131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[13:58]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál upp. Rækja og hörpudiskur hafa haft gríðarlega staðbundna þýðingu fyrir byggðarlögin, ekki hvað síst við Breiðafjörð og norður um Vestfirði en einnig austur um Norðurland. Hrun stofnanna og uppnámið sem veiðarnar hafa komist í hefur mikil áhrif á atvinnulífið á viðkomandi svæðum.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram, að Hafrannsóknastofnun og rannsóknaraðilar hafa verið gagnrýndir fyrir slælega vöktun og árangur í rannsóknum á þessum sviðum. Ég minnist þess að við Breiðafjörð voru venjulegir sjómenn farnir að óttast verulega umgengnina um auðlindina. Það var stöðugt verið að finna upp ný og öflugri tæki til að skafa upp skelina. Hvort það hefur haft raunveruleg áhrif veit ég ekki. Engu að síður voru áhyggjur heimamanna löngu komnar fram áður en vísindaleg ráðgjöf fór að taka tillit til þeirra eða vara við.

Við sjáum nú fram á að eitthvað verður að koma í staðinn, eitthvert atvinnulíf og verkefni, og þá er náttúrlega nærtækast að horfa til annarra auðlinda í sjónum. Hér var nefnd aukning á þorski og ýsu á sömu miðum. En þá erum við bundin í svo vitlaust kvótakerfi að fólkið sem býr við hliðina á þessari auðlind má ekki nýta sér hana, það afsalaði sér á sínum tíma þorskveiðiheimildum til að fá heimildir í hörpudisk.

Núna hljótum við að krefjast þess að byggðirnar við Breiðafjörð, á Vestfjörðum og annars staðar þar sem mann hafa mátt horfa á eftir auðlindinni hverfa fái til baka þær fiskveiðiheimildir sem þær áttu og þær verði bundnar byggðunum, íbúunum á viðkomandi svæðum, til varanlegs öryggis og atvinnuuppbyggingar. Það hlýtur að vera krafa okkar í dag.