131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[17:47]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu sem hefði mátt vera málefnalegri. Ég held því fram að við séum að fjalla um eitt af grundvallarmálum í landinu, sem varða nýtingu á auðlindum okkar. Það hljóta allir að vera sammála um að við þurfum að hafa lög og reglur um hvernig skuli á málum haldið, nú þegar tekið er upp frelsi í sambandi við vinnslu á orku, bæði jarðvarma og vatnsafli. Þetta mál gengur m.a. út á að koma málum í ákveðinn farveg til bráðabirgða og að síðan verði unnið að framtíðarmarkmiðum og framtíðarstefnu í þeirri nefnd sem tillaga er um að verði skipuð eftir að lögin hafa verið samþykkt. Ég hélt að það yrði fulltrúum stjórnarandstöðunnar ánægjuefni að lagt er til að stjórnarandstaðan eigi aðild að nefndinni, en ég hef ekki heyrt nokkurn mann nefna það. Það er þá kannski óþarfi að hafa þetta þannig, þó ég teldi rétt að leggja það til.

Margt hefur verið nefnt sem ekki síður varðar framtíðarskipulagningu þessara mála heldur en frumvarpið sem er til umfjöllunar, og öll þau sjónarmið eiga að sjálfsögðu erindi inn í nefndarstarfið sem boðað er. En ég tel frumvarpið sem hér liggur frammi fela í sér skynsamlega nálgun á því hvernig við eigum að halda á málum þar til sú nefnd hefur lokið störfum. Þar er kveðið á um rannsóknarleyfi, nú þarf rannsóknarleyfi bæði í vatnsafli og jarðvarma. Þau eru mest til fimm ára. Síðan er tveggja ára tímabil sem viðkomandi handhafi rannsóknarleyfis hefur til þess að ákveða hvort hann ætli að nýta þá auðlind sem hann hefur rannsakað, með því að fá þá nýtingarleyfi. Það er því ekki hægt að safna að sér auðlindum eða safna að sér virkjanakostum án þess að nýta þá. Þess vegna tel ég að það sem hér er farið fram á og lagt er til, sé skynsamlegt og vona að um það geti orðið samstaða í hv. iðnaðarnefnd. Að sjálfsögðu þarf að fara vel yfir málið, ég get alveg tekið undir það.

Af því að mikið hefur verið gert úr því í þessari umræðu að ekki sé fjallað nægilega um umhverfisþáttinn og umhverfismálin í frumvarpinu, þá endurtek ég að það er önnur löggjöf sem þar um ræðir, en þetta frumvarp er um nýtinguna. Við getum bara talað opinskátt um það, þetta er um nýtingu á auðlindum. Miðað við síðustu ræðu formanns vinstri grænna, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, þá harðneitar hann að hann sé á móti því að nýta auðlindirnar. Hann hlýtur þá að vera sammála því að það þarf að hafa reglur um hver skuli fá réttinn til nýtingar.

Það hafa fleiri en einn þingmaður talað um að 1. gr. frumvarpsins sé ekki í samræmi við greinargerðina um 1. gr., en greinargerðin hlýtur alltaf að vera ítarlegri. Þar kemur fyrir orðið „umhverfissjónarmið“ sem ekki kom fyrir í greininni sjálfri og mér finnst ekkert athugavert við það. Og þegar talað er um skynsamlega stjórn, þegar það orðatiltæki er notað, þá erum við að sjálfsögðu með umhverfissjónarmiðin í huga, ég held að það hljóti að vera hægt að útskýra það. Það kemst ekki allt fyrir í sjálfum lagatextanum, en greinargerðir eru gjarnan taldar vera lögskýringatæki. Þess vegna er þetta með þessum hætti. Mér finnst eins og einhver tilhneiging hafi verið hér í dag hjá ákveðnum hv. þingmönnum til að leggja allt út á versta veg, að einhver annarleg sjónarmið búi að baki framlagningar þessa frumvarps, sem ég tel vera eins og hvern annan sjálfsagðan hlut, miðað við það að við erum komin í breytt umhverfi raforkumála. Það er óþarfi að taka þá umræðu einu sinni enn, en hún hefur svo sem aðeins komið inn líka.

Það var líka sagt að það vantaði alveg vísindamenn í Orkustofnun og þess vegna væri fráleitt hvað Orkustofnun hefði stórt hlutverk. En í auðlindadeild Orkustofnunar hefur virtur maður farið með forustuna en það er Sveinbjörn Björnsson, fyrrverandi rektor. Mér finnst leiðinlegt að þannig skuli vera talað um jafnvirtan mann og Sveinbjörn er, og þá deild sem hann hefur veitt forustu, þó svo að þar sé nú að verða breyting á.

Það var líka talað um að það væri galli að ekki þyrfti umhverfismat á leitarstigi. En leit er ekki þess eðlis að þá þurfi að fara í umhverfismat, því þá er nánast farið fótgangandi um svæðið. Það er hins vegar allt annað þegar komið er á rannsóknarstigið. En það var líka nefnt að skynsamlegt væri að skipta þessu í þrjá þætti, eins og lagt er til í frumvarpinu og ég þakka fyrir það.

Ég veit ekki hvort ég á að fara að fara út í að ræða við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon um það sem kom fram í ræðu hans, mér fannst það vera nokkuð hástemmt. Hann gerir mikið úr að Framsóknarflokkurinn hafi farið villur vegar og þar séu fyrst og fremst umhverfissóðar, eins og sú sem hér stendur, en því vil ég mótmæla. Það er ekki svo. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við eigum að nýta auðlindir okkar og það vill svo til að margar nágrannaþjóðir okkar — og þótt víðar væri leitað — horfa til okkar með mikilli öfund vegna þess hve langt við erum komin hvað varðar umhverfisþátt raforkumála, þar sem við framleiðum eingöngu hreina orku og um 2/3 af þeirri orkunýtingu sem á sér stað í landinu er endurnýjanleg orka. Það eru ekki aðrir sem gera mikið betur í þeim efnum, en í umræðunni sem fer fram hér á hv. Alþingi þá er þetta á allt annan veg, þá erum við umhverfissóðar sem stöndum fyrir þessu.

Af því að hv. þingmaður nefndi Steingrím Hermannsson í þessu sambandi, að hann hefði ætlað sér að gera þennan flokk að grænum flokki, þá varð það nú þannig að þegar hann var ungur maður í Framsóknarflokknum þá var hann eini maðurinn, eða u.þ.b. sá eini sem studdi að álverið væri byggt í Straumsvík og hann barðist ekki gegn því, þótt aðrir framsóknarmenn væru dálítið mikið á móti þessu á þeim tíma. Þetta segir kannski sína sögu um ákveðnar breytingar sem hafa átt sér stað. Ég held að nú séu flestir ánægðir með að þetta fyrirtæki skuli vera rekið í Straumsvík og hv. þingmenn vinstri grænna hafa meira að segja ekki gert athugasemdir við stækkun þess. Hugsanlega hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, en þegar álverið í Straumsvík var stækkað á 10. áratugnum þá rann það allt ljúflega í gegn og engin mótmælti. Svona hafa nú tímarnir breyst.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara dýpra í fyrirspurnir sem komu fram. Þessi mál verða rædd í nefnd, og síðan í þeirri nefnd sem verður til í framhaldi af samþykkt laganna. Þetta er að sjálfsögðu mál sem vísað er til iðnaðarnefndar eins og ég lagði til í framsöguræðu minni.