131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[18:00]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því við lestur frumvarpsins að gert var ráð fyrir því að einkaeigendur að auðlindum gætu án sérstaks leyfis nýtt þessa 10 lítra á sekúndu sem hæstv. ráðherra nefndi. Þeir þurfa að sækja um leyfi til rannsókna og síðan um nýtingarleyfi þegar þeir ætla að nýta meira.

Hæstv. ráðherra sagði að það lægi á vegna þess að það væri millibilsástand og að fleiri en einn vildu komast að. Í þessu frumvarpi er sem sagt verið að skera úr um það, t.d. með því að hafa þar ákvæði sem kveður á um að sá sem fyrstur sækir um eigi að fá ef umsóknir eru jafngildar. Er þá þar með búið að ákveða að þeir sem sendu inn fyrst umsóknir eigi að fá leyfi til að nýta þessar viðkomandi auðlindir? Verður kannski auglýstur umsóknarfrestur eftir að lögin hafa tekið gildi þegar þar að kemur?

Ég spyr að þessu. Mér finnst ástæða til að heyra það nánar en geri auðvitað ráð fyrir að það þurfi að auglýsa þegar lögin koma. En þá á sem sagt að nota fegurðarsamkeppnisaðferðina til að velja á milli aðila ef þeir eru jafnhæfir til að nýta auðlindina. Mér finnst það ekki boðlegt. Ég tel að það sé ekki á Orkustofnun leggjandi og ekki heldur hæstv. ráðherra. Ef Orkustofnun klárar ekki málið eða upp kemur ágreiningur á ráðherrann að taka við málinu, skilst mér.

Ég segi eins og er að mér finnst að þarna þurfi menn að vanda sig betur en gert er í þeim tillögum sem liggja fyrir.