131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:08]

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt til þess að vita að menn fara hér í andsvör við mig áður en ég hef mál mitt. Það veit á gott. (Gripið fram í: Þú ert aðalmaðurinn.)

Virðulegi forseti. Við erum nú að ljúka þessari 3. umræðu fjárlaga fyrir árið 2005. Flestir hlutir hafa verið ræddir þó að kannski aldrei verði öll kurl komin til grafar.

Stjórnarandstaðan hefur haldið fram dálítið einkennilegum málflutningi sem er vert að skoða aðeins. Hún hefur viljað meina að á yfirstandandi ári, því ári sem nú er að ljúka, standi ekki steinn yfir steini í þessum fjárlögum sem við höfum farið eftir á þessu almanaksári.

Sannleikurinn er sá, virðulegi forseti, að það sem hefur farið úrskeiðis, ef úrskeiðis skyldi kalla, er að hagvöxtur á þessu ári í landinu hefur verið miklum mun meiri en menn gerðu ráð fyrir. Almennt og alls staðar í heiminum hélt ég að það væri fagnaðarefni og svo veit ég að er líka á Íslandi. Það er gríðarlegur árangur í efnahagsstjórn að ná 5,5–6% hagvexti og einstakt í Vestur-Evrópu og ástæða til að fagna því sérstaklega.

Auðvitað breytast rauntölur af þeim sökum. Auðvitað breytast allar rauntölur. Það gefur náttúrlega auga leið. En aðalmarkmið ríkisstjórnarinnar, rauði þráðurinn — eins og við orðuðum það fyrir ári síðan — í fjárlögunum fyrir árið 2004, að halda samneyslunni innan við 2% að raungildi og rekstrargjöldunum innan við 2,5% að raungildi, þau markmið náðust á þessu ári sem nú er að líða.

Spurningin er svo um þau fjárlög sem við erum að afgreiða núna fyrir næsta ár, hvort það gengur eftir eða ekki. Við erum að afgreiða þessi fjárlög, virðulegi forseti, með 10 milljarða afgangi. Menn geta svo sem deilt um það hvort það sé mikill eða lítill afgangur. Það er mikill afgangur í sögulegu samhengi á Íslandi. Það er mjög óvenjulegt og varla til dæmi um það í Evrópu á þessum árum að svona afgangur sé nokkurs staðar afgreiddur nema í Noregi sem hefur alveg sérstöðu. Flest Evrópuríkin hafa misst tök á ríkisfjármálum sínum. Þar er meðaltalshallinn yfir 3% af landsframleiðslu og yfir það á ríkinu í flestum ríkjum Evrópu eða sem samsvaraði 30 milljarða halla á ári. Þetta hefur okkur Íslendingum tekist að forðast, forðast að lenda í þeirri ótrúlegu súpu sem mun skerða lífskjör Evrópubúa, manna í Vestur-Evrópu, á komandi árum óhjákvæmilega.

Eins og gefur að skilja, virðulegur forseti, þá hefur sett dálítinn svip sinn á umræðuna hér í dag nýútkomið hefti Seðlabankans um peningamál svo og líka viðtöl við seðlabankastjóra og sú ákvörðun Seðlabankans að hækka enn stýrivexti á Íslandi og það um heila 100 punkta. Það á að hækka þá um 100 punkta, virðulegi forseti. Ég efast um að nokkur dæmi séu til um slíkt.

Ég veit ekki heldur, herra forseti, hvort það er mitt lán eða ólán að um nokkuð margra ára skeið hef ég verið í þeim hópi manna sem hafa átt mjög erfitt með að höndla tilburði Seðlabankans til hagstjórnar á Íslandi. Stundum hefur það komið fyrir mig að nærri því hefur verið komin fram á varir mínar svona faríseabæn: Guð, ég þakka þér að ég skil ekki þessa menn. Og þetta er alveg rétt. Þannig er þetta. Mér er alveg ómögulegt að skilja þetta. Mér er alveg ómögulegt að skilja það hvernig Seðlabankinn sem hefur eina skyldu — hann hefur eitt markmið. Það er verðlagið hér á Íslandi — hvernig honum dettur nú í hug sú eina aðgerð að hækka stýrivexti um 100 punkta til þess eins að auka enn á eina ójafnvægið sem er í íslensku þjóðfélagi, sem er utanríkisverslunin og hallinn á fjárlögunum, að fara núna enn eina ferðina að hækka íslensku krónuna, til þess að setja hvað? Til að setja útflutningsframleiðsluna út á gaddinn? Við verðum að geta framleitt í þessu landi. Hélt einhver að við kæmumst hjá því? Það mætti halda það.

Þessi sami Seðlabanki sem hefur þær skyldur að sjá um verðlag á Íslandi lækkaði bindiskylduna á síðasta ári um helming, fór með hana niður í 2%. Og þegar þessi stofnun er spurð að því hvernig standi á því að hún nýtir ekki þau stjórnunartæki sem hún hefur, af hverju hún notar ekki bindiskylduna þegar flæðir yfir landið slíkur aragrúi af peningum eins og sýnt hefur sig á undanförnum missirum í þeim glannaleik sem íslenskar peningastofnanir leika, hvert er þá svarið? Það er ekki til siðs lengur í flestum seðlabönkum að nota bindiskyldu, segja þeir. Það er svarið sem ég fæ. Það er ekki til siðs lengur.

En skyldi það nú vera, virðulegi forseti, að nokkurt þjóðríki eigi við álíka vanda að stríða eins og Íslendingar, að það hellist inn peningar í þetta örlitla viðkvæma hagkerfi, peningar af þeirri stærðargráðu sem við höfum verið að glíma við á undanförnum missirum? Örugglega hvergi, virðulegi forseti. Örugglega hvergi er nokkurs staðar við sambærilegan vanda að stríða. En þá fær maður þetta svar, að aðrir seðlabankar noti ekki þetta meðal.

Ég hef á undanförnum vikum og mánuðum verið ákaflega uggandi varðandi hinn íslenska gjaldmiðil og í hvaða hæðir hann er að fara. Þegar Seðlabankinn kemur í gær og ætlar enn að bæta um betur og keyra gengisvísitöluna niður í, ég veit ekki í hvað, 112, 110 er mér öllum lokið. Þá gerist ég mjög hræddur. Það er verið að reyna á þanþolið á svo fantalegan hátt að atvinnulífið í heild sinni, útflutningsframleiðslan, samkeppnisframleiðslan er í verulegri hættu. Það hlýtur að vera mjög ámælisvert og ástæða til að tala til þessara manna í fullri alvöru.

Þegar svo bætist ofan á að þessir sömu menn koma og átelja stjórnvöld fyrir að þau hafi ekki nóg aðhald í ríkisfjármálum — það er kannski að einhverju leyti rétt. En það er undarlegt þegar stjórnarandstaðan vitnar í þessi orð og notar þau sem sín. Það er rétt, virðulegi forseti, að í þeim fjárlögum sem hér liggja fyrir er um miklar hækkanir að ræða í heilbrigðismálum, félagsmálum og menntamálum. Það er um 8% hækkun, þ.e. kringum 5% raunhækkun ef spáin um verðbólgu gengur eftir. (Gripið fram í: Þið eruð greinilega búin að missa tökin á þessu.)

Það er þannig í þjóðfélagi okkar eins og flestum öðrum, og það er það sem öll stjórnvöld eiga við að glíma, að það er ásókn, það er mikill þrýstingur í félagslega þjónustu. Það er mjög sóst eftir því að auka framlög til menntamála. Það er mjög sóst eftir því að auka framlög til félagsmála og heilbrigðismála. Allar ríkisstjórnir, jafnframt sú sem situr í þessu lýðveldi Íslandi sem og aðrar í Vestur-Evrópu, eiga við það að stríða að gerð er almenn krafa og miklar kröfur um félagslega þjónustu alls staðar að. Það er kannski auðvelt að standa uppi í Seðlabanka og segja að ríkisstjórnin standi sig ekki gegn slíkri ásókn þjóðarinnar. Það er kannski léttasta verkið. Það er léttara um að tala en í að komast. Það er hins vegar rétt að þetta er aukning, þetta er verulega mikil aukning og það er ástæða til að taka það alvarlega.

Við gætum staðið betur að ríkisfjármálum en við gerum þó að við höfum staðið betur en flestar aðrar þjóðir. Það á bara að viðurkenna það. En það kostar heilmikið. Það kostar miklar fortölur við þessa þjóð að biðja hana að hætta og láta af kröfunum til hins opinbera, láta af kröfunum til ríkisins, láta af kröfunum til sveitarfélaganna. Við sitjum undir mjög miklum þrýstingi og við þurfum verulega á því að halda að sá þrýstingur minnki.

Mér finnst undarlegur málflutningur hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar sem taka upp þessi orð Seðlabankans og gera þau að sínum um leið og þau fullyrða að ekki sé nóg gert í þessum málaflokkum. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Kann að vera, herra forseti, að ég hafi þá tekið rangt eftir. Það eru gleðitíðindi ef menn eru að láta af þessu. Mér hefur a.m.k. heyrst þetta mjög lengi, undanfarna daga, vikur, mánuði og ár. Ef það er horfið, ef menn eru að hætta því í stjórnarandstöðunni að gera þessar kröfur, fagnar því enginn meira en ég. (Gripið fram í: Stjórnarandstaðan …) Það fagnar því enginn meira en ég, og ég vona að það sé rétt því að þá getum við sameiginlega staðið að því að vinna þessari þjóð það gagn sem við þurfum og við gerum það mest með því að biðja hana í góðu og með fortölum að láta af kröfum.

Íslenskri þjóð hefur gengið vel. Henni hefur gengið betur en öðrum vestrænum þjóðum núna um þó nokkurt árabil. Það er ástæða til að vera hræddur, það er ástæða til að fara varlega og það eina sem við getum kannski gert er að reyna að sameinast um að biðja menn að fara varlega. Það á þá við allar kröfur. Ég heyrði ekki betur en að hv. formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segði í sjónvarpinu að ástæða væri til og vonandi yrði kröfugerð grunnskólakennara um kauphækkanir öðrum starfsstéttum hvatning. Sumir eru bestir þegar þeir ná að bulla í beinni útsendingu. Þá líður þeim best og eru stoltastir yfir því. Þetta heyrði ég í mínu sjónvarpstæki. Ég býst við að líkt hafi verið farið um önnur sjónvarpstæki landsins líka. Menn skulu gæta sín því að tímarnir eru mjög hættulegir. Innstreymi peninga og velferð Íslendinga er undir því komin að við séum menn til þess — eins og máltækið segir þarf sterk bein til að þola góða daga. Nú þurfum við virkilega að reyna að átta okkur á því hvar við stöndum.

Gríðarlegt magn af peningum hefur hellst yfir þessa þjóð, gríðarlegt framboð er af peningum, mikið offramboð. Það er óvenjuleg staða á Íslandi þar sem menn litu alltaf á lánsfjárskort sem hið eðlilega náttúrulega lögmál. Ég fer ekki ofan af því, virðulegi forseti, sem ég hef sagt áður að mér finnast íslenskar peningastofnanir fara fram með ótrúlegum glannaskap með gylliboðum til almennings, einmitt til að biðja almenning um að taka þátt í þessari veislu, gerast lántakendur, kaupa, kaupa, bæta við sig, hækka, auka og efla. Það er almenningur og einkaneyslan sem bankarnir eru að reyna að efla, auka og trylla.

Það er ástæða til að taka undir orð sem féllu í gær, bæði hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni og hæstv. forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni, við eigum að reyna að sameinast í því að biðja fólk að fara varlega. Við eigum að sameinast í því og standa saman að því. Það er fullkomin ástæða til þess. (Gripið fram í: Á ríkissjóður ekki að ganga á undan með góðu fordæmi?) Ríkissjóður reynir að ganga á undan með góðu fordæmi, gæti gert það betur, hefur lækkað skuldir sínar, hefur reynt að hemja sig, er að reyna að hemja sig sérstaklega núna með því að lækka skatta. Reynsla okkar og annarra er sú, einmitt eins og ég hef oft tekið fram, virðulegi forseti, að eyðslustigið er sama og skattstigið. Það er mjög nauðsynlegt að passa sig á því í mikilli uppsveiflu í hagkerfinu að ríkið taki ekki til sín gríðarlega fjármuni og standi svo uppi eins og saltstólpi þegar fjarar undan tekjunum. Þetta er dæmi sem við þekkjum úr ríkisfjármálum svo margra annarra ríkja og sem hefur orðið þeim til svo mikils tjóns.

Það er sannarlega hægt að taka á mörgum hlutum og við eigum að gera það. Ég gerði það t.d. við 2. umr. fjárlaga, virðulegi forseti, tók tvö dæmi sem ég taldi að væri vert að skoða því að ég sæi þar miklum fjármunum kastað á glæ. Ég hef ekki orðið var við neitt mikil viðbrögð við því. Úr því að ég tók bara tvö dæmi af mörgum sem ég þekki skal ég endurtaka þessi tvö dæmi sem ég tók við 2. umr. og fara í gegnum þau aftur. Þau eru samt fleiri, þau eru mun fleiri.

Í fjárlögunum má lesa að núna höfum við í nokkur ár verið að undirbúa að bjóða okkur fram til öryggisráðsins. Við frekjuðumst fram fyrir Finna sem vildu gera þetta fyrir nokkrum árum, frekjuðumst fram fyrir þá þannig að það er rétt og satt sem sagt er, við eigum fjögur trygg atkvæði sem er búið að lofa okkur. Það eru Svíþjóð, Danmörk, Finnland og Noregur auk okkar eigin. Erum svo að bæta við kynningarfulltrúum, áróðursmeisturum, inn í kerfið. Það kostar 17 millj. kr. á ári, stykkið af þeim körlum. Ég hef látið að því liggja, og spurt eftir því, miðað við eins og segir í fjárlögunum að það er ákveðið að sækja á þessi mið af auknum þunga 2008, er þessi kostnaður einhvers staðar á milli 800 og 1.000 millj. kr. sem er varið í herkostnaðinn til að koma okkur inn í þetta öryggisráð. (Gripið fram í.)

Síðan eru hinar fréttirnar kannski góðar eða vondar, ég veit ekki hvernig menn líta á. Eftir því sem ég best veit eru líkurnar til að við verðum kosin nánast engar. (Gripið fram í.) Við erum að bjóða okkur fram á móti Tyrkjum. Tyrkir eru sú þjóð sem er nátengdust okkur af múslimaþjóðunum og mjög margir líta á það sem verulegan feng fyrir alþjóðastjórnmálin að Tyrkir sem starfa svo mjög með Evrópuþjóðunum en eru samt hluti af hinum múslimska heimi komi inn í öryggisráðið.

Evrópusambandið hefur boðið fram í þessar sömu kosningar Austurríki sem þykir ekki stórt á Evrópumælikvarða en er stórt miðað við Ísland. Auðvitað styðja Evrópuþjóðirnar sitt eigið framboð, og mér er spurn: Af hverju getum við ekki hætt við svona vitleysu? Af hverju getum við ekki tekið um það þverpólitíska ákvörðun, með allri virðingu fyrir þeim góðu og gegnu embættismönnum sem þarna ofmetnuðust fyrir hönd Íslands? Af hverju getum við það ekki? Við eigum að gera það en til þess þurfum við að ræða hlutina. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Flugið í eyðslunni er ekki komið á það stig enn þá en það kemur eftir næsta ár, eyðslan fer þá á mikið flug þannig að það er ekki ráð nema við ræðum þetta núna.

Hitt málið sem ég tók dæmi um við 2. umr. var hin gríðarlega aukning sem er á örorku á Íslandi. Ég vitnaði þar í skýrslu sem kom út hjá Tryggingastofnun ríkisins í maí og bað menn að fara í gegnum þetta, reyna að átta sig á því um hversu víðtækt vandamál væri þarna að ræða, bara efnislega vegna þess að við höfum heilmikið efni til að fjalla um. Við þurfum að fara í gegnum það sem Norðurlandaþjóðirnar eru að fást við, sérstaklega Svíar og Norðmenn því þar er aukningin mest. Það er rangt sem sagt er, að við séum lægri en allar Norðurlandaþjóðirnar. Við erum með fleiri öryrkja en t.d. Danir og sem verra er í því og ógnvænlegt, hraðaaukningin á Íslandi er yfir 7%.

Virðulegi forseti. Ég bað um málefnalega umræðu um þetta. Það kom mér ekki mjög mikið á óvart þó að ég fengi hana ekki, heldur fékk ég eitthvert hvæs frá hv. þm. Helga Hjörvar sem þá var hér í salnum og er enn þá. Hann vildi meina að mér gengi ekkert til nema mannvonskan ein að hafa orð á vandamálunum. Þess vegna fer ég aftur ofan í þetta því ég skora enn þá á þingheim að ræða þetta efnislega. Því miður hefur það ekki enn tekist.

Það er enginn heilsubrestur á Íslandi, það vita allir, ekki frekar en í Noregi. Við erum með bestu heilsu í heimi. Það er þverpólitísk samstaða og hefur verið það á Íslandi, órjúfandi, að allir íslenskir stjórnmálaflokkar standa með samhjálp, vilja samhjálp og hafa verið að efla samhjálp í gegnum áratugina. Það er óvíða meira en á Íslandi. Það er enginn pólitískur ágreiningur um það. Eins og ég gat um fyrir nokkru er hins vegar að mínum dómi mjög nauðsynlegt að bæði embættismenn og stjórnmálamenn átti sig á því að það gæti orðið til að eyðileggja þessa samhjálp og þjóðarviljann um að standa að samhjálpinni, standa að því að hjálpa þeim sem verulega þurfa á því að halda eins og við vitum að svo mjög margir þurfa, ef menn komast upp með það að misnota ríkið, misnota þann pólitíska vilja sem er til staðar hjá hinu opinbera.

Þetta er mikið alvörumál, 7% aukning ár eftir ár hjá þjóð sem fjölgar um 1%. Allir sem kunna litlu margföldunartöfluna geta nokkurn veginn náð því hvar það endar. Noregur á núverandi heimsmet í þessu. Þar var einu sinni, eins og ég hef áður getið um, heilbrigð og sterk þjóð sem lenti í því óláni að finna olíu og verða rík. Núna eru 10% Norðmanna öryrkjar og það allra versta er að af þeim 90% sem eru í vinnunni eru 10% daglega veikir. Er þó enginn heilsubrestur þar þannig að velferðin er eitthvað sem við þurfum að passa okkur á, passa okkur verulega mikið á, því að við höfum dæmin um hvernig hún getur orðið mönnum að falli.

Það hlýtur að vera vilji til þess að skoða þessi mál. Við fórum í gegnum þetta fyrir nokkrum árum. Þá töldum við að við værum að gera rétt þegar við breyttum um matsreglurnar, tókum upp einhvern enskan staðal um að hafa þetta miðað við læknisfræðilegt eða hlutlægt mat, fórum frá skandinavíska matinu. Það sem gerðist var að aukningin hefur aldrei verið meiri en nú. Hér er því ástæða til að staldra við, fara í gegnum þetta og ef að líkum lætur verður stórt gat í fjárlögunum ef þessi hraða aukning heldur áfram. Við ráðum ekkert við þetta.

Við sem berum ábyrgð á fjárlögunum verðum að gera okkur grein fyrir því hvar veikleikinn er og reyna þá að vinna að því að opna augu, bæði okkar sjálfra og annarra, fyrir því hvernig við gætum helst komið þar að gagni. Svo geta menn komið hér á eftir ef þeir vilja, endurtekið það og haft uppi meiningar um að mér gangi ekkert annað til en mannvonskan ein að gera þetta að umræðuefni. Það hefur engin áhrif á afstöðu mína. Það er lífsnauðsynlegt að ræða þetta mál, hvort sem menn telja það líklegt til vinsælda eður ei. Stjórnmál hljóta að gera þá kröfu til manna að þeir segi stundum meira en þeir halda að aðrir vilji heyra. Það eru erfiðleikarnir í þessu hjá mörgum manninum.

Virðulegi forseti. Við erum hér með fjárlög fyrir næsta ár og við tekur heils árs barátta við að láta þau ganga upp. Ég lét þau orð falla við 2. umr. að ég gerði mér grein fyrir því að það yrði þrautin þyngri á næsta ári að standa við þær fyrirætlanir að halda framleiðslunni innan við 2% af raungildi. Ég endurtek það hér. Ég veit að það verður mjög erfitt. Ég veit að það er mikill þrýstingur í þjóðfélaginu og mikið óþol. Það er óþol í því þjóðfélagi sem hefur fengið mestar launahækkanir og mesta kaupmáttaraukningu allra þjóða í Vestur-Evrópu. Samt þjáumst við af óþoli, miklu óþoli, og ég spyr eins og ég hef spurt áður: Hvaða launþegar eru það sem ekki þurfa á 30–40% kauphækkun að halda? Ég held að hver einasti launþegi þurfi þess með ef grannt er skoðað. En menn eiga líka að líta til sögunnar. Hvernig hefur mönnum farnast best? Hver hefur verið eina leiðin sem menn hafa þekkt hingað til til að bæta kjör fólks og best þeirra sem verst standa? Það er hin sígandi lukka, virðulegi forseti.

Það hefur aldrei tekist að bæta kjörin með rykkjum eða skrykkjum, heldur hefur það gengið með sígandi lukku. Menn verða að gæta að því að allt á sér uppruna í framleiðslunni og framleiðsluatvinnuvegunum. Þeir búa til verðmætin og það verður að hlúa að þeim en ekki grafa undan þeim eins og hagstjórnaraðilarnir á Íslandi virðast gera með tillögum sínum í dag.