131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:19]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Magnús Stefánsson, formaður fjárlaganefndar, hefur mælt fyrir nefndaráliti meiri hlutans um afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins við 3. umr.

Eitt aðalatriðið í frumvarpinu er niðurskurður til að mæta skattalækkunum ríkisstjórnarinnar, sem hafa forgang þó að efnahagssérfræðingar hafi talið þær hið mesta glapræði miðað við þær aðstæður sem nú eru.

Það er niðurskurður í samgöngumálum. Það á að skera niður samgönguáætlun um tæpa 2 milljarða kr. á næsta ári til að mæta skattalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Það er ótækt að afgreiða fjárlög án þess að ljóst sé hvar menn hyggjast skera niður í vegaframkvæmdum á landinu. Mér finnst að Alþingi geti ekki afgreitt fjárlögin öðruvísi en að taka jafnframt afstöðu til niðurskurðarins í samgöngumálum. Alþingi ætlar að afgreiða málið með 2 milljarða kr. niðurskurði á samgönguáætlun, gildandi samgönguáætlun sem þingið hefur samþykkt.

Ég spyr formann fjárlaganefndar: Liggja ekki fyrir á borðinu tillögur meiri hlutans um niðurskurð til samgöngumála? Mér finnst að þær eigi að liggja fyrir áður en við afgreiðum fjárlög.