131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:28]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að Seðlabankinn reynir af veikum mætti að beita þeim stýritækjum sem hann hefur til að hafa áhrif á ástandið sem nú er. Það er jafnframt ljóst að hækkun stýrivaxta mun ekki hafa mikil áhrif á árinu 2005. Yfirleitt byrjar sú aðgerð ekki að virka fyrr en talsvert löngu síðar og jafnvel ekki fyrr en tveimur árum eftir að gripið hefur verið til hennar.

Ef maður veltir fyrir sér forsendum fjárlaga árið 2004 og fjáraukalögunum í framhaldi af þeim sést að nánast allar þjóðhagsstærðir, eins og fjármálaráðuneytið spáði þeim, voru rangar. Vöxtur þjóðhagsstærða var yfirleitt um það bil helmingi meiri í flestum þáttum en fjármálaráðuneytið hafði spáð. Við sjáum kannski fram á hið sama nú með spá Seðlabankans fyrir næsta ár. Það munar, t.d. í einkaneyslunni, um það bil helmingi á þeim vexti sem Seðlabankinn spáir og þeim vexti sem fjármálaráðuneytið gengur út frá í fjárlögum sínum, sem er kunnugleg tala að mörgu leyti frá árinu 2004.

Maður veltir því fyrir sér, gott væri að fá svar við því hjá hv. formanni fjárlaganefndar, hvort þetta sé meðvitað af hálfu þeirra sem fjárlagafrumvarpið setja fram, að gera það með þeim hætti. Ef svo er er í raun áætlað að tekjur verði minni en raunin verður. Ef við horfum á að einkaneyslan jókst 2% umfram það sem fjármálaráðuneytið hafði spáð á þessu ári og ef hún eykst um 4%, eins og Seðlabankinn er að spá, umfram það sem fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir þá gætum við vænst aukinna tekna í ríkissjóð upp á 20 milljarða kr. á næsta ári frá því sem fjárlög gera ráð fyrir. Það er talsvert mikil skekkja og ég endurtek spurningu mína til hv. formanns fjárlaganefndar: Hefur hann engar áhyggjur af slíkri áætlunargerð?