131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[18:12]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé ágætt að reikna með því að þegar, eða ef, þetta frumvarp verður til afgreiðslu hér á vormánuðum noti menn tækifærið og fari í dálítið rækilega umræðu um stöðu orkumála og orkubúskapinn í landinu. Ég held að það sé miklu meira en tímabært að fara í grundvallarumræðu um þessi mál. Hana hefur verulega vantað. Það þarf að reyna að koma hér á dagskrá, og það höfum við svo sem verið að reyna með tillöguflutningi og ræðuhöldum í ein fimm ár, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, alvöruumræðu um framtíðarorkustefnu í landinu, um sjálfbæra orkustefnu sem hlýtur að verða kölluð svo. Það bara ósköp einfaldlega stenst ekki annað en að Íslendingar reyni að koma sér í þau hjólför með sín mál eins og straumar eru orðnir í alþjóðlegu samhengi í þessum efnum og við höfum reyndar skuldbundið okkur til með undirskrift Ríó-sáttmála og fleiri slíkra hluta. Inn í það koma að sjálfsögðu stefnumótandi ákvarðanir og stefna hvað varðar rannsóknaþáttinn.

Ég vil bara nefna 2–3 atriði af því tagi sem ég held að hljóti að þurfa að taka til grundvallarumræðu á Íslandi og mér finnst ekki hafa verið gert að undanförnu. Menn hafa anað áfram í blindni, að hluta til byggt á gömlum, jafnvel áratuga gömlum, viðhorfum um orkuforðann og um aðstæður hér í landinu í þessum efnum. Ég held að aldrei hafi farið fram sú grundvallarumræða um virkjun jökulvatna sem auðvitað hefði þurft að vera búið að taka fyrir löngu. Íslendingar eru nánast eina þjóðin í heiminum sem reynir að beisla korgug jökulvötn með jafngríðarlega árstíðabundna sveiflu í rennsli. Þetta erum við að gera. Það er eitt af þeim vandamálum sem er verið að glíma við og kalla á hin miklu miðlunarlón og allt sem þeim fylgir. Rennsli þessara vatna er þannig að það eru kannski nokkrir tugir rúmmetra á veturna en nokkur hundruð rúmmetra á sumrin. Menn vilja helst ná að beisla þetta allt. Menn hafa sett alla sína útreikninga þannig upp að það eigi helst að mjólka hvern einasta dropa út úr ánum og þá þurfa menn gríðarleg uppistöðulón og mikla miðlun til að fanga sumarrennslið. Með því kemur hins vegar allur framburðurinn. Það leiðir síðan til þess að lónin fyllast mjög hratt.

Það er hárrétt sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði, það er algerlega út í hött og fráleitt að telja jökulárvirkjun hverrar uppistöðulón fyllist á áratugum eða þótt það séu fáeinar aldir sjálfbæra virkjun. Það stenst ekki og það fæst ekki viðurkennt sem slíkt á alþjóðavettvangi. Kárahnjúkavirkjun með þeim miklu hliðaráhrifum og umhverfisspjöllum þar til viðbótar sem henni fylgja nær t.d. náttúrlega engan veginn máli í þessu, svo að maður tali ekki um t.d. Villinganesvirkjun sem á að fylla einhver fallegustu árgljúfur á Íslandi, sökkva þeim í eðju á 40–60 árum og þar með er virkjunin ónýt. Búin. Lónið fullt. Dettur einhverjum manni í hug að halda því fram eins og viðhorf eru orðin í nútímanum til umhverfismála að þetta sé hægt að kalla sjálfbæra virkjun? Nei, auðvitað ekki. Það er bara ekki þannig, hæstv. ráðherra, að af því að við séum með vatnsaflsvirkjanir séu þær sjálfkrafa umhverfisvænar. Það er bara því miður alls ekki þannig.

Annað atriði sem að mínu mati vantar stórlega inn í áætlanagerð okkar og stefnumótun á þessu sviði er hlýnunin, bráðnun jöklanna. Ég get eiginlega ekki ímyndað mér annað en meira og minna allar gamlar áætlanir Landsvirkjunar og Orkustofnunar, eldri en 5–10 ára, séu algerlega ónýtar. Þessir hlutir koma til með að þróast og verða strax á næstu áratugum allt öðruvísi en menn töldu alveg fram undir að ljóst varð í hversu stórfelldar og hraðar breytingar stefndi, svo ekki sé talað um næstu aldamót. Hvaða áhrif hefur þetta síðan á árnar sem að einhverju leyti sækja vatn sitt til jöklanna, eða inn á þau svæði sem nú eru hulin jöklum? Jú, þetta hefur þau áhrif að bráðnunin veldur gríðarlegu rennsli á einhverju áratugatímabili. Ætla menn þá að byggja virkjanirnar miðað við að ná þeim toppum öllum saman? Hvað gerist svo? Svo allt í einu er vatnsforðinn búinn. Þessar ár sem eru í mörg hundruð rúmmetrum á sumrin, breytast í snyrtilegar bergvatnsár með einhverra tuga rúmmetra rennsli á ári hverju, jafnvel á sumrin.

Það hlýtur að þurfa að endurmeta að verulegu leyti ýmsar áætlanir af þessu tagi. Þá vinnu vantar, og þeim mun fráleitari er sú ákvarðanataka sem menn hafa ráðist í á undanförnum árum. Það vantar ekki bara þessar forsendur, heldur einnig kortlagningu orkukostanna og forgangsröðun þeirra, m.a. og ekki síst með tilliti til umhverfisáhrifa sem rammaáætluninni var ætlað að gera. Hvað hafa menn gert? Jú, þeir hafa tekið jafnóðum út úr vinnunni þá virkjanakosti sem þeir eru farnir að bera víurnar í. Þetta er það sem hefur verið gert. Það var reiknað með því að Kárahnjúkavirkjun yrði þarna inni og þannig var lagt af stað með vinnuna. Þess vegna kom bráðabirgðamatið á hana, sem má spyrja hvaða tilgangi þjóni þegar hvort sem er var búið að taka pólitíska ofbeldisákvörðun um að byggja virkjunina og gefa allri vinnunni að rammaáætlun langt nef.

Hæstv. ráðherra segir að þetta sé nýtingarlöggjöf og menn eigi að skilja að þess vegna séu umhverfismálin ekki mjög fyrirferðarmikil þar. Ég minni á að þessir hlutir verða að vera samofnir. Það er ekki hægt að aðskilja þetta svona. Það eru ekki tvö algjörlega aðskilin hólf, umhverfishólfið og nýtingarhólfið. Það bara fúnkerar ekki þannig.

Það er óskaplega nöturlegt, og von að menn verði tortryggnir þegar fram kemur við lestur gagna að orðið „umhverfisáhrif“ rataði ekki inn í sjálfa 1. gr. laganna. Var ekki pláss fyrir það eða hvað? Ber að skilja þetta svo? Útskýringar ráðherra eru að það sé haft í umsögn um greinina, því þar er talað um „þar á meðal umhverfissjónarmið“. Það er von að menn séu nokkuð tortryggnir. Ætli tilefni sé ekki til hjá þeim sem reyna að standa vaktina í þágu umhverfis og náttúru að vera býsna hvekktir, eftir framgöngu og framferði stjórnvalda undanfarin missiri? Jú, ætli það ekki.

Varðandi Orkustofnun, sem er vel mönnuð og góð stofnun og sinnir mikilvægum verkefnum, þá held ég að vandamálið sé ekki að menn vantreysti henni eða því ágæta fólki sem þar vinnur, a.m.k. geri ég það ekki. Hafi einhverjir sagt eitthvað í þá veru í umræðunum í dag, þá tek ég ekki undir það. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um að vel fari á endanum að hrúga öllum þeim verkefnum inn á Orkustofnun sem nú er verið að setja á hana. Er Orkustofnun ekki farin að verða í ansi mörgum og sumpart mótsagnakenndum hlutverkum? Er hún ekki eiginlega farin að sitja allt í kringum borðið? Hún á að hafa eftirlit, sjá um verðlagningu og hafa kontról á allri samkeppninni í orkuframleiðslunni, síðan á hún að sinna klassísku grundvallarhlutverki sínu hvað varðar grunnrannsóknir og upplýsingaráðgjöf til stjórnvalda. Svo á hún að vera með úthlutun á rannsóknarleyfunum og leitinni og öllu því, en á svo sjálf að hafa frumkvæði að því á köflum að standa fyrir rannsóknum til hliðar. Ég er ekki viss um að þetta komi til með að ganga vel, allt saman á einu borði. Ég velti því hreinlega fyrir mér hvort ekki verði að aðskilja þarna stjórnsýslulega ýmsa þætti, jafnvel skipta þessum hlutverkum upp.

Ég held líka að eigi Orkustofnun að fá þetta gríðarlega hlutverk og hafa með höndum, þá hljóti að koma til skoðunar að henni verði kosin stjórn, hún fái stefnumótandi og ráðgefandi stjórn. Orkuráði sem þar starfar er ætlaður allt annar hlutur. Mér finnst ekki sjálfgefið að stofnun sem á að fá og hafa með höndum þetta mikilvæga hlutverk, heyri beint undir einn ráðherra sem hafi algjört alræðisvald yfir henni.

Þarna er að mínu mati ýmislegt sem þarf alveg tvímælalaust að taka til skoðunar.

Að síðustu þetta: Hæstv. ráðherra segir að oft hafi heyrst að við séum litin öfundaraugum í útlöndum vegna þess hve vel á vegi við séum stödd og komin langt með umhverfisþáttinn í orkubúskap okkar. Jú, tölurnar eru vissulega impressívar, að við fullnægjum hér tveimur þriðju orkuþarfarinnar með svokölluðum vistvænum orkugjöfum. En nú þarf heldur betur að hafa fyrirvara á, samanber það sem rætt hefur verið um umhverfisáhrif sumra virkjana. Slíkt fréttist líka út fyrir landsteinana og verður sífellt betur þekkt í löndunum í kringum okkur hvað Ísland er að gera um þessar mundir. Margir eru farnir að sjá í gegnum þann tvískinnung sem framganga íslenskra stjórnvalda markast af, bæði í sambandi við heimskautaráðið og umhverfis- og virkjanamál. Það eru ábyggilega fleiri blaða- og fréttamenn en hinn frægi hjá franska blaðinu Le Monde sem eru farnir að reka augun í að ýmislegt stangast á hjá Íslandsmönnum um þessar mundir, að auglýsa landið og selja og kynna sem hreint og ósnortið, paradís þeirra sem vilja koma og sjá fallega ósnortna náttúru, og standa svo fyrir hervirkjum af því tagi sem bygging Kárahnjúkavirkjunar er, það fer ekki beinlínis saman.