjavatnið, það fellur líka undir þessi lög og það er „grunnvatn og yfirborðsvatn sem numið er til neyslu eða til annarra nota“.

Þarna er auðvitað líka vatnsfallið, orkulindin og yfirborðsvatnið, sem er „annað vatn en grunnvatn“.

Ég nefndi það áðan og spurði ráðherra hver væri hugmynd hæstv. ráðherra um aðkomu umhverfisráðuneytis og umhverfissjónarmiða/náttúruverndarsjónarmiða í málinu og fékk auðvitað engin svör. Mér finnst frumvarpið ganga það langt að ég hreyfði þeirri spurningu og spurði hæstv. ráðherra að því hvenær leggja ætti umhverfisráðuneytið niður því að á það væri ekki minnst í frumvarpinu. Hæstv. ráðherra brást ókvæða við en sagði að umhverfisráðuneytið hefði komið að undirbúningi málsins.

Nú ætla ég, með leyfi forseta, að lesa það sem segir um undirbúning málsins, ef vera kynni að þar væri minnst á umhverfisráðuneytið. Það kemur fram á bls. 12 í athugasemdum við frumvarpið, með leyfi forseta:

„Í júní 2002 skipaði iðnaðarráðherra starfshóp til þess að endurskoða lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.“

Síðan er rakið hvað stóð í skipunarbréfinu og að skipaður var starfshópur sem hér segir: „Sveinn Þorgrímsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu, formaður, Kristín Haraldsdóttir, lögfræðingur í iðnaðarráðuneytinu, Sveinbjörn Björnsson, deildarstjóri í Orkustofnun, Valgarður Stefánsson, yfirverkefnisstjóri í Orkustofnun, og Eyvindur G. Gunnarsson hdl.“ Mér er ekki kunnugt um að Eyvindur þessi Gunnarsson vinni hjá umhverfisráðuneytinu en það kann þó að vera þótt það komi ekki fram hér.

Síðan er rakið hvernig nefndin skilaði af sér frumvarpsdrögum í desember 2002, fyrir tveimur árum, og að frumvarpið hafi síðan verið til skoðunar. Hvar skyldi það hafa verið? Í iðnaðarráðuneytinu og hjá Orkustofnun. Enn er ekki minnst á umhverfisráðuneytið.

Síðan, í september 2004, með leyfi forseta, „voru Karl Axelsson hrl. og lektor við lagadeild Háskóla Íslands, Eyvindur G. Gunnarsson hdl., fengnir til þess að endurskoða frumvarpsdrögin ásamt starfsmönnum“ — hverra? — „iðnaðarráðuneytis, þeim Pétri Erni Sverrissyni lögfræðingi, Helga Bjarnasyni skrifstofustjóra og Sveini Þorgrímssyni skrifstofustjóra. Frumvarp það sem hér er lagt fram er afrakstur þessarar vinnu.“

Er nema von, hæstv. ráðherra, að maður spyrji: Hver er aðkoma umhverfisráðuneytisins að málinu? Ég leyfi mér að segja það enn og aftur að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á — ég hef ekkert hér í höndunum í þessum frumvarpsdrögum eða greinargerð með frumvarpinu sem segir mér annað en að það hafi verið unnið í iðnaðarráðuneytinu og Orkustofnun og hvergi annars staðar. Ég vil bara leyfa mér að vekja aftur athygli á þessu vegna þess að ég fékk ekki nein svör við því áðan.

Menn hafa spurt hér: Hvað er það sem rekur menn til þessarar lagasetningar nú? Það er auðvitað ljóst að það eru raforkulögin nýju sem verið er að bæta þessa dagana, setja bætur á eða plástra eftir því hvað menn vilja kalla það, sem hafa orðið til þess að verið er að stefna orkunýtingarfyrirtækjunum í landinu saman í einhverja ímyndaða samkeppni til tjóns fyrir fyrirtækin sjálf, landeigendur og alla þá sem þurfa á orku og orkunýtingu að halda vegna þess að þetta mun aðeins hækka verðið, bæði á raforku og vatni, ef svo fer fram sem horfir.

Í greinargerð með frumvarpinu er sagt að ekki séu nægilega skýr ákvæði í lögum til þess að taka á þeirri stöðu sem upp er komin vegna nýju raforkulaganna, og það kann vel að vera, en það er hins vegar ágætlega tekið á ýmsum atriðum sem vantar í þetta frumvarp. Það er ágætlega tekið á því til að mynda í lögum nr. 57/1998, sem samkvæmt þessu frumvarpi eru ekki nothæf til þess að úthluta leyfum til rannsókna og vinnslu, hvernig fara skuli með umhverfismálin.

Ég hef hér áður nefnt að það er rangt samkvæmt frumvarpinu og greinargerð þess að umhverfisráðuneytið hafi komið að þessu máli. Það kemur fram á bls. 12 í þessu frumvarpi, í innganginum. Og á það hefur verið bent að það er rangt þegar hæstv. ráðherra segir að í greinargerðinni og með útlistun á einstaka greinum hér eigi að taka tillit til umhverfissjónarmiða.

Á bls. 13 segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nýtt markmiðsákvæði er í frumvarpinu þar sem fram kemur að markmið laganna sé að tryggja að stjórnun náttúruauðlinda sé hagkvæm frá samfélagslegu sjónarmiði“ — Það er rétt. Það er í markmiðslýsingunni — “og að við nýtingu þeirra sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða ...“

Þetta er rangt. Það stendur ekki í markmiðsgreininni.

Síðan er þriðji liðurinn, með leyfi hæstv. forseta:

„... og réttmætra hagsmuna fasteignareiganda.“

Það er rétt. Það er minnst á hann, eignarrétt fasteignareiganda, í 1. gr. laganna um markmið. Það er hins vegar ekkert fjallað þarna um umhverfissjónarmiðin.

Það er heldur ekki rétt sem segir á bls. 14 í greinargerðinni, að fylgt sé leiðbeiningum auðlindanefndar við lagasmíði þessa. Þar segir, með leyfi forseta:

„Telja verður að unnt sé að hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem sett eru fram í álitsgerð auðlindanefndar frá september 2000 ...“

Hvað skyldi nú segja í leiðbeiningum frá auðlindanefnd um nýtingu auðlindar? Þar segir, með leyfi forseta:

„Tryggð sé sjálfbær nýting endurnýjanlegra auðlinda og hins sameiginlega umhverfis jarðarbúa.

Varlega sé farið í nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.

Stjórn auðlinda byggist á vísindalegri þekkingu um náttúruauðlindir og þau áhrif sem nýting þeirra hefur í för með sér.“

Í þessu frumvarpi er ekkert að finna um þessi atriði sem hér eru talin, bara ekki neitt, því miður.

Enn eitt atriði er rangt í þessari greinargerð. Hér segir enn og aftur um markmiðsgreinina á bls. 15, með leyfi forseta:

„Meginmarkmiðið er skynsamleg stjórnun og hagkvæm nýting náttúruauðlinda frá samfélagslegu sjónarmiði, að teknu tilliti til eignarréttar fasteignareiganda.“

Svo segir, með leyfi forseta:

„Með tilvitnuðu orðalagi er vísað til þeirra sjónarmiða sem talin eru mikilvæg í samfélaginu á hverjum tíma, þar á meðal umhverfissjónarmiða. “

Á það er bent að ekki sé eiginlegt markmiðsákvæði í lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Hins vegar er bent á að svipaða reglu sé að finna í 17. gr. þeirra laga. Svipaða, já. Það segir reyndar líka í þessu frumvarpi, því að þetta er orðað með með nokkuð öðrum hætti. Já, það er rétt. En hvað skyldi nú segja í þessari 17. gr., með leyfi forseta:

„Við veitingu nýtingarleyfa skal þess gætt að nýting auðlinda í jörðu sé með þeim hætti að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða, nýting auðlindanna sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og tekið sé tillit til nýtingar sem þegar er hafin í næsta nágrenni.“

Á blaðsíðu 16 segir einnig, með leyfi forseta:

„Ákvæði frumvarpsgreinar þessarar“ — þ.e. þeirrar sem við erum að tala um, 1. gr. frumvarpsins — „er orðað með nokkuð öðrum hætti en 17. gr. laga nr. 57/1998. Rétt þykir að nota fremur orðið „frá samfélagslegu sjónarmiði“ en „frá þjóðhagslegu sjónarmiði“ ...“

Hins vegar er ekki nefnt hér einu orði að orðið „umhverfissjónarmið“ hefur einfaldlega verið fellt út og að taka beri tillit til þess. Því er nú ekki alveg allt sem sýnist í þessum efnum.

Það kemur fram í greinargerðinni að samhliða þessu frumvarpi eigi að leggja fram nýtt frumvarp að vatnalögum. Það fylgir ekki þessu frumvarpi. Það kemur fram í þessari greinargerð líka að Orkustofnun sé falin stjórnsýsla vatnamála að hluta en að allar reglur einkaréttarlegs eðlis sé að finna í vatnalögunum. Á það var bent fyrr í dag að þau eru komin nokkuð til ára sinna. Þau eru frá 1924 og það er furðulegt að þess skuli getið í greinargerðinni að nýtt frumvarp til vatnalaga verði lagt fram samhliða þessu frumvarpi og að þess vegna séu ekki talin efni til þess í greinargerðinni að fjalla nánar um vatnalögin. Það hlýtur að þurfa að ræða mjög ítarlega um vatnalögin í þessu sambandi vegna þess að hér er verið að fella inn allt vatn, hverju nafni sem það nefnist, loftkennt, heitt og kalt, neysluvatn, grunnvatn, yfirborðsvatn og regnvatn, allt. Allt skal fara hér inn.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég gagnrýndi áðan þá tillögu sem hér er nefnd í bráðabirgðaákvæði um sérstaka nefnd til þess að fjalla um ráðstöfun nýtingar- og rannsóknarleyfa eftir 15. september 2006. Fleiri hafa orðið til þess að gagnrýna samsetningu þeirrar nefndar og ég tel einsýnt að það eigi bara að vinna þetta mál betur og vísa þessu til beggja nefnda, umhverfisnefndar og iðnaðarnefndar, eins og hér hefur komið fram.

Ég get ekki farið úr þessum ræðustól, hæstv. forseti, öðruvísi en að spyrja mig þeirrar spurningar hvort hér sé verið að efla rannsóknir á íslenskri náttúru. Svarið er því miður nei. Svarið er því miður nei vegna þess að verið er að taka út úr leitar-, rannsóknar-, þ.e. nýtingarrannsóknunum öllum þann þátt sem þó hefur verið innibyggður í því ferli sem er rannsóknir á hinni lifandi náttúru Íslands og því sem tekið er fram í álitsgerð auðlindanefndar, þ.e. hvaða áhrif nýtingin sem slík kann að hafa á umhverfið og náttúruna, að ekki sé talað um auðlindina sjálfa. Þetta vantar allt saman hér inn.

Ég átti þess kost fyrir nokkru að hlýða á fyrirlestur íslensks sérfræðings hjá Skipulagsstofnun sem heimsótti Nýja-Sjáland og Japan og skoðaði þar nýtingu jarðhita. Hv. þm. Mörður Árnason spurði áðan: Hvað gerist ef íbúarnir í ákveðnu húsi við Laugaveginn fara að nýta grunnvatnið sitt? Það er að vísu sett aðeins undir þann leka hér. En á Nýja-Sjálandi eru þeir hættir að nýta jarðhitann með þessum hætti. Þeir eru bara hættir því. Stærsta nýtingarsvæðið þeirra hefur fallið saman um 17 metra. Jarðhitageymirinn undir því svæði er svo mikill og svo stór að menn hafa ekki undan að gera við vegi og brýr og annað landslag og upp koma alls staðar og úti um allt heitir hverir og laugar. Þarna var farið af stað án þess að nægilega mikil vitneskja lægi fyrir hendi. Þeir eru hættir að nýta þessa auðlind sína vegna þess að þeir hafa séð hvernig ofnýtingin hefur verið með hana.

Við skulum vona að kapphlaupið sem búið er að setja af stað um jarðhitasvæðin okkar eigi ekki eftir að fara svona með landið okkar.