131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[13:48]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum árum var sagt: Farið að okkar ráðum við nýtingu á veiðistofnum innfjarða og þið munuð búa að þeirri gullkistu um áratugi. Treystið þeirri vísindalegu ráðgjöf sem gefin er og afkoma ykkar og byggðanna verður tryggð. Þessi orð fóru oft á milli manna í rökræðum um veiðar úr innfjarðastofnum eins og rækju og hörpuskel. Hafrannsóknarmönnum var tamt að halda því fram að með því að fara eingöngu eftir veiðiráðgjöf byggju menn að því um alla framtíð að veiða innfjarða.

Sömu viðhorf voru uppi þegar kvótakerfið var tekið upp og veiðarnar voru skertar. Þá var litið til verðmæta þess afla sem tekinn var úr sjó og hann uppreiknaður. Ætli eitt kíló af rækju hafi ekki þá verið eins og þrjú kíló af þorski í dag, eitthvað nálægt því? Menn fengu auðvitað skerðingu í samræmi við hlutfall verðmætanna, voru skertir fyrir sérveiði sína. Hið sama gilti með skelina.

Núna búa sjómenn við það að vísindaleg ráðgjöf hefur að þessu leyti ekki staðist og að breytur eins og sjávarhiti hafa allt önnur áhrif en menn gerðu ráð fyrir, að því er varðar innfjarðaveiði, einkanlega varðandi rækjuna þó að annað eigi við um hörpuskelina.

Því verður ekki á móti mælt að það verður að líta sérstaklega til hagsmuna þess fólks sem hefur haft atvinnu af þessu áratugum saman og hefur auðvitað tekið á sig skerðingu samfara verðfalli og öðru á undanförnum árum. Menn hafa jafnvel reynt aðrar leiðir eins og kræklingaeldi, t.d. í Arnarfirði. En menn hafa núna orðið fyrir sérstökum skaða þar án bóta. Ég tel að það verði að gilda sama regla fyrir alla, að þessar veiðar verði bættar og það sé ekki hægt að mismuna mönnum að því leyti. Það verður að líta til upphafsins þegar heimildir voru skertar.