131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[11:06]

Dagný Jónsdóttir (F):

Herra forseti. Sparisjóðirnir starfa nú í allt öðru umhverfi en þeir gerðu áður fyrr og það er ljóst að þeir höfðu þá ekki eins sterka viðskiptabanka sem keppinauta og verða því að fóta sig í því umhverfi.

Við vitum þó og sáum það er við fjölluðum um málefni sparisjóða síðasta vetur að framtíð þeirra er nokkuð óviss í óbreyttri mynd. Þeir verða auðvitað sjálfir að finna leiðir til að tryggja framtíð sína og vinna úr þeim lögum sem sett voru þeim til hjálpar.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talar um 5% atkvæðahámarkið. Ég tek undir með hæstv. viðskiptaráðherra og tel afar mikilvægt að tryggja að þetta hámark sé virt, einnig til að koma í veg fyrir að hægt sé að mynda gervifélög.

Varðandi Fjármálaeftirlitið er staðreyndin sú að það mun aldrei geta tryggt framtíð sparisjóðanna, og í raun getur háttvirt Alþingi það ekki heldur. Það er ekki hægt að hlaupa til í hvert skipti sem markaðurinn þróast þó að það sé mjög eðlilegt að við séum vel á verði. Við brugðumst við síðasta vetur. Við erum minnug þess að það var afar umdeilt hjá mörgum en ég er sannfærð um að við gerðum rétt.

Fjármálaeftirlitið mun ekki geta tryggt sjálfstæði sparisjóðanna en það mun að sjálfsögðu fylgjast með markaðnum líkt og það hefur gert hingað til og hefur fulla burði til. Við viljum að sjálfsögðu halda öflugu sparisjóðakerfi í landinu en hvort framtíðin verði sú að áfram verði 24 sparisjóðir í landinu veit ég ekki. Sparisjóðirnir verða að líta í eigin barm og verða að halda áfram að berjast enda er það hagur landsmanna að viðhalda starfsemi þeirra. Ég held að það sé alveg ljóst að í þessari keppni bankanna um húsnæðislánin á síðustu mánuðum hafi sparisjóðirnir svo sannarlega sannað tilvist sína, ekki síst landsbyggðinni til bjargar.