131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:00]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar við fjöllum um fjárlagagerðina þá höfum við heildarmyndina í huga og það er eins að þessu sinni. Ég held að varla nokkur mæli því í mót að við verðum að gæta okkar í efnahagsmálunum um þessar mundir þannig að efnahagskerfið ofhitni ekki vegna mikilla framkvæmda.

Það er hins vegar alltaf matsatriði hvaða framkvæmdir hafa meiri áhrif en aðrar. En við erum hérna að fjalla um hversu mikla fjármuni við ætlum að setja í opinberar framkvæmdir og upp á hvern einasta dag held ég að við fáum leiðbeiningar um það frá aðilum í bankakerfinu og víðar að nauðsynlegt sé að hægja á opinberum framkvæmdum núna þegar svo miklar framkvæmdir eru á sviði orkufreks iðnaðar. (Gripið fram í.)

Ég held að erfitt sé að meta það út af fyrir sig hvort vinna við jarðgöng hefur meiri áhrif á þenslu en aðrar framkvæmdir. En á það er að líta að verktakamarkaðurinn nær um allt land þannig að framkvæmdir fyrir norðan hafa jafnmikil áhrif og framkvæmdir fyrir sunnan ef á það er litið. Verktakar fara um allt land þannig að við getum ekki stýrt áhrifum ríkisútgjalda með staðsetningu framkvæmda.

Aðalatriðið er að við höfum tekið ákvörðun um að draga úr opinberum framkvæmdum og um það snýst málið. Þegar Alþingi hefur samþykkt fjárlög kemur að því að við afgreiðum samgönguáætlun og leggjum línur um hvaða framkvæmdir við ætlum að fara í á næstu fjórum árum.