131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[17:14]

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lágt er nú lagst. Ég átti þess kost í heimsókn minni til Ástralíu í haust að hitta Bob Brown og nokkra aðra þingmenn græningja í Ástralíu og ég vona ... (Iðnrh.: Á kostnað Landsvirkjunar?) Það var ekki á kostnað þess tíma sem ég var í vinnu fyrir Landsvirkjun þarna, hæstv. ráðherra. Það var í mínum eigin tíma. (Iðnrh.: Hver borgaði ferðina?) Hver borgaði ferðina? Ég fór þangað eins og aðrir á vegum Landsvirkjunar á kostnað Landsvirkjunar í flugi. Ég dvaldi þarna hins vegar á minn eigin kostnað það sem ég var umfram fundartímann, eðlilega. Þetta finnst mér einhvern veginn ekki sæma. Ég ætla ekki að ansa þessu frekar.

En ég vil segja við hæstv. ráðherra: Ég ætla ekki að fara að telja upp virkjanir, hvorki á vegum Landsvirkjunar né umsóknir sem kunna að vera mér eða einhverjum öðrum þóknanlegar. Það vill svo til að það er verkefni hæstv. ráðherra að telja upp í næsta skrefi rammaáætlunar, í öðrum áfanga rammaáætlunar, þær virkjanir og virkjanakosti sem eru boðlegir vegna hagkvæmnissjónarmiða og vegna umhverfissjónarmiða. Ég held, virðulegur forseti, að það sé kominn tími til að ráðherrann snúi sér að því verki. Það liggur á því vegna þess að kapphlaupið sem iðnaðarráðuneytið hefur sett af stað um virkjanakosti í landinu er að verða þessu landi hættulegt.