131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:31]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar, þ.e. fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, en auk þess er áheyrnarfulltrúi Frjálslynda flokksins, Guðjón A. Kristjánsson, samþykkur álitinu.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 kemur nú til 3. umr. Eins og á síðasta ári eru ekki við 3. umr. lagðar til neinar breytingar á frumvarpinu af hálfu meiri hlutans. Því miður er ekki hægt að túlka þetta á þann hátt að rekstrargrundvöllur allra stofnana ríkisins sé tryggður, að menntakerfið, félagsmálakerfið og heilbrigðiskerfið starfi með eðlilegum hætti á næsta ári eða að kjarasamningar á næsta ári verði í samræmi við forsendur fjárlaga. Þessir liðir eru allir meira og minna í uppnámi. Eins og fram kom hjá þingmönnum Samfylkingarinnar við 3. umr. um fjáraukalög fyrir árið 2004 er ekki rekstrargrundvöllur hjá fjölmörgum A-hluta stofnunum vegna uppsafnaðs halla. Í félagslega kerfinu bera öryrkjar og aldraðir enn skarðan hlut frá borði, hallann í heilbrigðiskerfinu á m.a. að bæta með hækkuðum þjónustugjöldum. Rekstur Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri er í skilinn eftir í óvissu, þrátt fyrir hækkun skólagjalda. Framhaldsskólar búa áfram við árlegan fjárhagsvanda. Ekki er áætlað fyrir fyrirséðri aukningu lífeyrisskuldbindinga, m.a. vegna kjarasamnings grunnskólakennara. Þannig mætti áfram telja.

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur undanfarnar vikur haldið mjög á lofti boðuðum skattalækkunum sem eiga að nema 4 milljörðum kr. á næsta ári. Hefur hæstv. fjármálaráðherra talið að nú væri verið að skila aftur þeim efnahagsbata sem ríkissjóður hefur notið á undanförnum árum. Ef horft er til þeirra skatta- og gjaldahækkana sem dunið hafa yfir á þessu ári og boðaðar eru á því næsta kemur í ljós að þessar skattalækkanir duga ekki til að mæta þeim hækkunum. Í þessu sambandi má benda á eftirfarandi:

Á þessu ári hækkaði þungaskattur og vörugjald af bensíni um 1.200 millj. kr. Vaxtabætur voru skertar um 600 millj. kr. Afnám frádráttar tryggingagjalds vegna viðbótarlífeyrissparnaðar skilaði ríkissjóði um 600 millj. kr. Framlag ríkissjóðs vegna sjúkratrygginga lækkaði um 750 millj. kr. Barnabætur voru skertar um 150 millj. kr. og komugjöld á heilbrigðisstofnanir hækkuðu um 50 millj. kr. Þá var nefskattur í Framkvæmdasjóð aldraðra hækkaður um 23 millj. kr. Þá er ótalið að persónuafsláttur fylgdi ekki launaþróun; þrátt fyrir það er upphæðin á yfirstandandi ári komin yfir 3 milljarða kr.

Herra forseti. Allar þessar auknu álögur halda áfram á næsta ári og til viðbótar hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka áfengisgjald um 340 millj. kr., hækka aukatekjur ríkissjóðs um 200 millj. kr., hækka bifreiðagjald um 120 millj. kr., hækka skólagjöld í háskólum um 140 millj. kr. og hækka komugjöld á heilbrigðisstofnanir um 50 millj. kr. Vaxtabætur verða skertar til viðbótar skerðingunni í ár um 300 millj. kr. Breytingar á þungaskatti skila aukalega 350 millj. kr. Þá mun viðbótarhækkun í Framkvæmdasjóð aldraðra verða um 24 millj. kr. Samtals er þetta komið í tæpa 5 milljarða kr. á næsta ári. Ef hins vegar bæði árin eru lögð saman er hér um að ræða rúma 8 milljarða kr. á móti boðaðri skattalækkun upp á 4 milljarða kr. Það er von að spurt sé: Er um að ræða skattahækkun eða skattalækkun? Allt þetta sjónarspil minnir á fyrri vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, fyrst er af fólkinu tekið og síðan er hluta fengsins skilað með mikilli skrautsýningu. Það er eðlilegt að fjármálaráðherra kvarti á hátíðarfundi hjá Sjálfstæðisflokknum um að skattaveisla hans hafi verið misskilin. Allt tal fjármálaráðherra um að verið sé að skila efnahagsbatanum til baka er blekking. Í árslok 2005 er ljóst að ríkissjóður hefur ,,hagnast“ um einhverja milljarða króna á öllum þessum breytingum.

Herra forseti. Síðan má auðvitað velta því fyrir sér hvert þessir peningar hafa verið sóttir, hverjir hafa þurft að borga þá peninga og hverjum er síðan skilað. Hræddur er ég um, ef það yrði rannsakað náið, að enn sé verið að fara hina sömu leið að auka hlut þeirra sem meira hafa fyrir en minnka hlut þeirra sem minna hafa.

Herra forseti. Í þjóðhagsáætlun forsætisráðuneytisins frá því í haust er fjallað um helstu atriði í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og er lögð áhersla á eftirfarandi atriði:

Að tryggja jafnvægi og stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Að viðhalda jafnvægi í fjármálum ríkisins og halda áfram umbótum í ríkisrekstri.

Að nýta aukið svigrúm ríkissjóðs til að tryggja aukinn kaupmátt þjóðarinnar með markvissum aðgerðum í skattamálum.

Að tryggja undirstöður byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu, menntunar og menningar.

Enn fremur kemur fram að stefnt er að því að auka enn útgjöld til heilbrigðismála, fræðslumála, almannatrygginga og velferðarmála. Þá er það ætlun ríkisstjórnarinnar að tryggja að nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir bitni ekki á heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu eða almannatryggingakerfinu. Einnig er það ætlun ríkisstjórnarinnar að fresta framkvæmdum og beita öðrum aðhaldsaðgerðum til að létta undir með peningastefnu Seðlabankans á næstu missirum og árum. Fögur markmið og háleit. En hvernig er raunveruleikinn, herra forseti?

Ljóst er að hæstv. fjármálaráðherra hefur með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 boðað allt aðra efnahagsstefnu en hæstv. forsætisráðherra hafði í huga þegar hann samdi þjóðhagsáætlunina. Vissulega eru boðaðar aðhaldsaðgerðir. 1% hagræðingarkrafa sem metin er á 800 millj. kr. er strax tekin til baka með nýjum útgjaldaliðum sem eru margfalt hærri. Frestun á framkvæmdum upp á 1,9 milljarða kr. er aðeins lítið brot af þeim fjárfestingum sem áætlaðar eru á næsta ári. Hins vegar virðist alltaf vera nóg til af fjármunum í ýmis gæluverkefni eins og sérsveitir hæstv. dómsmálaráðherra, sendiherrabústaði og hernaðarstefnu hæstv. utanríkisráðherra. Á sama tíma er þrengt að starfsemi frjálsra félagasamtaka á sviði mannréttindamála.

Eins og fyrri ár er ríkisstjórnin aðeins farþegi í efnahagshraðlestinni sem nú brunar nær stjórnlaust um þjóðfélagið. Seðlabankinn hefur af veikum mætti reynt að draga úr ferðinni en mátt sín lítils einn og sér. Fjármálamarkaðurinn lítur ekki lengur á fjárlög og framkvæmd þeirra sem hluta af efnahagsstjórninni og reiknar ekki lengur með þeim í sínum ákvörðunum. Fram undan eru kjarasamningar við opinbera starfsmenn og er gríðarlega mikilvægt að þar takist vel til.

Herra forseti. Í þessu samhengi er rétt að minna á að í ályktun miðstjórnar ASÍ frá 24. nóvember sl. er varað við því að verðbólga er langt umfram forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og að þær umfangsmiklu skattalækkanir sem nú eru boðaðar auki enn á hagstjórnarvandann og geta leitt til vaxandi verðbólgu á næstu missirum. Þá bendir ASÍ á að samtökin hafi ítrekað kallað eftir samstarfi við stjórnvöld um mótun samþættrar stefnu í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum en stjórnvöld hafa ekki sýnt vilja til slíks samráðs. ASÍ mun því þurfa, í samráði við aðildarfélög sín, að endurskoða samskiptin. Þessi niðurstaða ASÍ er mikið áhyggjuefni því síðast þegar ríkisstjórnin missti tökin á verðbólgunni lék ASÍ mikilvægt hlutverk við að ná aftur tökum á efnahagslífinu og tryggja stöðugleika á ný. Í þessu ljósi ber að taka aðvaranir ASÍ mjög alvarlega.

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram gaf Seðlabanki Íslands út í gær endurskoðaða þjóðhagsspá fyrir næsta ár. Samkvæmt henni eru flestar efnahagsforsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2005 brostnar. Í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar er birt tafla sem sýnir það svart á hvítu hverju þarna skeikar og mun ég fara yfir þá þætti. Fyrst er tilnefnd einkaneysla. Í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að hún muni aukast um 5%. Seðlabankinn spáir að hún muni aukast um 9,5% eða 4,5% fram yfir forsendur fjárlaga, þ.e. nær 50% meira en gert er ráð fyrir. Gert er ráð fyrir að samneyslan aukist um 2% í forsendum fjárlaga og hér í umræðunni hefur það komið mjög skýrt fram að það sé alger nauðsyn að samneyslunni sé haldið innan þeirra marka. Nú spáir Seðlabankinn því að samneyslan verði 3,10%, þ.e. 1,10% meira en gert er ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Þetta ætti að vera aðvörunarmerki, a.m.k. einhverjum.

Í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að fjárfesting aukist um 18% en Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hún muni aukast um 20,6%, þ.e. 2,6% meira. Gert er ráð fyrir að þjóðarútgjöldin alls muni aukast um 7,5% en Seðlabankinn gerir ráð fyrir 10,9% eða 3,4% meira. Gert var ráð fyrir að útflutningur vöru og þjónustu mundi aukast um 4% en í spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að hann muni aukast um 5,7%, þ.e. mismunur upp á 1,7%. Í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir að innflutningur vöru og þjónustu mundi aukast um 10,5% en Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hann muni aukast miklum mun meira eða um 17,2%, þ.e. 6,7% meira en forsendur fjárlaga gera ráð fyrir. Í forsendum fjárlaga er gert ráð fyrir að verg landsframleiðsla aukist um 5%, Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hún muni aukast um 6,1% eða 1,10% meira. Gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga að hallinn á viðskiptajöfnuði mundi verða um 11% af landsframleiðslu, en gert er ráð fyrir að hann verði örlítið minni í spá Seðlabankans eða -10,4% eða bæting um 0,6%.

Herra forseti. Seðlabankinn vekur athygli á í endurskoðaðri þjóðhagsspá að frá því í september hafi orðið töluverðar breytingar á verðbólguhorfum, en það er rétt að minna á að forsendur fjárlaga byggjast einmitt á því hvernig menn töldu þær vera í septembermánuði. Flest bendi nú til þess, að mati Seðlabankans, að innlend eftirspurn muni aukast hraðar en þá var talið líklegt. Þá bendir hann á að loks hafi áform um lækkun skatta verið staðfest, án þess að nákvæmlega hafi verið skilgreint hvar skuli skera niður útgjöld. Því telur Seðlabankinn að verulegar líkur séu á því að aðhald í opinberum fjármálum verði ófullnægjandi. Allt þetta ýtir undir meiri þenslu.

Lækkun skatta mun auka enn ráðstöfunartekjur almennings og hvetja til aukinnar einkaneyslu. Því telur Seðlabankinn aðhald í útgjöldum hins opinbera brýnt og telur að áform þar um í fjárlögum séu nokkuð metnaðarfull. Hins vegar bendir bankinn á að í ljósi þeirra umsvifa sem fram undan eru verður aðhaldið þó ekki fullnægjandi, jafnvel þótt áformin næðu fram að ganga. Boðað aðhald er að auki almennt orðað, segir Seðlabankinn, og því hætta á framúrkeyrslu í ljósi sögulegrar reynslu.

Þessi vísan Seðlabankans í sögulega reynslu er í raun það sama og þingmenn Samfylkingarinnar hafa verið að benda á í umræðum um efnahagsmál síðustu mánuði. Agaleysið í ríkisfjármálum er ein helsta hættan varðandi verðbólguhorfur og stöðugleikann.

Herra forseti. Það hafa auðvitað borist viðbrögð við þessari skýrslu og ákvörðun Seðlabankans um að hækka stýrivexti sem aldrei fyrr. Hæstv. fjármálaráðherra tekur ekki mikið af þessu til sín og reynir að gera sem allra minnst úr þeim aðvörunarorðum sem fram koma hjá Seðlabankanum og í Morgunblaðinu í dag er haft eftir hæstv. ráðherra:

„Tekur hann fram að athugasemdir Seðlabankans í nýjustu útgáfu Peningamála um aðhald í ríkisfjármálum feli ekki í sér gagnrýni á stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi skattalækkanir.“

Herra forseti. Í öðru blaði í dag liggur mér við að segja að Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri svari því að í blaðinu er haft eftir seðlabankastjóra og í fréttinni segir, með leyfi forseta:

„Birgir Ísleifur sagði einnig að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar hefðu áhrif.“

Síðan er vitnað orðrétt í Birgi Ísleif Gunnarsson, bankastjóra Seðlabankans, með leyfi forseta:

„Það verður að telja verulegar líkur á því að aðhald í opinberum fjármálum verði ófullnægjandi,“ segir hann.

Þarna er þetta tengt beint saman við það að ríkisstjórnin haldi ekki rétt á málum og það er sérkennilegt að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki taka hið minnsta mark á þessum aðvörunum. Það kemur okkur að sjálfsögðu ekki á óvart í þessum þingsal því að það er búið nú um nokkurra mánaða skeið að reyna að benda hæstv. ráðherra á þessa sömu hluti. En viðbrögðin hafa ætíð verið þau sömu.

Síðan held ég áfram með frétt Morgunblaðsins. Þar gengur hæstv. ráðherra enn sömu leið því þar er vitnað til þess að í riti Seðlabankans segi að aðhald í opinberum fjármálum verði ófullnægjandi eins og bankastjórinn segir í öðru dagblaði í dag. Um þetta segir hæstv. fjármálaráðherra og blaðið hefur það eftir í fréttinni, með leyfi forseta:

„Um þetta segir Geir að ekki sé víst að Seðlabankinn og ríkisstjórnin séu sammála um túlkun á hugtakinu „ófullnægjandi“.“

Það er nefnilega það. Það er líklega meginskýringin. Auðvitað er hægt að skýra hugtakið ófullnægjandi á marga vegu. En ég hugsa að hæstv. fjármálaráðherra hafi kannski hitt naglann á höfuðið. Það sem Seðlabankinn og nær allir aðrir segja að sé ófullnægjandi telur ríkisstjórnin nefnilega fullnægjandi. Þetta er vandamálið í hnotskurn, að ríkisstjórnin virðist áfram ætla að ganga hinn sama veg í sjálfsánægjunni um að allt sé best hjá sér og ekkert megi betur gera.

Síðan kemur afar sérkennilegt orðalag hjá hæstv. ráðherra í þessari sömu frétt og virðist þar vera gefið í skyn hver sé helsti vandinn í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þar er vitnað orðrétt í hæstv. ráðherra. Þar segir hæstv. ráðherra meðal annars, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir miklar kröfur um útgjöld af hálfu stjórnarandstöðunnar og fleiri held ég að það aðhald sem við erum að reyna að ná fram sé fullnægjandi.“

Þarna er vandinn stóri. Við höfum orðið vör við það á undanförnum árum að gífurlega mikið mark hefur verið tekið á tillögum stjórnarandstöðunnar. Er nú líklegt að allt í einu verði samþykktar sérstakar útgjaldatillögur frá stjórnarandstöðunni?

Það er hins vegar rétt að vekja athygli á því að undanfarin ár hafa tillögur Samfylkingar við fjárlagaafgreiðslu verið með þeim hætti að ætíð hefur verið gert ráð fyrir því að afgangur af ríkissjóði væri meiri en í tillögum meiri hlutans. Þrátt fyrir að útgjaldatillögur hafi verið líka þá hefur þeim verið mætt. Því er ekki hægt að hafa hugtakið stjórnarandstaða hér um Samfylkinguna a.m.k. Þess vegna verður að biðja hæstv. fjármálaráðherra að vanda orðalag sitt betur næst þegar hann fer í blaðaviðtöl.

Seðlabankinn kemur víða við og hægt væri að taka nokkrar tilvitnanir í viðbót til að sýna fram á aðvörunarorð bankans. Í því samhengi ætla ég samt sem áður að láta duga að líta aðeins á töflu eina sem birt er á blaðsíðu 37 í riti Seðlabankans. Það er tafla 6 sem heitir Helstu ósamhverfir óvissuþættir verðbólguspár. Þar er m.a. fjallað um hvað séu miklir óvissuþættir sem gætu því er verr og miður leitt hugsanlega til hærri verðbólgu. Ég held að nauðsynlegt sé, herra forseti, að fara yfir hluta þessarar töflu.

Óvissuþættirnir eru hér nefndir fimm og aðeins einn þeirra getur hugsanlega verið vanmetinn í þá átt að verðbólga gæti lækkað.

Fyrsti þátturinn sem nefndur er er einkaneyslan og skýringin sem gefin er á þeim þætti er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Áhrif breytinga á lánamarkaði í formi lægri langtímavaxta og aukins aðgengis að lánsfé og möguleg auðsáhrif á einkaneyslu geta verið vanmetin“.

Hvaða áhrif hefði það á verðbólgu? Í töflunni segir, með leyfi forseta:

„Hætta á að eftirspurnarþrýstingur sé vanmetinn og verðbólgu því vanspáð“.

Næsti liður er gengisþróun. Þar segir í skýringu, með leyfi forseta:

„Mikill viðskiptahalli og væntingar um aukna verðbólgu næstu árin geta þrýst niður gengi krónunnar“.

Og áhrif á verðbólgu samkvæmt Seðlabankanum, með leyfi forseta:

„Hætta á að gengi krónunnar lækki og verðbólgu því vanspáð“.

Þriðji liður, launaþróun. Þar segir í skýringu, með leyfi forseta:

„Möguleiki á að slæmar verðbólguhorfur og útkoma annarra kjarasamninga setji launalið almennra kjarasamninga í uppnám“.

Hvaða afleiðingar gæti það haft á verðbólgu? Þar segir, með leyfi forseta:

„Hætta á að launahækkanir verði meiri en spáð er og verðbólgu því vanspáð“.

Fjórði liðurinn, ríkisfjármál. Hann ætti a.m.k. að koma hæstv. fjármálaráðherra við. Þar segir í skýringu, með leyfi forseta:

„Möguleiki á að aðhald í ríkisfjármálum verði minna en gert er ráð fyrir í áætlunum.

Möguleiki á að áhrif skattalækkunaráætlana á væntingar um framtíðartekjur séu vanmetnar og að eftirspurnaráhrif áforma verði því meiri“.

Og áhrif á verðbólgu samkvæmt Seðlabanka, með leyfi forseta:

„Hætta á að eftirspurnarþensla verði meiri í hagkerfinu en spáð er og verðbólgu því vanspáð“.

Herra forseti. Ég vil að sjálfsögðu gæta jafnræðis þegar ég vitna í gögn Seðlabankans. Eins og ég sagði áðan getur einn liður af þessum fimm sem Seðlabankinn telur að hugsanlega geti haft áhrif ef vanáætlunin er til staðar, lækkað verðbólgu. Það er eignarverð og þar segir í skýringu, með leyfi forseta:

„Möguleiki á lækkun eignaverðs sem dragi úr einkaneyslu þegar líða tekur á spátímabilið“.

Þeir telja hugsanlegt að fasteignaverð — það sé fyrst og fremst verið að tala um það — sé orðið of hátt og geti hugsanlega lækkað þegar líður á tímabilið. Og hvaða áhrif gæti það haft á verðbólgu? Þar segir, með leyfi forseta:

„Hætta á að eftirspurnarþensla verði minni í hagkerfinu en spáð er og verðbólgu því ofspáð“.

Þarna er því staðan 4:1. Ég hefði nú talið eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra hefði í viðbrögðum sínum í dagblöðum dagsins sýnt að ýmislegt væri að varast og að hugsanlega mætti eitthvað bæta. En það varð ekki af þeirri einföldu ástæðu að áfram skal haldið í þeirri trú að hjá oss sé allt best og ekkert megi betur fara.

Herra forseti. Það er líklega að bera í bakkafullan lækinn að fara enn einu sinni að minnast á fjárhagsstöðu tiltekinna A-hluta stofnana en hjá því verður ekki komist. Listinn sem fjármálaráðuneytið lagði fram fyrir 3. umr. um fjáraukalög fyrir árið 2004 sýnir svo ekki verður um villst að fjármálastjórn hins opinbera er afar slök. Hjá stærstu ráðuneytum, og þeim mikilvægustu í fjárhagslegu tilliti, virðist fjármálastjórnin ekki standast þær kröfur sem gera verður. Það er skýlaust brot á fjárreiðulögunum að taka ekki á vanda stofnana í fjárlögum næsta árs.

Hæstv. fjármálaráðherra verður að gera sér grein fyrir því að þessi vandi hverfur ekki með því að tala ekki um hann og láta sem hann sé ekki til. Vandinn heldur aðeins áfram að stækka og verða erfiðari viðfangs. Benda má á að ekki var tekið á vanda framhaldsskólanna svo árum skipti og þegar loks var gerð tilraun til lausnar kostaði það 1 milljarð kr. en þó án þess að vandinn væri að fullu leystur.

Herra forseti. Þrátt fyrir fréttir af undirritun menntamálaráðherra á samningi um sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík hefur ekkert verið minnst á þessa sameiningu í fjárlagaferlinu. Samkvæmt fréttum er þó gert ráð fyrir að sameinaður skóli eigi að hefja störf næsta haust. Hvernig hægt er að komast hjá því að slík sameining komi við sögu í fjárlögum næsta árs er með miklum ólíkindum. Það er þó í anda vinnubragða ríkisstjórnarinnar því að Alþingi hefur í engu verið gerð grein fyrir hvernig sameiningin eigi að fara fram, þar til loks í gær að lagt var fram frumvarp um málið.

Fréttir herma hins vegar að samningurinn feli m.a. í sér að akademískt frelsi starfsfólks og áhrif þess á stjórnun og stefnumótun sé ekki tryggt. En grundavallaratriði í öllu háskólastarfi er akademískt, stjórnunarlegt og fjárhagslegt frelsi, í þessari röð. Rekstrarfélag hins nýja skóla er í hlutafélagaformi, sem er efnahagslegur félagsskapur, en slík félög eru í eðli sínu fyrirbrigði sem ætlað er að afla eigendum sínum arðs. Í þessu tilfelli mun þó ekki ætlunin að greiða slíkan arð út, a.m.k. ekki fyrst um sinn. Slíkur einkarekstur á háskólum þekkist vart í hinum vestræna heimi utan örfárra dæma vestan hafs. Ef háskólar eru ekki reknir af ríkinu eða opinberum aðilum eru þeir yfirleitt sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar með hagnaði, samanber t.d. flesta ef ekki alla bestu háskóla Bandaríkjanna.

Til viðbótar bendir margt til þess að ekki sé í raun um að ræða eiginlega sameiningu heldur sé ríkið í raun að gefa rekstraraðilum Háskólans í Reykjavík Tækniháskólann. Eignir Tækniháskóla Íslands og viðskiptavild virðast í engu metnar inn í hið nýja hlutafélag og Háskólinn í Reykjavík mun eiga 270 millj. kr. af 300 millj. kr. hlutafé. Afgangur hlutafjárins kemur síðan frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins. Þessi sérkennilega gjörð kallar á þá spurningu hvort búast megi við fleiri slíkum sameiningum. Verður t.d. Viðskiptaháskólanum á Bifröst gefinn Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri? Hver veit hvað þessu ágæta fólki dettur í hug?

Herra forseti. Þá er ósvarað hvernig farið verður með þann rekstrarhalla sem safnast hefur upp hjá Tækniháskólanum. Að vísu sé ég það í frumvarpi sem dreift var í gær að komin er lausn á þeim vanda, þ.e. ríkissjóður virðist ætla að taka þann vanda á sig því að í fylgiskjali með frumvarpinu, sem er mat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á kostnaði, er stærsti hluti þess kostnaðar sem áætlaður er talinn vera vegna þess halla sem safnast hefur upp hjá Tækniháskóla Íslands. Það er því líka heimanmundur í sameiningunni svokallaðri. Það er ekki bara að það eigi að gefa hann heldur á líka að borga með honum.

Herra forseti. Þetta mál verður að sjálfsögðu miklu betur rætt þegar frumvarpið um Tækniháskóla Íslands verður til umræðu. En í þessu samhengi er rétt að rifja upp að á fjáraukalögum áranna 2002 og 2003 var gerður upp halli Tækniskóla Íslands, forvera Tækniháskólans. Það voru samtals 235 millj. kr. Enn á ný virðist eiga að mæta þessum vanda en nú á þann hátt að skólinn skal gefinn, settur í rekstrarform sem við þekkjum ekki á háskólastigi og það verður ekki látið duga heldur greitt með króganum þannig að þeir sem við taka verði þá væntanlega nægjanlega ánægðir.

Herra forseti. Við 3. umr. um fjárlög fyrir árið 2005 leggur Samfylkingin fram breytingartillögur við frumvarpið sem miða að því að jafna áhrif skattalækkana þannig að þær nýtist efnaminna fólki betur en gert er ráð fyrir í tillögum ríkisstjórnarinnar. Þessar tillögur eru lagðar fram með ýmsum aðilum úr stjórnarandstöðunni, bæði Frjálslynda flokknum og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Nánar verður gert grein fyrir því síðar í umræðunni. Auk þess eru lagðar fram tillögur sem miða að sparnaði í ríkisrekstrinum og breyttum áherslum í skiptingu ríkisútgjalda. Gerð er tillaga um að staðið verði við samning við Öryrkjabandalagið og stjórnarliðum þannig enn á ný gefið tækifæri til að standa við loforð sem gefið var fyrir síðustu alþingiskosningar. Þá er gerð tillaga um að halda þeirri skipan sem verið hefur varðandi stöðu Mannréttindaskrifstofu Íslands á fjárlögum. Heildaráhrif tillagnanna bæta stöðu ríkissjóðs. Auk þess er gerð tillaga um að fresta yfirfærslu 5 milljarða kr. af uppsöfnuðum fjárlagaheimildum stofnana sem voru um 16 milljarðar kr. í árslok 2003. Eins og ég sagði áðan verður nánar gerð grein fyrir tillögunum síðar í þessari umræðu.

Herra forseti. Að mati 1. minni hluta þarf fjárlaganefnd m.a. að móta stefnu varðandi þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar við umfjöllun um frumvörp til fjárlaga og fjáraukalaga. Auk þessa þarf nefndin að fylgjast betur með framkvæmd fjárlaga innan ársins og krefja bæði viðkomandi fagráðuneyti og aðra eftirlitsaðila skýrslna um framkvæmd fjárlaganna. Þetta er í samræmi við reglugerð um framkvæmd fjárlaga, en samkvæmt 9. gr. reglugerðarinnar ber fjármálaráðuneytinu ársþriðjungslega að taka saman yfirlit um framkvæmd fjárlaga og gera ríkisstjórn og fjárlaganefnd grein fyrir niðurstöðunum. Því miður hefur þessari grein reglugerðarinnar ekki verið fylgt eftir en vonandi skilar sú mikla umræða sem átt hefur sér stað um verklag þeim árangri á næsta ári að yfirlit um framkvæmd fjárlaga berist fjárlaganefnd reglulega.

Herra forseti. Strax við 1. umr. var ljóst að fjárlög fyrir árið 2005 voru andvana fædd. Þess vegna verður þeirra minnst á þann hátt í fjáraukalögum næsta árs og með lokafjárlögum sama árs verða þau endanlega horfin. Það er ábyrgðarhluti af hálfu Alþingis að samþykkja það frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2005 sem hér er til umræðu. Það felur í sér að ýmsar mikilvægar stofnanir þurfa að skerða verulega þá þjónustu sem Alþingi hefur ákveðið í lögum að landsmenn skuli njóta. Nær þessi skerðing til heilbrigðismála, menntamála og félagsmála eða þeirra málaflokka sem eru mikilvægastir fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu.

Þá hefur Seðlabankinn staðfest að fjárlögin munu ekki duga sem aðhald í efnahagsmálum og jafnvel auka hættu á vaxandi verðbólgu. Það sem fram kom í áliti 1. minni hluta við 2. umr. stendur allt óhaggað þar sem engar breytingar koma nú fram hjá meiri hluta fjárlaganefndar og er vísað til þess álits til viðbótar því sem fram kemur í þessu framhaldsnefndaráliti.

Herra forseti. Guðjón Arnar Kristjánsson áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd er sammála því nefndaráliti sem ég hef nú gert grein fyrir, en undir það rita auk mín hv. þingmenn Anna Kristín Gunnarsdóttir, Helgi Hjörvar og Jón Gunnarsson.