131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[10:55]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þjóðin hefur verið sammála um að standa vörð um sparisjóðina á grundvelli hugsjóna þeirra sem þeir voru byggðir á og að tryggja að þeir starfi eftir dreifðri eignaraðild, þar stýri jafningjarétturinn ferð. Vilji þingsins í þessum efnum var áréttaður í lögum á Alþingi síðasta vetur.

Átökin snúast um völd og yfirráð yfir peningum og græðgin virðist yfirleitt finna sér farveg. Samkvæmt úttekt Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu nýlega hafa um 50% stofnfjár í SPRON skipt um eigendur á skömmum tíma. Að sögn blaðsins eru kaupendur einstaklingar og fyrirtæki tengd KB-banka sem reyndi einmitt á síðasta ári að ná SPRON undir sig. Þannig á KB-banki ásamt hinum nýju kaupendum rúmlega helming stofnfjár SPRON. Kaupverðið er sjöfalt verð á stofnbréfunum og kunnugir segja að sú fjárfesting geti ekki skilað arði, annað hljóti að hanga á spýtunni, að ætlunin sé að komast yfir sparisjóðakerfið, þetta sé fórnarkostnaður til að bora sig inn í sparisjóðakerfið, ná sparisjóðunum undir sig í áföngum nema hvort tveggja sé, líka það að komast yfir það fjármagn sem samfélagið á í sparisjóðunum og á ekki að vera til ráðstöfunar fyrir einstaka stofnfjáreigendur. Svo virðist sem minnsti sparisjóður landsins, Sparisjóður Hólahrepps, og sá stærsti, SPRON, séu þarna í sömu vegferð. Með því að komast yfir einn sparisjóð, stóran eða lítinn, getur öflug fyrirtækjasamsteypa borað sig inn í sparisjóðakerfi landsins og étið það innan frá.

Herra forseti. Ég tel fyllilega ástæðu til þess að nú verði kannað hvað sé á seyði og gripið til aðgerða til að standa vörð um sparisjóðina.