131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:17]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þingmaður lesi svör mín til hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Það er auðvitað sama línan í þessu öllu saman og ég ætla ekki að fara að endurtaka það einu sinni enn. En þar sem hv. þingmaður er afskaplega viðkvæmur fyrir því að hverri spurningu sé svarað með tölustaf skal ég reyna að gera það í réttri töluröð.

Spurning númer tvö var varðandi skuldir heimilanna, ef ég hef skráð það rétt hjá mér, og hvernig menn ættu að ná þeim niður. Ég held að hann hafi síðan tengt það skattalækkunarfrumvarpinu og það átti síðan að skila því að auðveldara væri fyrir fólk að greiða skuldir sínar. Það tengir hv. þingmaður líklega því að annað árið í röð er verið að skerða vaxtabætur og það auðveldar líklega fólki að borga skuldir heimilanna. Það getur vel verið að ef þessi skattalækkun gengur eftir og hefur ekki þau áhrif sem ýmsir óttast að það geti auðveldað einhverjum að borga skuldir en við höfum margoft bent á það í umræðunum að það væri vænlegra að skipta eða dreifa þessum skattalækkunum á allt annan hátt til þess að tryggja að skuldsettustu heimilin fái þá kannski meira til að auðvelda sér að borga skuldir. En aðalhættan er, og enn einu sinni kem ég að því sama máli sem hv. þingmaður virðist ekki hafa áhuga á og engar áhyggjur af, að ef verðbólgan fer úr böndum verður hún fyrst og fremst það sem gerir heimilunum erfitt að greiða skuldir sínar. Við skulum ekki gleyma því að þegar ríkisstjórnin missti tökin á þessu síðast var verðbólgan komin upp undir 9% og ætli skuldir heimilanna hafi ekki vaxið töluvert mikið við það. Í því ljósi er líka eðlilegt að við veltum fyrir okkur því sem Seðlabankinn bendir á varðandi það að nú sé minna aðhald en var á árinu 1999–2000 sem var aðdragandinn að því að menn misstu tökin á verðbólgunni. Og þegar hv. þingmaður virðist trúa því sjálfur að aðvaranir okkar hafi aldrei ræst þá gerðist það því miður þarna, en auðvitað vonum við að það gerist ekki.

En misskilningur hv. þingmanns um að ég hafi kallað það skattahækkun sem greitt var niður af tryggingagjaldi til þess að koma með … (Gripið fram í.) Það er rangt, hv. þingmaður, og ég skal fara yfir það með þér í kaffistofunni vegna þess að tími minn er búinn.