131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[17:56]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ástæða til að hæstv. ráðherra geri okkur betur grein fyrir því hvers vegna liggur á með þetta mál, áður en það hefur verið undirbúið þannig að hægt sé að koma ákvörðuninni um nýtinguna fyrir með einhverjum skilgreindum hætti, en ekki með bráðabirgðaákvæði eins og verið er að tala um að hafa. Varðandi þá nefnd sem gert er ráð fyrir að sett verði upp, og hæstv. ráðherra talaði um að væri kannski óþarfi að hafa fulltrúa frá stjórnarandstöðunni í, þá finnst mér ástæða til að segja — af því að hún var svona hvassyrt hér í dag — að sú nefnd hlýtur fyrst og fremst að fást við pólitískt verkefni, þ.e. hvaða leið eigi að fara til að velja þá sem nýta auðlindirnar. Mér finnst þess vegna svolítið undarlegt að í nefndinni eigi að vera þrír fulltrúar frá Samorku.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún sé ekki sammála mér um að stærsta hlutverk nefndarinnar sé að finna einhverja skynsamlega niðurstöðu, þar sem pólitísk samstaða gæti orðið um hvernig eigi að ráðstafa þessum auðlindum?

Í upphafi ræðu minnar spurði ég um skilgreiningu á eignarrétti á auðlindum. Telur ráðherrann ekki nauðsynlegt að fyrir liggi skilgreining á eignarréttinum, hvernig með hann skuli fara, hvað hann nær langt niður og hvernig eigi að skera úr því ef orka eða önnur verðmæti liggja saman neðan jarðar?