131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[18:10]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti nefnt mér þá virkjun sem hefur ekki einhver áhrif á náttúruna. Ég veit ekki hvaða virkjanir eru sjálfbærar að hennar mati. Þær hafa allar einhver áhrif á náttúruna og þess vegna þýðir ekkert að tala um þetta eins og hv. þingmaður gerir.

Hvers vegna fengum við sérstakt íslenskt ákvæði inn í Kyoto-bókunina? Auðvitað vegna þess að við erum að framleiða hreina orku. Það var skilningur á því í alþjóðasamfélaginu að það væri mikilvægt þegar horft er á umheiminn að bræða t.d. ál á Íslandi. Með þessu verða bara hv. þingmenn að lifa. Þetta var ástæða þess að við fengum inn íslenska ákvæðið og af því er ég mjög stolt.

Af hverju er nefndin svona samsett? Það er sjálfsagt hægt að hafa hundrað skoðanir á því hvernig svona nefnd eigi að vera samsett en eftir að við erum búin að fjalla um þetta í nokkur ár í ráðuneytinu leggjum við til að nefndin verði skipuð með þeim hætti sem tillaga er uppi um. Ef það er vandamál að of margir séu frá Samorku, þrír í tíu manna nefnd, finnst mér það bara ekki. Mér finnst mikilvægt að hafa fulltrúa orkufyrirtækjanna þarna inni, fulltrúa sem hafa þekkinguna og að sjálfsögðu líka miklar skoðanir á því hvernig á málum skuli haldið. Þeir, þ.e. þessi orkufyrirtæki og hugsanlega einhver fleiri eða einhver önnur, koma til með að nýta auðlindir okkar til framtíðar.

Rammaáætlun var nefnd í þessari umræðu. Komin er af stað vinna í sambandi við næsta áfanga þannig að það er allt í bærilegum farvegi.