131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[18:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemur feginsandvarp í ræðu hæstv. ráðherra þegar hún segir að nú sé komið að lokum þessarar umræðu. Hún kveinkar sér sáran og kvartar undan því að hér sé verið að leggja málin út á versta veg. Ég vísa yfirlýsingum af þessu tagi til föðurhúsanna. Hæstv. iðnaðarráðherra getur auðvitað ekki kveinkað sér undan því þótt hér séu hafðar uppi gagnrýnisraddir, að öllu leyti málefnalegar, á það mál sem hún flytur fram.

Ég vil í þessu andsvari inna hæstv. ráðherra eftir svörum við þeim spurningum sem voru lagðar fyrir hana af fjölda þingmanna í þessari umræðu. Þar má nefna spurningar á borð við útskýringu á nafninu. Hér er gagnrýnt að einungis skuli talað um jarðrænar auðlindir. Ég vil fá að vita hvers vegna þetta nafn er valið. Hvaða hugtak er verið að þýða? Yfir hvað á þetta að ná? Af hverju svarar hæstv. ráðherra ekki þeim spurningum sem var beint til hennar í þeim efnum?

Sömuleiðis vil ég fá að vita hvernig samstarf fór fram við umhverfisráðuneytið á vinnslutíma þessa frumvarps. Það var líka bein spurning til hæstv. ráðherra sem hún svaraði ekki. Síðan vil ég fá svör við því hvernig hæstv. ráðherra telur umhverfissjónarmiðin falla inn í 1. gr., þ.e. markmiðsgreinina. Fyrst hún gat ekki svarað því betur en hún gerði í ræðu sinni vil ég hreinlega fá svar við því hvort hæstv. ráðherra telji að það megi breyta markmiðssetningunni til samræmis við það sem sagt er í greinargerðinni, að umhverfissjónarmið skuli höfð til hliðsjónar.

Svo svaraði hæstv. ráðherra heldur ekki spurningum varðandi vatnalögin, ekki heldur um skuldbindingar á erlendum vettvangi varðandi aðra samninga sem lutu að sjálfbærri þróun eins og Ríó-samningurinn er og ekki heldur spurningu varðandi Árósasamninginn um þagnarskylduna. Allar þessar spurningar standa enn út af.