131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:22]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að á þessu ári er frestað framkvæmdum frá gildandi samgönguáætlun og gildandi vegáætlun um nærri 1.700 millj. kr. Á næsta ári á að skera niður framkvæmdir um tæpa 2 milljarða kr. Annað eins á að skera niður samkvæmt tillögu varðandi samgönguáætlun árið 2006. Þá á að skera niður um aðra 2 milljarða kr. Við erum að tala um nærri 6 milljarða kr. niðurskurð.

Seinkun á framkvæmdum segir hv. þingmaður um niðurskurð frá gildandi samgönguáætlun sem Alþingi hefur samþykkt og ætti í raun að vera fylgiskjal með fjárlagafrumvarpinu.

Mér finnst það rýrt svar og léleg ábyrgð meiri hlutans ef ekki liggja samtímis fyrir tillögur um hvar niðurskurðurinn á að koma niður. Það hafa verið miklar væntingar um samgöngumannvirki, átak í samgöngumálum vítt og breitt um landið, m.a. á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Þetta var eitt af kosningamálum fyrir síðustu alþingiskosningar, sérstakt fjármagn, átak til vegamála. Það átak er löngu gufað burt, fjármagnið fer ekki til þess. Það er búið að skera það niður.

Ég krefst þess að umræðu um fjárlög ljúki ekki fyrr en fyrir liggja tillögur um hvar niðurskurður í samgöngumálum á að koma niður. Ég tel það ótækt gagnvart Alþingi ef fjárlagafrumvarpið er afgreitt án þess að þær tillögur séu gerðar ljósar. Þetta er niðurskurður upp á um 2 milljarða kr. og fráleitt ef Alþingi ætlar ekki að láta til sín taka og segja til um hvar hann skuli koma niður. Þetta snertir landsmenn sem vænst hafa að ráðist skuli í samgöngumannvirki að nú skuli fjárveitingar skornar niður.