131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:38]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skyldi aldrei vera að ég mundi bregða undir mig betri fætinum og leggja til að Seðlabankinn yrði lagður niður. Það gæti alveg eins gerst. Ég sé ekki til hvers þessi stofnun er í dag. Mér er alveg ómögulegt að sjá það. Ég veit ekki hvað hún er að gera.

Hins vegar hélt ég að það væri stjórnmálamanna að halda fram skoðunum sínum, meiningum og trú og þeir ættu að nýta sér aðstöðuna hér til þess að boða hvað þeir telja rétt, hvað þeir telja að eigi að gera, hefðu fyllsta rétt til þess og bæri skylda til að segja það öllum. Ég hélt að þeim bæri skylda til þess, að til þess væru þeir og ef þeir hefðu enga skoðun eða meiningu, enga sýn og engan draum þá gætu þeir bara þagað og fengið sér aðra vinnu. (Gripið fram í: Taki þeir til sín sem eiga.)