131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[14:00]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst að þessi mjög svo gagnlega umræða sem fram fer í dag eigi að snúast um orsakir, afleiðingar og svo aðgerðir. Við sjáum að hörpudisks- og rækjustofnar allt í kringum landið hafa hrunið á undanförnum missirum. Náttúran hefur eflaust mjög mikið að segja hér og hækkandi hitastig allt í kringum landið hefur gert það að verkum að hörpudiskurinn á erfitt uppdráttar víða. Kadmínmengun í Arnarfirði hefur slegið út hörpudiskinn þar, þungmálmurinn. Fyrir Norðurlandi hafa rækjustofnar horfið, einnig í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði. Ýsan hefur breytt mjög um útbreiðslumynstur og finnst núna víða fyrir Norðurlandi og inni á fjörðum fyrir vestan og það er enginn vafi á því að ýsan á hér verulegan hlut að máli. Hún er botnlæg tegund og étur upp rækjuseiðin þannig að nýliðunin í rækjustofninum hrynur.

Ég hef oft lýst því yfir að ég sakna þess að ekki sé meira hugsað um vistfræði þegar fiskveiðistjórn er annars vegar hér á Íslandi. Við þurfum að fara að gera það í miklu meira mæli en nú er gert. Við þurfum að fara að taka tillit til næringarkeðjunnar í hafinu og við þurfum að auka skilning okkar á henni því að þar liggur svarið.

Loðnan. Við gerðum mjög alvarleg mistök fyrir nokkrum árum með því að draga ekki markvisst úr loðnuveiðum. Við áttum að gera það um leið og kolmunnaveiðar jukust, einmitt vegna þess að loðnan er mjög mikilvæg sem fæðutegund fyrir grunnslóðina allt í kringum Ísland. Hún er eins og áburðardreifari sem keyrður er yfir tún á vorin. Við höfum gengið allt of nærri loðnustofninum á undanförnum missirum.

Nú berast þær fréttir frá Noregi að stærsti síldarárgangur sem nokkurn tíma hefur mælst frá því að mælingar hófust, árið 1950, er fundinn í Barentshafi og það mun sennilega leiða til þess að síldveiðar munu aukast stórkostlega á næstu árum, á norsk-íslenskri síld, og við stöndum mjög sennilega frammi fyrir því með hækkandi hitastigi að útbreiðslumynstur síldarinnar breytist og jafnvel er fyrir höndum nýtt síldarævintýri fyrir Austfjörðum og Norðurlandi. Þetta eru mjög góðar fréttir.

Ég vil nota tækifærið og hvetja hæstv. sjávarútvegsráðherra til þess að draga úr loðnuveiðum og gefa síðan þeim mönnum sem hafa orðið fyrir tjóni vegna hruns á rækju og hörpudiski lausan tauminn, leyfa þessu fólki að veiða. Um það snýst þetta.