131. löggjafarþing — 47. fundur,  2. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[18:22]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mér tókst ekki að fá svör við spurningum sem ég lagði fram til ráðherrans, alla vega ekki þannig að ég skildi nógu vel. Það er í fyrsta lagi nýting eiganda á auðlindinni. Ég skil það svo að með þessu lagafrumvarpi, samkvæmt 1. gr. þess, sé verið að tala um að eigandi eigi allan nýtingarréttinn sem er undir landinu. Ég spyr því: Hvar finna menn skilgreiningu á þeim verðmætum? Hversu langt niður nær þetta? Hvað má viðkomandi gera á svæðinu? Og hvernig eiga menn að finna út úr því? Á ekki að vera nein skilgreining svipuð og í vatnalögum, t.d. hvað varðar nýtingu á hita eða orku sem er þarna í jörðinni og vatninu sem er undir landinu eða aðrar auðlindir sem hugsanlega gætu legið saman, sem ég hef svo sem ekki hugmyndaflug til að nefna hér? Mér finnst að það þurfi að liggja fyrir í hvað menn ætla að vísa úr því engin leiðsögn í er lagafrumvarpinu um þetta.

Síðan fannst mér hæstv. ráðherra ekki heldur svara skýrt þegar ég spurði hvort þeir sem nú eru á biðlistanum verða taldir með ef lögin taka gildi. Eða hvort auglýst verður, eftir að lögin taka gildi, að nú sé kominn umsóknarfrestur og þá muni allir sækja um sama daginn. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra þá að fara að? Ekki er hægt að nota „fyrstur kemur, fyrstur fær“ ef allir sækja um sama dag og lögin taka gildi. Mér finnst menn vera komnir í ógöngur með mál sem alltaf virðast vefjast fyrir stjórnvöldum, hvernig eigi að fara með verðmæti sem eru í höndum okkar sameiginlega og einkaaðilar komi til með að nýta. Það eru ýmsar aðferðir til þess, vilji menn nota þær.

Úr því ég er kominn í ræðustólinn aftur, þá langar mig til að nefna að í 12. gr. frumvarpsins er talað um eiganda auðlindar en þar segir, með leyfi forseta: „Eigandi auðlindar hefur ekki forgang að nýtingarleyfi vegna auðlindar sinnar, nema hann hafi öðlast forgangsrétt með rannsóknarleyfi.“ Annars staðar í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Orkustofnun geti látið aðra rannsaka auðlindir í eignarlandinu.

Í 36. gr. er ákvæði um eignarnám. Þar stendur að hægt sé að láta fara fram eignarnám í eignarlandi ef leyfishafi nær ekki samkomulagi um verðmæti eignarinnar við fasteignareigendurna. Þá hljóta að vakna spurningar eins og: Ef fyrst er leyft að rannsaka auðlind í eignarlandi einhvers í andstöðu við hann, og síðan fer fram eignarnám á þeirri auðlind í landinu, er það þá þannig að sá sem fær leyfi til rannsóknarinnar fái síðan áframhaldandi leyfi til nýtingarinnar, án þess að til sé nokkurt úrræði þannig að útboð geti farið fram til að meta verðmæti eignarinnar? Og út frá hvaða hugmyndum ætti þá að ákveða verðmæti eignarinnar, þegar ekki liggur fyrir hvernig meta ætti það verðmæti sem felst í að fá að nýta auðlindina?

Mér finnst að þetta atriði þurfi að rannsaka vel í nefndinni. Ég spyr hæstv. ráðherra: Úr því 1. gr. gerir ráð fyrir að taka eigi tillit til eignarréttar fasteignareiganda, hvernig er hægt að gera það með fullnægjandi hætti öðruvísi en að í lögunum séu úrræði sem geri ráð fyrir að hægt sé að finna markaðsvirði eignarinnar á markaði?