131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:24]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Framsöguræða hv. formanns fjárlaganefndar olli mér talsverðum vonbrigðum. Ég átti von á því, eftir fréttir gærdagsins þar sem Seðlabankinn birti þjóðhagsspá sína, að hv. formaður fjárlaganefndar mundi fara yfir það hvernig fjárlaganefnd yrði að taka á breyttri stöðu mála varðandi ýmsar þjóðhagsstærðir.

Ein af forsendunum í fjárlagafrumvarpinu er að gert er ráð fyrir því að Seðlabankinn hækki stýrivexti upp í 7,5% á árinu 2006, að þá muni stýrivextirnir ná hámarki sínu og hámarkið verði 7,5%. Í gær tilkynnti Seðlabankinn um hækkun á stýrivöxtum úr 7,25% í 8,25% eða um 100 punkta á einu bretti. Ég tel fulla ástæðu til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort þetta, jafnvel eitt og sér, væri ekki næg ástæða til að við veltum fyrir okkur hvort ekki þyrfti, miðað við þá miklu þenslu sem fram undan er, að skoða helstu forsendur fjárlagafrumvarpsins meðan tími gefst til þannig að hið háa Alþingi afgreiði frá sér fjárlagafrumvarp í einhverjum takti við þann raunveruleika sem nú blasir við.

Seðlabankinn hefur engin ráð í núverandi ástandi nema þau að hækka stýrivexti og mun gera það. Það kom fram í Peningamálum Seðlabankans í gær að þeir mundu gera það áfram fram í rauðan dauðann. Þeir ætli sér að halda í verðbólgumarkmið eða reyna það eins og hægt er, upp á 2,5%. Það vekur reyndar athygli og ákveðnar áhyggjur að ef við skoðum forsendur fjárlagafrumvarpsins, þar sem ráðuneytið gerir ráð fyrir 7,5% stýrivöxtum, þá dugar það ekki einu sinni til að ná verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Hefur hv. formaður fjárlaganefndar ekki neinar hugmyndir um hvernig við þyrftum að skoða þessa nýju stöðu?

Ég sé, hæstv. forseti, að það er eitthvert rugl á tímanum, eins og hann er hér. Ég er kominn talsvert fram yfir tíma minn í andsvari. Ég gæti svo sem haldið áfram en ég á inni annað andsvar þannig að ég hinkra eftir svari hv. formanns.

(Forseti (GÁS): Þetta var býsna langt andsvar.)