131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:12]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það ber að virða það við hv. þm. að hann hefur verið alinn upp í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar virðast önnur vinnubrögð viðhöfð en hjá okkur. Hins vegar er sjálfsagt að fara enn einu sinni yfir þetta fyrir hv. þingmann ef hann hefur ekki áttað sig á því. Ég nefndi aldrei kreppu í ræðu minni heldur fór ég fyrst og fremst með varnaðarorð vegna þess að það er hætta fram undan, hætta á að menn missi tökin í efnahagsmálum og verðbólga fari af stað.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég skil ekki alveg viðbrögð hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem virðast ekki vilja taka þátt í að viðhalda stöðugleikanum. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvað hefur breyst. Ég hélt að það væri sameiginlegt áhugamál okkar, að reyna að tryggja það. Þegar aðvörunarorð koma, m.a. frá Alþýðusambandi Íslands og Seðlabanka Íslands, þá hljótum við auðvitað að taka mark á þeim og velta því fyrir okkur hvort það megi ekki bæta eitthvað. En nú virðist það boðað að hér skuli allt vera svo gott, fínt og flott að ekkert geti betur farið.

Ég get glatt hv. þingmann með því að segja að ég telji að náðst hafi árangur í efnahagsmálum á undanförnum árum. Í ræðu minni kom ég m.a. inn á að þegar sú ríkisstjórn sem nú situr var búin að missa tökin á efnahagsmálum 1999–2000 komu aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusamband Íslands lék þar stórt hlutverk, að málum og hjálpuðu ríkisstjórninni við að ná aftur tökum á ástandinu. Ég held að það hafi bjargað því sem bjargað varð þá. Þess vegna fór ég m.a. yfir það í ræðu minni að það væri sérstakt áhyggjuefni að Alþýðusambandi Íslands hefði sent frá sér ályktun þar sem fram kemur að Alþýðusambandið sé ítrekað búið að reyna að ná sambandi við stjórnvöld með ósk um að menn setjist niður og fari sameiginlega yfir þessi mál til að viðhalda stöðugleikanum. Ályktun Alþýðusambandsins endar hins vegar á því að nú verði væntanlega að endurskoða allt þetta. Þeir velta því fyrir sér hvort slíku samstarfi verði slitið. Ég tel það mikið hættumerki. Það er lykilatriði að þessir aðilar nái saman ef við ætlum að viðhalda þeim stöðugleika sem ég hélt að væri sameiginlegt áhugamál okkar.