131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:07]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun taka þessa umræðu við hv. þingmann um Tækniháskólann þegar þar að kemur. Það er allt í lagi svo sem að ræða það og ræða fjárlögin almennt. En ég ætlaði ekki að lengja þá orðræðu hér. Ég hef sagt það áður að þetta eru glæsileg fjárlög með miklum afgangi, yfir 10 milljarða, og skattalækkunum sem stjórnarandstaðan er alveg gífurlega mikið á móti þótt hún hafi lofað þeim fyrir kosningarnar eins og Samfylkingin.

En umræðuefnið er heiðurslaun listamanna. Við í menntamálanefnd erum stolt af því að hafa fjölgað þar plássum um heil sex á tveimur árum. Annars mun ég eiga orðastað við hv. þingmann seinna um Tækniháskóla Íslands.