131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:32]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Að vanda kom hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson víða við í ræðu sinni og er ekki hægt í andsvari að taka á öllum þeim þáttum. Þar var margt sem rakst á annars horn og svo sem ekki í fyrsta skipti.

Þó er nauðsynlegt að hv. þingmaður fari nákvæmlega yfir það, þannig að um það ríki enginn misskilningur, en ég gat ekki skilið hv. þingmann betur en svo að hann teldi að þær aðgerðir sem Seðlabankinn boðaði í gær, þegar ný þjóðhagsspá lá fyrir, gengju gegn hagsmunum samfélagsins, þ.e. gætu aukið á vandann í efnahagslífinu, gætu aukið þenslu og grafið undan atvinnulífinu. Bara svo að ég sé ekki að misskilja neitt, hv. þingmaður, þá vil ég að það komi skýrt fram, hvort ég hef skilið þetta rétt eða rangt.

Varðandi dæmin sem hv. þingmaður tók þá er rétt að spyrja hann hvort hann sé ekki klár á því hver er hæstv. utanríkisráðherra nú um stundir.