131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:40]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fljótlega eftir að þingræði og lýðræði komst á í þessum heimi fóru menn að sjá í því dálítið hlægilega hluti.

Árið 1791 birtist í dagblaði einu í París frásögn af því að maður einn hefði hlaupið mikið, verið mikil læti í honum og hann hefði rutt öðrum mönnum frá sér á götunni og sagt: Frá, frá, ég er að flýta mér. Hann var spurður: Hvað gengur á fyrir þér, maður minn, af hverju liggur þér svo mikið á? Þá sagði maðurinn: Jú, frá, frá, ég er að flýta mér. Ég er að fara á eftir fólkinu af því að ég er nefnilega foringinn.